• ©Eric Bridiers

Amnesty International skora á íslensk stjórnvöld á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að taka á móti fleiri flóttamönnum

27.3.2017

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti niðurstöður heildaryfirferðar á stöðu mannréttindamála á Íslandi (UPR) þann 16. mars 2017. Við afgreiðslu á niðurstöðunum lýsti Amnesty International yfir afstöðu sinni til þeirra.

Amnesty International fagnar því að nítján ríki Sameinuðu þjóðanna hafa mælst til þess að íslensk stjórnvöld fullgildi valfrjálsa bókun við Samning gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þá lýsa samtökin yfir ánægju sinni með að tilmælin skuli njóta stuðnings íslenskra stjórnvalda.[1]

Íslensk stjórnvöld höfðu áður skuldbundið sig til að skoða fullgildingu á valfrjálsri bókun við samning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og bókunina við samninginn gegn pyndingum þegar fyrsta heildaryfirferðin á stöðu mannréttindamála í landinu fóru fram árið 2012,.[2] Á árinu 2015 fól Alþingi ríkisstjórninni að fullgilda valfrjálsa bókun við samninginn gegn pyndingum.[3] Amnesty International skorar á íslensk stjórnvöld að ljúka fullgildingu á báðum bókunum án tafar.

Flóttafólk í heiminum býr nú við mikla og brýna neyð sem krefst þess að ríki veiti fleiri flóttamönnum alþjóðlega vernd m.a. fyrir tilstilli endurbúsetuáætlunar og áætlunar um flutning á hælisleitendum frá grísku eyjunum. Amnesty International fagnar almennri yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda um að taka á móti fleiri flóttamönnum,[4] þeirra á meðal sýrlensku flóttafólki í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.[5] Hins vegar hafa íslensk stjórnvöld enn sem komið er ekki lýst því yfir hversu mörgum kvótaflóttamönnum þau skuldbinda sig til að taka á móti. Amnesty International skorar á íslensk stjórnvöld að lýsa slíkri skuldbindingu yfir og íhuga jafnframt þátttöku í áætlunum um flutning hælisleitenda innan Evrópu, auk þátttöku sinnar í áætlunum um endurbúsetu flóttafólks.

Amnesty International fagnar viðleitni íslenskra stjórnvalda til að koma á laggirnar nýrri mannréttindastofnun, í takt við Parísarsamkomulagið, sem byggð verði á starfi Mannréttindaskrifstofu Íslands.[6] Amnesty International hvetur íslensk stjórnvöld til að hraða verkefninu í samstarfi við frjáls félagssamtök.

Í kjölfar ályktunar Alþingis árið 2010 um að fela ríkisstjórninni að leita leiða til að styrkja tjáningarfrelsi o.fl. var af hálfu ríkisstjórnarinnar samið lagafrumvarp á síðasta áriþess efnis að felldar verði niður refsingar við ærumeiðingum. Amnesty International harmar af þeim sökum að íslensk stjórnvöld hafi hafnað framkomnum tilmælum um að refsingar við ærumeiðingum verði felldar úr lögum og hvetur stjórnvöld til að endurskoða þá afstöðu sína.[7]


[1] Sjá skjal mannréttindanefndar S.Þ. nr. A/HRC/34/7, tilmæli 115.1-115.13 og 115.19.

[2] Sjá skjal A/HRC/28/59/Add.1,  18. mgr., sbr. skjal A/HRC/WG.6/26/ISL/2, 1. mgr.

[3] Sjá þál. nr. 8/145, þskj. 677 — 6. mál á 145. löggj.þ., samþykkt 19. desember 2015.

[4]  Sjá Stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar

, 10. janúar 2017, bls. 4, sbr. http://www.stjornarrad.is/media/Rikjandi_rikisstjorn/stefuyfirlysing11-2-17.pdf .

[5] Sjá skjal A/HRC/34/7, 85 mgr.

[6] Sjá skjal A/HRC/34/7, 50. mgr.

[7] Sjá skjal A/HRC/34/7/Add.1, 6. mgr. (í skjali A/HRC/34/7, mgr. 117.41).

Til baka