Filippseyjar: Dauðarefsingin er ómannúðleg, ólögleg og gagnslaus leið til berjast gegn fíkniefnum

9.3.2017

Fulltrúadeild filippseyska þingsins hefur samþykkt lagafrumvarp þess efnis að dauðarefsingin skuli tekin upp að nýju, þvert á alþjóðlegar skuldbindingar. Lagafrumvarpið var lagt fram af stjórnarmeirihlutanum undir forystu Rodrigo Duterte, forseta landsins.

„Sú hugmynd að dauðarefsingin muni leysa landið undan fíkniefnum er einfaldlega röng. Endurinnleiðing á aftökum mun ekki stemma stigu við þeim vandamálum sem fylgja fíkniefnum eða sporna við glæpum. Dauðarefsingin er ómannúðleg og gagnslaus refsing. Hún er aldrei lausnin. Tilraun Filippseyja til að taka dauðarefsinguna upp á nýjan leik er klárlega ólögleg. Landið ávinnur sér aðeins vondan orðstír sem eitt fárra ríkja sem fetar þá braut taka upp þessa hrikulegu refsingu,“ segir Champa Patel framkvæmdastjóri teymis hjá Amnesty International sem fæst við málefni Suðaustur-Asíu og Kyrrahafslanda.

Frumvarpið var samþykkt með 216 atkvæðum, 54 greiddu atkvæði gegn henni og einn sat hjá. Forseti fulltrúadeildarinnar hótaði að vísa þingmönnum úr lykilstöðum ef þeir greiddu akvæði gegn lagafrumvarpinu eða sætu hjá við atkvæðagreiðsluna. Lagafrumvarpið fer nú fyrir öldungadeild þingsins. „Öldungadeildin er síðasta von Filippseyinga um að bjarga landinu frá þessu óheillaskrefi og til að halda í alþjóðlegar skuldbindingar þess,“ segir Champa.

Lagafrumvarpið er samþykkt á tímum þegar landið hefur gengið í gegnum aftökuöldu þar sem 8000 einstaklingar hafa látið lífið. Margir þeirra hafa verið teknir af lífi, án dóms og laga, í „stíðinu gegn fíkniefnum“ í valdatíð Duterte forseta.

Amnesty International er á móti dauðarefsingunni undir öllum kringumstæðum, sama hver glæpuri er að ræða. Samkvæmt alþjóðalögum má aðeins beita dauðarefsingunni þegar um alvarlegustu glæpina ræðir. Glæpir tengdir fíkniefnum falla ekki undir þann flokk. Engin sönnunargögn sýna fram á að dauðarefsingin fæli fólk frá því að fremja glæpi.

„Dauðarefsingin, sem er beitt gegn meintum eiturlyfjasölum, í formi aftakna án dóms og laga, brýtur gegn alþjóðalögum, rænir fólk réttinum til lífs og beinist aðallega gegn fátækum.“

Árið 2007 fullgiltu Filippseyjar alþjóðlegan samning sem leggur bann við aftökum og skuldbindur landið til afnema dauðarefsinguna með öllu. Lagalega er ekki hægt að draga þessa skuldbindingu til baka tafarlaust.

Frá því að dauðarefsingin var afnumin árið 2006 hafa stjórnvöld á Filippseyjum verið ötull málsvari gegn henni og átt frumkvæði að baráttu gegn dauðarefsingunni á alþjóðlegum vettvangi. Þá hafa Filippseyjar barist fyrir mildun dóma þegar landar þeirra hafa verið dæmdir til dauða á erlendri grundu.

 

Til baka