Aðdróttanir hafðar frammi gegn frjálsum félagasamtökum sem bjarga mannslífum fyrir miðju Miðjarðarhafinu

7.7.2017

 Vegna skorts á öruggum og lagalegum leiðum til Evrópu á síðustu árum hefur flótta- og farandfólk stofnað lífi sínu í hættu. Fremur en að koma á laggirnar skilvirku kerfi sem tryggir öruggar leiðir fyrir flóttafólk til að ná landi í Evrópu og tala fyrir virðingu og vernd mannréttinda í löndum þar sem átök, ofsóknir og fátækt ríkir, hafa leiðtogar Evrópuríkjanna einblínt á lokun landamæra sinna og samningagerð við stjórnvöld sem brjóta mannréttindi.

Tugir þúsunda flóttafólks er strandaglópar í Líbíu, örvinglað að flýja þaðan og ná landi í Evrópu. Fjöldi félagasamtaka, stofnana á vegum Sameinuðu þjóðanna og blaðamanna hafa vitnað til um útbreidd, kerfisbundin og skelfileg mannréttindabrot sem framin eru gegn flótta- og farandfólki í landinu.[1] Eina leiðin fyrir flóttafólkið til að flýja slíkar þjáningar er að leggja upp í enn hættulegri sjóferð til Ítalíu. Rúmlega 180 þúsund flóttamenn lögðu upp í slíka sjóferð árið 2016 og tæplega 37 þúsund það sem af er árinu 2017. Rúmlega 4500 flótta- og farandmenn létu lífið eða hurfu árið 2016 og um 900 hafa sætt sömu örlögum á árinu 2017.

Flótta- og farandfólk sem siglir á yfirfullum, ósjófærum bátum, án nokkurs öryggisbúnaðar eða reyndra sjófara um borð, með ófullnægjandi vélabúnað og ónóg eldsneyti, er óhjákvæmilega í mjög háskafullum aðstæðum. Leitar- og björgunaraðgerðir á Miðjarðarhafinu eru ómissandi og eiga að vera í algjörum forgangi til að sporna gegn dauðsföllum karlmanna, kvenna og barna sem halda áfram að flýja Líbíu. Ráðamenn Evrópuríkja hafa engu að síður forgangsraðað á annan hátt með tilraunum sínum til að leysa upp starfssemi smyglara og með samstarfi sínu við líbísku strandgæsluna til að stöðva komu flóttafólks til álfunnar. Þrátt fyrir að EUNAVFOR MED, einnig þekkt sem Operation Sophia, leggi sitt af mörkum til björgunaraðgerða fyrir miðju Miðjarðarhafinu, þá eru leitar- og björgunaraðgerðir ekki megin markmiðið enda er fyrst og síðast um hernaðaraðgerð að ræða sem er liður í að stöðva flæði flóttafólks til aðildarríkja Evrópusambandsins. Triton-aðgerð Frontex, landamærastofnunar Evrópusambandsins, felur einnig í sér leitar- og björgunaraðgerðir en þungamiðjan er þó að sinna landamæragæslu á hafsvæði nærri Suður-Ítalíu.

Árið 2016 skárust frjáls félagasamtök í leikinn til að tryggja meira öryggi fyrir flóttafólk á hafi úti, á svæði á Miðjarðarhafinu sem er án eftirlits.

Bátar á vegum frjálsra félagasamtaka björguðu 46.796 af 178.415 flóttamönnum fyrir miðju Miðjarðarhafsins árið 2016.[2] 

Í lok mars 2017 var 7632 flóttamönnum af 23.832 bjargað og mun fleirum var bjargað í apríl.[3] Björgunaraðgerðirnar fóru fram í samstarfi við ítölsku strandgæsluna í Róm, Maritime Rescue Coordination Centre in Rome (MRCC Rome), í samræmi við hafréttarlög. Björgunaraðgerðir frjálsra félagasamtaka hafa gengið vel þar sem unnið er markvisst að því að finna báta með flóttafólki innanborðs sem eru í háska staddir og með því að halda sig eins nærri ströndum Líbíu og mögulegt er.

Evrópa ætti að leggja metnað sinn í að styðja við bakið á þessum aðgerðum frjálsra félagasamtaka og þakka fyrir að jafn mörgum lífum hafi verið bjargað frá nærri vísum dauða. Frjáls félagasamtök hafa hins vegar sætt órökstuddum aðdróttunum af hálfu stjórnmálamanna, fulltrúa ýmissa stofnana og fréttaskýrenda sem gefið hafa í skyn að vera þeirra nærri landhelgi Líbíu og starfshættir ýti undir brottför fólks frá Líbíu sem aftur kyndi undir viðskipti smyglara og leiði á endanum til fleiri dauðsfalla á sjó. Alið er á grunsemdum um bein tengsl á milli frjálsra félagasamtaka og smyglara. Efasemdum hefur einnig verið haldið á lofti um uppruna styrkveitinga til frjálsra félagasamtaka til að fjármagna leitar- og björgunaraðgerðir.

