Venesúela: Auknar „nornaveiðar” gegn mótmælendum mitt í stjórnmálakrísu landsins

1.5.2017

Samkvæmt nýrri skýrslu Amnesty International sem ber heitið Silenced By Force: Politically-Motivated Arbitrary Detentions in Venezuela beita stjórnvöld í Venesúela dómskerfinu í þeim ólöglega tilgangi að auka ofsóknir og fjölga refsingum gegn þeim sem eru á öndverðum meiði. Mótmælum hefur fjölgað mjög í landinu sem leitt hefur til nokkurra dauðsfalla og þess að hundruð manna hafa slasast eða sætt fangelsun.

Skýrslan hefur að geyma ítarlegar upplýsingar um ólöglegar aðgerðir af hálfu stjórnvalda í Venesúela til að bæla niður tjáningarfrelsið. Meðal þeirra aðgerða sem stjórnvöld beita eru handtökur án heimilda af hálfu leyniþjónustu landsins (Servicio Bolivariano de Inteligencia Nacional, SEBIN), lögsóknir gegn friðsömum aðgerðasinnum vegna „glæpa gegn föðurlandinu”, óréttmætar varðhaldsvistanir í aðdraganda réttarhalda og rógsherferðir í fjölmiðlum gegn stjórnarandstæðingum.  

„Í Venesúela er andóf ekki leyfilegt. Engin takmörk virðast vera á vilja stjórnvalda til að beita aragrúa af lagalegum klækjabrögðum til að refsa þeim er tjá skoðanir sem eru í andstöðu við opinbera afstöðu stjórnvalda,” segir Erika Guevara Rosas framkvæmdastjóri Ameríkuteymis Amnesty International.

„Stjórnvöld í Venesúela verða að leita hagnýtra og varanlegra lausna á þeirri bráðu neyð sem nú ríkir í landinu í stað þess að einblína á leiðir til að þagga niður í andófsröddum.”

Þann 11. janúar 2017 handtók leyniþjónusta landsins þingmanninn Gilber Caro sem sat í stjórnarandstöðu og aðgerðasinnann Steicy Escalona sem á sæti í stjórnarandstöðuflokknum Voluntad Popular þegar mennirnir ætluðu að snúa aftur til Karakas, höfuðborgar Venesúela.

Sama dag, birtist varaforseti landsins í sjónvarpinu og lýsti því yfir að byssur og sprengiefni hefðu verið gerð upptæk af Caro og Escalona. Þá fullyrti varaforsetinn að þingmaðurinn hefði verið bendlaður við hryðjuverkastarfssemi og gaf í skyn að hann  hefði laumast yfir landamærin til Kólumbíu. Escalona fór fyrir herdómstól og var ákærður fyrir uppreisn og stuld á eigum hersins. Caro var varpað í fangelsi og í mars var enn ekki búið að leiða hann fyrir rétt.

Mál Caro og Escalona varpa ljósi á nokkrar af þeim mörgu aðferðum sem stjórnvöld í Venesúela beita í tilraun sinni til að þagga niður í allri andstöðu sem birtist m.a. í síauknum mótmælum vítt og breitt um landið.

Í flestum tilfellum eru sakborningar ákærðir fyrir alvarlega glæpi eins og föðurlandssvik, „hryðjuverk eða stuld á eigum hersins“ eða „uppreisn“, en þessar ákærur veita heimild til varðhaldsvistar áður en réttarhöld hafa farið fram, jafnvel þegar lögmæt sönnunargögn liggja ekki fyrir til að færa sönnur á glæpinn.

Þessar tegundir glæpa falla undir sérstaka lögsögu, eins og herréttarlögsögu, sem er ekki óháð, sjaldan óhlutdræg og ætti ekki að koma við sögu í tilfellum óbreyttra borgara.

Amnesty International hefur einnig skráð mál þar sem samband fanga við fjölskyldu sína eða lögfræðinga er takmarkað og setur þá í aukna hættu á að sæta alvarlegum mannréttindabrotum eins og pyndingum og annarri illri meðferð. 

Samkvæmt vitni var stúdentaleiðtoginn og núverandi leiðtogi Voluntad Popular, Yon Goicoechea, handtekinn þann 29. ágúst 2016 af óþekktum einstaklingum sem keyrðu sendiferðabíl án númeraplötu. Handtaka Goicoechea var á endanum staðfest af háttsettum embættismanni innan stjórnarflokksins, Sameinaða sósalistaflokki Venesúela, (Partido Socialista Unido de Venezuela, PSUV), sem lýsti því yfir að Goicoechea hafi verið handtekinn fyrir að bera sprengiefni sem að sögn átti að nota í mótmælum þann 1. september síðastliðinn.

Þrátt fyrir víðtæka leit fjölskyldu Yon Goicoechea var ekki unnt að ganga úr skugga um hvar hann var niðurkominn fyrr 13 tímum eftir að Goicoechea hafði síðast samband við fjölskyldu sína. Hans var saknað allt frá handtökunni þar til upplýsingar fengust um að hann væri í haldi í SEBIN El Helicoide-fangelsinu í Karakas. Goicoechea fór fyrir dóm en samkvæmt upplýsingum Amnesty International hefur honum verið haldið í einangrunarvist frá 1. september 2016.

Þann 20. október 2016 féll dómur þar sem gengist var við því að öllum skilyrðum fyrir lausn Yon Goicoechea úr fangelsi væri mætt, þar sem skrifstofu saksóknara hafði ekki tekist að finna nægilega sannanir til ákæru gegn honum. Þrátt fyrir þennan dómsúrskurð er Goicoechea enn í haldi í SEBIN-fangelsinu og samkvæmt fjölskyldu hans hefur mál hans ekki verið opið almenningi frá desember 2016.

„Sú staðreynd að fólk situr í fangelsi í Venesúela án formlegrar ákæru sýnir hversu slæm staða mannréttindamála er í landinu,” segir Erika Guevara-Rosas.

 

Til baka