Tyrkland: Fangelsun formanns Amnesty óréttlætanleg

14.6.2017

Ákvörðun tyrkneska ákæruvaldsins að kæra Taner Kiliç, formann Amnesty í Tyrklandi, fyrir aðild að hryðjuverkasamtökum er lítilsvirðing við réttlætið og sýnir harkaleg áhrif herferðar tyrkneskra yfirvalda í kjölfar misheppnaðrar valdaránstilraunar í júlí í fyrra.

 Taner Kiliç er einn af þolendum yfirgripsmikillar hreinsunar yfirvalda í kjölfar handtöku hans á þriðjudagsmorgun í síðustu viku grunaður, ásamt 22 öðrum lögmönnum í Izmir, um að tengsl við Fethullah Gülen. Við fyrirtöku í dómsmáli hans á mánudaginn síðastliðinn var hann ákærður fyrir aðild að „ hryðjuverkasamtökum Fetullah Gülen “ og úrskurðaður aftur í gæsluvarðhald. Amnesty International kallar eftir því að hann verði leystur úr haldi án tafar og skilyrðislaust.

„Taner Kiliç er réttsýnn og ákafur verjandi manndréttinda. Ákærur á hendur honum á mánudag voru algjörlega óréttlætanlegar. Þær sýna hversu handahófskennd og yfirgripsmikl þessi brjálæðiskennda herferð tyrkneskra stjórnvalda gegn þeim sem þeir telja vera óvini sína og gagnrýnendur er orðin,“ segir Salil Shetty framkvæmdastjóri Amnesty International.

„Handtaka Taner Kiliç sýnir ekki aðeins fram á lítilsvirðingu fyrir mannréttindum heldur einnig vilja til að ráðast gegn þeim sem verja mannréttindi. Við skorum á alla þá sem er annt um mannréttindi, bæði í Tyrklandi sem og annars staðar, að láta í sér heyra fyrir þennan hugrakka baráttumann sem hefur helgað líf sitt og nú fórnað frelsi sínu fyrir málstaðinn.“

 Deginum áður voru átta lögfræðingar úrskurðaðir aftur í gæsluvarðhald. Einn var leystur úr haldi gegn tryggingu. Sjö aðrir lögfræðingar fóru í dómshúsið á sama tíma og Taner Kiliç en biðu enn eftir úrskurði í málum sínum. Sex aðrir voru áfram í haldi lögreglu.

 Það eina sem yfirvöld hafa sagt að bendli Taner Kiliç við Gülen hreyfinguna er að hann hafi verið með Bylock, öruggt símaforrit fyrir skilaboð sem yfirvöld segja að hafi verið notað af „hryðjuverkasamtökum Fethullah Gülen“, í símanum sínum í ágúst 2014.

 Engin sönnunargögn hafa verið lögð fram til að styðja við þessa staðhæfingu og Taner Kiliç neitar að hafa halað niður eða notað Bylock. Hann hafi fyrst heyrt af því nýlega vegna meintrar notkunar í tengslum við undanfarnar handtökur og ákærur.

 „Taner Kiliç er hvorki stuðningsmaður né fylgjandi Fethullah Gülen hreyfingarinnar og hefur í raun gagnrýnt hlutverk þess í Tyrklandi. Einu sönnunargögnin gegn honum eru að hann hafi verið með þetta símaforrit fyrir örugg samskipti í símanum sínum. Jafnvel þótt satt væri, þá er það ekki sönnun um glæp. Hann á ekki að standa frammi fyrir réttarhöldum vegna ásakanna sem eru hæpnar og ófullnægjandi“ segir Salil Shetty. „Amnesty International heldur áfram sleitulausri baráttu sinni fyrir lausn hans og ótrauðri vinnu sinni í Tyrklandi.“

 Lögregla kom að heimili Taner Kiliç, sem setið hefur í stjórn Amnesty International í Tyrklandi á ýmsum tímabilum frá árinu 2002, á þriðjudagsmorgun þar sem framkvæmd var leit. Einnig var framkvæmd leit á skrifstofu hans. Þá var gefin varðhaldsskipun út gegn honum ásamt 22 öðrum lögfræðingum, þar sem vitnað var í rannsókn á grunuðum meðlimum „ hryðjuverkasamtökum Fethullah Gülen “.

 Handtaka Taner Kiliç hefur verið fordæmd víða um heim, þar á meðal af Bandaríkjunum, Evrópusambandinu, Mannréttindastofnuninni, utanríkisráðherra Danmerkur og ýmsum mannréttindasamtökum.

Bakgrunnur

 Handtaka Taner Kiliç tengist stigvaxandi herferð tyrkneskra yfirvalda gegn mannréttindum í kjölfar misheppnaðrar valdaránstilraunar þann 15. júlí 2016. Tugum þúsunda opinberra starfsmanna hefur verið sagt upp og hundruð blaðamanna og fjölmiðlafólks handtekið. Lokað hefur verið á ýmsa fjölmiðla og frjáls félagasamtök lögð niður.

Tyrknesk yfirvöld kenna Fethullah Gülen, klerki búsettum í Bandaríkjunum, um valdaránstilraunina og hafa síðan þá kallað hreyfingu hans hryðjuverkasamtök. Það hefur opnað gátt þar sem þúsundir manna án nokkurra tengsla við valdaránstilraunina hafa verið handteknir af geðþótta. 

Til baka