Carmelo Zuccaro, ríkissaksóknari í hafnarborginni Kataníu á Sikiley hélt því fram við fjölmiðla á Ítalíu að sum félagasamtök stefndu jafnvel að því að veikja efnahag landsins til að notfæra sér stöðuna á einhvern hátt. Þá bætti hann við að enda þótt honum væru ljós tengslin á milli einstaka félagasamtaka og smyglara þá hefði hann engar sannanir til að styðja mál sitt.

Ásakanir sem kasta rýrð á hlutverk frjálsra félagasamtaka má rekja aftur til trúnaðarskjala á vegum Frontex frá því síðla árs 2016 sem síðar voru birt í grein í Financial Times í desember 2016. Í umræddum trúnaðarskjölum gerði Frontex athugasemdir við starfshætti frjálsra félagasamtaka sem það taldi ýta undir aðgerðir smyglara. Frontex benti á að þegar björgunaraðgerðir á vegum frjálsra félagasamtaka jukust til muna í júní 2016 hafi dregið verulega úr björgun sem kallað var eftir hjá ítölsku strandgæslunni, að farandfólki séu gefin skýr merki um leiðina sem það á að fylgja til að komast að báti á vegum frjálsra félagasamtaka, að fólki sem væri bjargað af frjálsum félagasamtökum væri óviljugt til samstarfs í rannsóknum lögreglu sem beint væri gegn smyglurum og að starfsfólk frjálsra félagasamtaka safnaði ekki viðeigandi sönnunargögnum frá farand- og flóttafólki.

Frontex gögnin gáfu sterklega til kynna að björgunaraðgerðir á vegum frjálsra félagasamtaka færu ekki fram í samstarfi við ítölsku strandgæsluna og væru þess vegna mögulega fyrirfram ákvarðaðar af hálfu félagasamtakanna og smyglara. Þessum ásökunum gegn frjálsum félagasamtökum sem starfa fyrir miðju Miðjarðarhafinu hefur síðan verið haldið fram opinberlega af fjölda ólíkra aðila.

Í febrúar 2017 lýsti framkvæmdastjóri Frontex, Fabrice Leggeri, því yfir í viðtali að frjáls félagasamtök ýttu undir flæði fólks frá Líbíu og að samtökin ættu ekki í nægulegu samstarfi við löggæsluna í baráttunni gegn smygli og mansali.

Ríkissaksóknari í Kataníu á Sikiley staðfesti einnig í febrúar á þessu ári að skrifstofa hans hafi ýtt úr vör rannsókn sem miðaði að því að skoða starfshætti margra frjálsra félagasamtaka sem störfuðu á hafi úti og hvernig samtökin fjármagna sig.

Ítölsku stjórnmálamennirnir Movimento Cinque Stelle og Lega Nord og nokkrir fréttaskýrendur hafa enn fremur dregið hlutverk og áætlanir frjálsra félagasamtaka, sem starfa á hafi úti, í efa.

Frjáls félagasamtök sem tekið hafa þátt í leitar- og björgunaraðgerðum hafa neitað öllum ásökunum kröftuglega og lagt fram ýmiss gögn sem skýra hvers vegna þau starfa eins og raun ber vitni og hvernig þau fjármagna starf sitt.

Nokkrir ítalskir þingmenn sem hafa ásakanirnar til umfjöllunar innan sérstakrar nefndar buðu ríkissaksóknara Kataníu, flotaforingja Sophiu-aðgerðarinnar og fulltrúum félagasamtakanna Proactiva Open Arms á fjölda funda nefndarinnar.

Í mars 2017 átti Amnesty International fund með starfsmönnum ítölsku strandgæslunnar í Róm. Á undanförnum vikum hafa samtökin skoðað vandlega mikið magn upplýsinga sem lagt var fyrir ítölsku þingnefndina, auk opinberra gagna og fjölmiðlaefnis.

