Katar: Réttindi farandverkafólks enn vanrækt á meðan fyrsti leikur fer fram á HM-vellinum

22.5.2017

Farandverkamenn sem vinna að byggingarframkvæmdum fyrir heimsmeistaramótið í Katar 2022 þurfa að þola kröpp kjör og bágar vinnuaðstæður. Þetta er mat Amnesty International en síðasta föstudag fór fyrsti knattspyrnuleikurinn þar fram frá því að hafist var handa við enduruppbyggingu helsta fótboltaleikvangs landsins.

Líkt og Amnesty International greindi frá í fyrra hafa fyrirtæki sem taka þátt í framkvæmdunum á Khalifa-leikvangi vanrækt réttindi verkamanna sinna með kerfisbundnum hætti. Völlurinn var vígður síðastliðinn föstudag, einum mánuði eftir að sjálfstæðir rannsóknaraðilar birtu ný gögn  um illa meðferð farandverkamanna sem unnið hafa í tengslum við mótið.

,,Ár er liðið frá því Amnesty International greindi frá þeirri misneytingu sem farandverkamenn, sem vinna við Khalifa leikvanginn, hafa þurft að þola. Misbeiting í tengslum við framkvæmdir vegna Katar 2022 hefur hins vegar haldið áfram,” sagði James Lynch, aðstoðarframkvæmdastjóri alþjóðlegra málefna hjá Amnesty International.

Skipuleggjendur heimsmeistaramótsins í Katar hafa gert sérstakar kröfur til verktaka um að koma í veg fyrir að þetta gerist. Raunveruleikinn er hins vegar sá að verkamenn á þeirra vegum búa við það að vinnuveitendur geti brotið á réttindum þeirra sér að skaðlausu.

,,Hundruð þúsunda hafa verið ráðnir til að byggja að minnsta kosti sjö aðra leikvanga í tengslum við heimsmeistaramótið, auk starfsfólks til að skipuleggja og vinna við framkvæmd mótsins. Þannig verður fjöldi annarra verkamanna í mikilli hættu á næstu fimm árum.”

Skýrsla Amnesty International The Ugly Side of the Beautiful Game: Exploitation of Migrant Workers on a Qatar 2022 Site, varpar ljósi á hvernig réttindi verkafólks eru brotin sem vinna við Khalifa leikvanginn.

,,Brýn þörf er á endurskoðun til að koma í veg fyrir að ill meðferð verði það sem við minnumst í tengslum við heimsmeistaramótið árið 2022.” James Lynch, Amnesty International.

Margir þeirra verkamanna sem rætt var við sögðust vera í mikilli skuld eftir að hafa greitt há ráðningargjöld. Vegabréf annarra höfðu verið gerð upptæk og enn aðrir sögðust hafa þurft að vinna nauðungarvinnu.

,,Niðurstöður sem birtar voru í seinasta mánuði frá óháðum rannsóknaraðilum, Impactt Ltd, sýndu að vanrækslu á réttindum verkafólks er hvergi nærri lokið, þrátt fyrir tilraunir FIFA til að bæta ímynd keppninnar.”

Í nýlegri athugun voru tíu verktakar af 149 verktökum sem standa að mótinu, skoðaðir af handahófi í tengslum við málið. Athugunin endurspeglaði margt sem kom fram í skýrslu  Amnesty International  Þess á meðal að:

 

  • 79% verkamanna höfðu þurft að greiða ráðningargjöld
  • Helmingur verktaka, sem láta starfsmenn vinna umfram klukkustundir, gefa þeim ekki hvíldardaga. Þar á meðal  vann ein manneskja  án þess að fá einn frídag í fimm mánuði
  • 25% verkamanna treystu sér ekki til  að tilkynna um heilsufarsvanda eða lakar öryggisaðstæður vegna ótta um að fyrir það yrði hefnt
  • Fjórir af tíu verktökum tóku vegabréf starfsmanna sinna, en það brýtur mögulega lög í Katar

Skoðunin leiddi í ljósi að einhverjar framfarir hefðu orðið á stöðu mála en allir verktakar hefðu þó sýnt vanrækslu.

Khalifa-leikvangurinn er fyrsti leikvangur heimsmeistaramótsins sem opnaður er, en hann opnaði föstudaginn síðastliðinn þegar leikir Emir Cup fóru fram á milli þarlendu liðanna Al Rayyan og Al Sadd. 

Til baka