Bandaríkin: Foreldrar neyðast til að skilja við barn sitt vegna ferðabanns Trumps

13.3.2017

Þetta var erfitt val sem ekkert foreldri ætti að þurfa að standa frammi fyrir.

Ættu þau að halda hópinn með tveimur ungum dætrum sínum og glata þannig tækifærinu til að flýja hörmungar stríðsins eða gera atlögu að frelsinu og skilja eins árs gamla dóttur sína eftir í ókunnugu landi, nánast hinum megin á hnettinum?

Hinn íransk-bandaríski Baraa Ahmed (ekki hans rétta nafn) og eiginkona hans stóðu frammi fyrir þeirri ómögulegu ákvörðun að skilja barnið sitt eftir í kjölfar ferðabanns Trumps til Bandaríkjanna.

„Ég hefði aldrei skilið dóttur mína eftir í Malasíu og flogið aftur til Bandaríkjanna ef ekki hefði verið fyrir ákvörðun Bandaríkjaforseta. Ekkert hefði fengið mig til að skilja hana eftir...en forsetatilskipun Trumps neyddi okkur til að gera það sem við gerðum,“ segir Baraa Ahmed.

Hvað fékk þau til að treysta vini í Malasíu fyrir barninu sínu, landi sem er í 15.000 kílómetra fjarlægð, þar sem þau eiga engan nákominn að?

Bandaríski draumurinn

Baraa Ahmed yfirgaf Jemen fyrir nokkrum árum til að starfa í Bandaríkjunum og skapa betra líf fyrir sig og fjölskyldu sína. Hann settist að í New York og gerðist sölumaður. Árið 2014 var honum veittur bandarískur ríkisborgararéttur og ári síðar sótti hann um vegabréfsáritun fyrir konu sína og eldri dóttur til að þau gætu sameinast í Bandaríkjunum.

Enn sem komið er hljómar saga þeirra eins og svo margra annarra víðs vegar um heiminn sem leggja hart að sér til að skapa sér nýtt líf í Bandaríkjunum. En tveir átakanlegir og ófyrirséðir atburðir snéru ameríska draumnum upp í óslitna martröð.

Til að byrja með brutust út blóðug átök í Jemen í mars 2015 þar sem almennir borgarar urðu fyrir árásum bæði á jörðu niðri og úr lofti. Átökin leiddu til þess að tvær milljónir manna flosnuðu upp frá heimilum sínum.

Síðan tók forsetatilskipun Trumps við sem bannaði komu fólks frá Jemen og nokkrum öðrum löndum til Bandaríkjanna.

Samkvæmt Trump er tilgangur ferðabannsins að halda „hryðjuverkamönnum“ frá landinu. En sú blygðunarlausa mismunun, á grundvelli þjóðernis og trúar, sem bannið felur í sér, sáði ótta meðal flóttafólks sem flýr stríðsátök og ofsóknir. Flóttafólks sem þegar þurfti að glíma við langt umsóknarferli um vegabréfsáritun og margvíslega ferilskoðun.

„Vegna aðstæðna í Jemen þá vildi ég koma með konu mína og barn hingað, af því að þær bjuggu á svæði sem varð verst úti í stríðinu. Ég vildi að þær yrðu hjá mér en megináhyggjur mínar lutu að stríðinu,“ segir Baraa Ahmed.

Kostnaðurinn við að flýja eyðileggingu stríðsins

Eftir að bandaríska sendiráðinu í Jemen var lokað vegna ófriðar í landinu gerði Baraa Ahmed ráðstafanir, með miklum tilkostnaði, til að koma konu sinni og dóttur til Kuala Lumpur í Malasíu, þar sem þær gætu haldið áfram með umsóknarferli sitt um vegabréfsáritun. Karlkyns ættingi þeirra varð að fylgja þeim mæðgum eftir þegar þær yfirgáfu Jemen í lok mars 2016 en þau þurftu að ferðast til þriggja landa áður en þeim tókst að komast í flug til Malasíu. Í millitíðinni flaug Baraa Ahmed frá New York til Kuala Lumpur til að sameinast þeim mæðgum. Næstu ellefu mánuði á meðan þau biðu eftir vegabréfsárituninni reiknaðist Baraa til að hann hafi varið 40.000 bandaríkjadölum í kostnað vegna flugferða, íbúðar, bílaleigu og vegabréfsumsóknar.

En ringulreiðin var verri en töfin og kostnaðurinn. Þar sem yngri dóttir Baraa var fædd síðla árs 2015, rúmu ári eftir að hann sótti um vegabréfsáritun fyrir konu sína og eldri dóttur, sótti Baraa um vegabréfsáritun fyrir yngri dótturina og greiddi fyrir kostnaðasamt faðernispróf. Þrátt fyrir fjölda viðtala hjá útlendingastofnun Bandaríkjanna í tengslum við mál yngri dótturinnar var umsókn hennar um vegabréfáritun aðskilin umsókn fjölskyldunnar. Þegar kona Baraa og eldri dóttirin fengu vegabréfsáritun seint á síðasta ári lágu engar upplýsingar fyrir um stöðu vegabréfsumsóknar yngri dótturinnar.

Enn og aftur neyddist fjölskyldan til að bíða átekta.

Fjölskylda slitin í sundur með einu pennastriki

Síðan bárust fregnir af ferðabanni Trumps þann 27. janúar á þessu ári. Þegar bandaríski alríkisdómstóllinn fyrirskipaði bráðabirgðabann á forsetatilskipunina flykktust margir, sem höfðu gildar vegabréfsáritanir í Bandaríkjunum, frá Jemen til að sneiða hjá þeirri hættu að verða útilokaðir á nýjan leik. Þar sem engar upplýsingar lágu fyrir um stöðuna á vegabréfsáritun yngri dótturinnar tóku Baraa Ahmed og kona hans þá erfiðu ákvörðun að fljúga til Bandaríkjanna og skilja barnið sitt eftir.

„Ég átti ekki annarra kosta völ en að skilja barnið mitt eftir hjá vini mínum og konu hans og halda til Bandaríkjanna ásamt konu minni og eldri dóttur sem höfðu fengið vegabréfsáritun. Þetta var mjög erfitt val en hvað átti ég að gera? Ég átti ekki annað val. Ég gat ekki hætt á að allir glötuðu tækifærinu á að komast inn í landið,“ sagði Baraa við Amnesty International.

Vegna fjárhagserfiðleika og biðar eftir græna kortinu í Bandaríkjunum, getur fjölskyldan ekki ferðast aftur til Malasíu til að hitta barnið sitt.

Þessi eldraun hefur reynt mjög á andlega heilsu konu Baraaa.

„Barnið var enn á brjósti þegar það varð aðskilja við móður sína. Konan mín hegðar sér eins og hún sé búin að missa vitið, hún gerir undarlega hluti. Hún ásakar mig, segir að þetta sé allt mér að kenna. Þú getur rétt ímyndað þér hversu mikið hún saknar dóttur sinnar. Ég þjáist líka mikið. Ég er sundurtættur í sálinni vegna þess að ég skyldi barnið mitt eftir,“ segir Baraa Ahmed. 

 

Til baka