Í ljósi þessarra upplýsinga og reynslu Amnesty International af rannsóknum og eftirliti með leitar- og björgunaraðgerðum á flóttafólki á hafi úti, hafa samtökin áhyggjur af því að aðdróttanir og dylgjur um glæpsamleg tengsl frjálsra félagasamtaka við smyglara – sem byggir ekki á neinum sönnunum – stofni lífsbjörgunaraðgerðum í hættu. Amnesty International telur að auki að ófræging frjálsra félagasamtaka sem sinna björgunaraðgerðum og reyna að tryggja flóttafólki vernd, leiði til enn frekari afturfarar í opinberri umræðu um flóttafólk, réttlætingar á mismunun gegn því og útskúfunar, sem á endanum mun ýta undir mannréttindabrot gegn flótta- og farandfólki. 

Stuðningur og lof vegna tilrauna frjálsra félagasamtaka til að bjarga lífum á hafi úti hafa þó einnig fengið brautargengi m.a. af hálfu Paolo Gentiloni, forsætisráðherra Ítalíu, æðsta fulltrúa Evrópusambandsins í utanríkis- og öryggismálum, auk framkvæmdastjórnar ESB.

Talsmaður Frontex lýsti því yfir í apríl 2017 að landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu hafi áhyggjur af því að smyglarar notfæri sér frjáls félagasamtök sem sinni leitar- og björgunaraðgerðum fyrir miðju Miðjarðarhafsins og því hafi starf þeirra „ófyrirsjáanlegar afleiðingar“.

Amnesty International hvetur alla hluteigandi aðila, þeirra á meðal þá sem fara með ákæruvald, að taka þátt í ábyrgri opinberri umræðu um málefni sem varða líf og dauða, eins leitar- og björgunaraðgerðir á sjó gera. Samtökin skora enn fremur á leiðtoga Evrópu að tryggja nægilegar bjargir fyrir leitar- og björgunaraðgerðir á siglingaleiðum flótta- og farandfólks þannig að fullnægjandi öryggi sé tryggt á hafi úti fyrir þá sem flýja Líbíu.

Amnesty International gerir athugasemdir við áframhaldandi samstarf Evrópuríkja við Líbíu sem snýr að því að stöðva flæði flóttafólks yfir Miðjarðarhafið en á sama tíma stýrist opinber umræða af margvíslegum og misvísandi tilgátum um hlutverk frjálsra félagasamtaka sem halda áfram að bjarga mannslífum á hafi úti.

Evrópusambandið tekur enn frumkvæði í að liðka fyrir eftirlitsaðgerðum af hálfu sjóliðsflota Líbíu sem stöðvar för flótta- og farandfólks á sjó og snýr þeim aftur til Líbíu. Amnesty International hefur skráð útbreiddar og kerfisbundnar pyndingar sem flóttafólk sætir í varðhaldi í Líbíu, þangað sem það er flutt eftir að sjóför þeirra er stöðvuð og því skipað frá borði. Karlmenn, konur og börn sem Amnesty International hefur átt samtöl við hafa greint frá því hversu algengt er að flóttafólk sæti illri meðferð, nauðgunum, þvingunum og misneytingu á varðhaldsstöðvum í Líbíu. Samtökin hafa enn fremur skráð fjölda mannréttindabrota gegn flóttafólki utan varðhaldsstöðvanna sem þrífst í skjóli lögleysu og kynþáttafordóma, auk þess sem Amnesty International hefur borist fregnir af illri meðferð á flóttafólki af hálfu yfirmanna líbísku strandgæslunnar.

Til að ráðast gegn þessum vægðarlausu aðstæðum þá verða ríkisstjórnir Evrópu að bjóða fólki sem þarfnast verndar öruggar og lagalega leiðir til Evrópu og leggja áherslu á að samstarfið við yfirvöld í Líbíu einkennist af úrræðum til verndar mannréttindum flótta- og farandfólks í landinu. Fyrsta skrefið í þá átt er að binda enda á illa meðferð og varðhald af geðþóttaástæðum.[4]

 


[1] 1 http://www.ohchr.org/Documents/Countries/LY/DetainedAndDehumanised_en.pdf https://www.amnesty.org/en/countries/middle-east-and-north-africa/libya/report-libya/

[2] Fyrsti báturinn á vegum frjálsra félagasamtaka sem helgaði starf sitt björgun flótta- og farandfólks var MOAS en hann hóf starfssemi í ágúst 2014.  Á síðustu tveimur árum hafa eftirfarandi fylgt í kjölfarið: Seawatch, SOS Mediterranee, Sea Eye, MSF, Proactiva Open Arms, Life boat, Jugend Rettet, Boat refugee, Save the Children

[3] http://www.guardiacostiera.gov.it/en/Pages/search-and-rescue.aspx

[4] 9 https://www.amnesty.org/en/latest/news/2017/03/the-human-cost-of-european-hypocrisy-on-libya/

Til baka