Tala látinna fyrir miðju Miðjarðarhafsins eykst hröðum skrefum

12.7.2017

 

  •  Vegna vofveiflegra samninga við Líbíu eiga þúsundir í hættu á að drukkna, sæta nauðgun eða pyndingum.
  • Mannfall, á einni hættulegustu sjóleið heims, stefnir í að verða eitt það mesta sem um getur en dauðsföll hafa þrefaldast frá árinu 2015.

 

Fjölgun dauðsfalla fyrir miðju Miðjarðarhafsins og skelfilegar misþyrmingar sem þúsundir flóttamanna sæta í líbískum varðhaldsstöðvum tengjast glögglega misheppnaðri stefnu Evrópusambandsins. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Amnesty International, Aperfect storm: The failure of European policies in the Central Mediterranean . Með því að afsala sér bróðurpartinum af ábyrgðinni á að sinna leitar- og björgunaraðgerðum til frjálsra félagasamtaka og með auknu samstarfi við líbísku strandgæsluna, bregðast ríkisstjórnir Evrópu þeirri skyldu sinni að sporna við drukknun fólks fyrir miðju Miðjarðarhafinu og loka augunum fyrir illri meðferð m.a. pyndingum og nauðgunum.

Ráðherrar Evrópusambandsins komu nýverið saman í Tallinn til ræða nýja tillögu sem mun gera skelfilegar aðstæður enn verri.

„Fremur en að grípa til björgunaraðgerða og bjóða flóttafólki vernd, setja ráðherrar Evrópu skammarlaust samninga við Líbíu í forgang, í vonlausri tilraun til að koma í veg fyrir að flótta- og farandfólk nái landi á Ítalíu,” segir John Dalhuisen framkvæmdastjóri Evrópuskrifstofu Amnesty International.

„Evrópuríkin hafa smám saman snúið baki við áætlunum sínum um leitar- og björgunaraðgerðir sem drógu úr dauðsföllum á hafi úti en þess í stað lagt áherslu á aðgerðir sem leitt hafa til drukknunar þúsunda og gert örvæntingarfullt flóttafólk að strandaglópum í Líbíu, þar sem það sætir hryllilegri meðferð.“

Áætlun Evrópusambandsins sem innleidd var í apríl 2015 og ætlað er að styrkja leitar- og björgunaraðgerðir fyrir miðju Miðjarðarhafsins, dró verulega úr dauðsföllum á hafi úti. Þetta forgangsverkefni, sem leiddi til þess að nokkur Evrópulönd reiddu fram fleiri björgunarskip nærri landhelgi Líbíu, var hins vegar skammvinnt. Ríkisstjórnir Evrópu einblína nú á að koma í veg fyrir starfssemi smyglara og brottför báta frá Líbíu, stefna sem leitt hefur til þess að flóttafólk leggur upp í enn hættulegri ferð og þreföldunar á dauðsföllum frá seinni helmingi ársins 2015 til dagsins í dag. Dauðsföll fóru úr 0.89% á seinni helmingi árs 2015 í 2.7% árið 2017.

Breytingar á starfsemi smyglara og aukin notkun á ósjófærum bátum, sem skortir með öllu öryggisbúnað um borð, hefur gert sjóleiðina frá Líbíu til Ítalíu enn hættulegri. Þrátt fyrir gífurlega aukningu á dauðsföllum frá því í janúar á þessu ári hefur Evrópusambandið brugðist því hlutverki sínu að senda sérstaka og fullnægjandi mannúðaraðstoð á vettvang, nærri landhelgi Líbíu. Þess í stað leggur Evrópusambandið metnað sinn í að styrkja getu líbísku strandgæslunnar til að vera betur í stakk búin að koma í veg fyrir brottfarir frá landinu og stöðva för flótta- og farandfólks áleiðis á sjó.

Aðgerðir líbísku strandgæslunnar hafa oft stefnt lífi flótta- og farandfólks í voða. Starfshættir strandgæslunnar standast ekki almenn öryggisviðmið og leiða oft til þess að flóttafólkið fyllist skelfingu með þeim hörmulegu afleiðingum að bátum þeirra hvolfir.

