Bandaríkin: Fyrstu 100 dagarnir í forsetatíð Trump

28.4.2017

Nú þegar ríkisstjórn Donald Trumps forseta hefur verið við völd í 100 daga hefur Amnesty International tekið saman lista yfir 100 atriði þar sem ríkisstjórn Trumps hefur ógnað mannréttindum í Bandaríkjunum og um heim allan. Stundum hefur það tekist en stundum hefur það verið stöðvað af sterkri og vaxandi andstöðuhreyfingu.

„Þessir fyrstu 100 dagar sýna hversu hættuleg stefnumál Trumps eru. Þeir eru einnig leiðarvísir um hvernig hægt er stöðva málin og vernda mannréttindi í Bandaríkjunum og um heim allan,“ segir Margaret Huang, framkvæmdastjóri Bandaríkjadeildar Amnesty International.

„Þegar við settumst niður til að skrá fyrstu 100 dagana tók það ekki langan tíma að skilgreina 100 atriði þar sem ríkisstjórnin hefur ógnað mannréttindum fólks. Það ótrúlega við þetta allt saman er ekki bara hvernig ríkisstjórn Trumps hefur reynt að neita fólki um frelsi, réttlæti og jafnrétti heldur einnig hvernig  almenningur hefur brugðist við og neitað að láta það gerast.“

Á meðal atriða á lista Amnesty International yfir helstu ógnir við mannréttindi þessa fyrstu 100 daga eru:

 

  • Svívirðilegar aðferðir við landamæragæslu við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó þar sem komið er fram við fólk eins og glæpamenn þegar það leitar sér hælis í Bandaríkjunum vegna skelfilegs ofbeldis í heimalandinu.
  • Verulegar takmarkanir á aðgengi kvenna að heilsugæslu í Bandaríkjunum og um heim allan vegna kyn-og frjósemisréttinda.
  • Ógilding á vernd hinsegins-fólks á vinnustað og nemenda sem eru transgender.
  • Leyfisveiting til Dakota Access Pipeline til að bora undir Missouri-ána norðan við Standing Rock, en þær aðgerðir ógna vatnsbóli ættbálksins Standing Rock Sioux og annarra ættbálka.

 

Á listanum er einnig að finna dæmi um tilraunir ríkisstjórnarinnar til að innleiða stefnumál sem brjóta á mannréttindum en hafa verið stöðvaðar, að hluta til vegna gífurlegrar andstöðu frá grasrótarstarfsemi eða á pólitískum vettvangi:

 

  • Fjölmargar tilraunir til að meina fólki frá löndum þar sem múslimar eru í meirihluta inngöngu inn í Bandaríkin og loka á aðgang flóttafólks.
  • Tilraun til að koma aftur á kerfisbundnum pyndingum og fjölga föngum í Gvantanamó samkvæmt drögum að forsetatilskipun.
  • Tilraun til að svipta milljónir Bandaríkjamanna sjúkratryggingu.

 

„Hvort sem það er að loka landarmærum, snúa baki við flóttafólki, reyna að banna múslimum að koma til Bandaríkjanna eða styrkja stöðu þeirra sem brjóta á mannréttindum um heim allan, lítur út fyrir að Trump forseti ætli sér að kynda undir átök utan landamæra Bandaríkjanna á sama tíma og hann vill loka á dyr þeirra sem flýja ofbeldi, “ segir Huang,

„Við höfum lært að þegar við tökum höndum saman og berjumst á móti þá getum við haft áhrif. Ríkisstjórn Trumps er enn ógn við mannréttindi en leiðin til að brjóta ógnina á bak aftur er einnig til staðar.

 Sjá: http://amnestyusa.org/Trump100Days

 

Til baka