Alvarlegar ásakanir hafa verið uppi um samstarf líbísku strandgæslunnar við smyglara og sannanir eru fyrir hendi um misbeitingu á farandfólki. Aðilar innan líbísku strandgæslunnar hafa gerst sekir um að hleypa úr skotvopnum í átt að bátum flótta- og farandfólks. Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna, sem var birt í síðasta mánuði, kemur fram að líbíska strandgæslan hafi „beitt skotvopnum og þannig átt beinan þátt í að bátur farandsfólks sökk“.

Nígerískur karlmaður sem hafði verið fastur á bát í níu klukkustundir, ásamt 140 öðrum, sagði við Amnesty International, „við lögðumst öll á bæn. Þegar ég sá ljósin [frá björgunarbátnum] hugsaði ég, gerðu það, gerðu það, ekki líbíska lögregla.“

Annar karlmaður frá Bangladess sagði Amnesty International frá því sem gerðist eftir að líbíska strandgæslan sótti hann. „Við vorum 170 saman á gúmmíbát. Við vorum færð aftur í fangelsi og krafin um peninga. Þeir sögðu við okkur, „ef þú borgar, þá mun enginn stöðva þig í þetta sinn vegna þess að við sinnum strandgæslu...líbísk fangelsi eru helvíti á jörðu.“

Samstarf Evrópusambandsins og þjálfun á líbísku strandgæslunni fer fram án þess að hugað sé að eftirliti með starfsemi og frammistöðu strandgæslunnar. Þeim sem er bjargað af líbísku strandgæslunni er snúið til Líbíu, þar sem engin lög eða ferli eru við lýði fyrir hælisleitendur, og flóttafólkið sætir jafnan varðhaldsvist og pyndingum. Þeir sem verða strandaglópar í Líbíu eiga í hættu á að sæta margvíslegum mannréttindabrotum, þeirra á meðal nauðgunum, pyndingum, mannshvörfum og nauðungarvinnu. Aðrir eru myrtir eða settir í varðhald af geðþóttaástæðum í ótilgreindan tíma, við aðstæður sem eru ómannúðlegar, grimmar og niðurlægjandi.

Karlmaður frá Gambíu sagði við Amnesty International, „ég var þrjá mánuði í fangelsi...þú sefur eins og sardína í dós í fangaklefanum, á hliðinni, því það er ekkert pláss. Þeir berja þig ef þú leggst ekki niður á réttan hátt. Vatnið í salerninu var einnig notað til drykkjar...ég sá þrjár manneskjur pyndaðar á meðan ég var í fangelsinu. Einn drengur lét lífið við pyndingarnar...þeir berja fangana með rörum. Ég var barinn á nóttinni.“

Allir samningar sem miða að því að bæta getu líbísku strandgæslunnar til leitar- og björgunaraðgerða verða að vera þeim skilyrðum háðir að tafarlausar umbætur verði gerðar á gæðum aðgerðanna og að líbíska strandgæslan verði látin sæta raunverulegri  ábyrgð, verði hún fundin sek um mannréttindabrot. Evrópusambandið á jafnframt að gera þá kröfu að þeim flóttamönnum sem bjargað er verði fluttir á skip sem siglir með þá til landa Evrópu þar sem öryggi þeirra og vernd er tryggð.

„Ef seinni hluti yfirstandandi árs mun svipa til fyrri hluta ársins, þá mun 2017 bera með sér hæsta mannsfall sögunnar, á þessari hættulegustu sjóleið heims.

Evrópusambandið verður að endurhugsa samstarf sitt við meingallaða starfsemi líbísku strandgæslunnar og taka í notkun fleiri skip þar sem þeirra er nauðsynlega þörf,“ segir John Dalhuisen.

„Þegar öllu er á botninn hvolft er eina varanlega og mannúðlega lausnin fólgin í því að bjóða upp á öruggar og lagalega leiðir fyrir flótta- og farandfólk til að ná til Evrópu.“

 

Til baka