Evrópusambandið: Starfsreglur um björgunaraðgerðir á sjó ógna lífi flóttafólks

17.7.2017

Skjöl, sem var lekið til Amnesty International, fela í sér tillögur að starfsreglum sem binda munu hendur frjálsra félagasamtaka.

Lífum þúsunda flóttamanna og farandfólks verður stefnt í hættu ef meingallaðar starfsreglur Evrópusambandsins um starfsemi frjálsra félagasamtaka, sem sinna björgunaraðgerðum á miðju Miðjarðarhafinu, taka gildi. Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu sem Amnesty International og Human Rights Watch sendu frá nýverið eftir að gögnum sem geyma drög að starfsreglunum var lekið.

„Eins öfugsnúið og það nú er, þá munu drögin að starfsreglum fyrir frjáls félagasamtök sem bjarga lífi fólks á Miðjarðarhafinu, stofna lífum í hættu. Tilraunir til að takmarka leitar- og björgunaraðgerðir frjálsra félagasamtaka stofna lífum þúsunda einstaklinga í hættu með því að torvelda björgunarbátum að komast nærri ströndum Líbíu,“ segir Iverna McGowan framkvæmdastjóri Evrópudeildar Amnesty International.

Starfsreglurnar, sem Ítalía sá um að semja, voru fyrst lagðar fram á óformlegum fundi Framkvæmdaráðs dóms- og innanríkismála í Evrópu, þann 6. júní 2017.

Ef starfsreglurnar verða samþykktar munu þær skerða mjög starfsemi frjálsra félagasamtaka sem sinna leitar- og björgunaraðgerðum á miðju Miðjarðarhafinu með því að:

 

  • Banna þeim að fara inn í landhelgi Líbíu til að ráðast í björgunaraðgerðir
  • Banna þeim að nota ljós til að gefa bátum merki sem eru í bráðri hættu á að sökkva
  • Neyða þau til að stýra bátum sínum að næstu höfn til að skipa flóttafólki frá borði í stað þess að veita félagasamtökunum leyfi til að færa fólkið sem bjargað hefur verið á aðra báta ef þörf krefur. Þetta mun þvinga björgunar- og leitarteymi frjálsra félagasamtaka til að hverfa frá þeim svæðum sem þeirra er sárast þörf í lengri tíma en það eykur hættuna á að fleiri drukkni fyrir miðju Miðjarðarhafsins.

 

Drögin að starfsreglunum fela ennfremur í sér hótum um að bátum frjálsra félagasamtaka verði ekki leyft að hleypa fólki að landi á Ítalíu, ef þau samþykkja ekki starfsreglurnar eða fylgja ákvæðum þeirra í einu og öllu.

Ef starfsreglur þurfa að vera fyrir hendi ættu þær að miða að því að gera björgunaraðgerðir á hafi úti skilvirkari þannig að fleiri lífum sé bjargað.

Samráð um slíkar starfsreglur ætti að vera haft við hópa sem sinna leitar- og björgunaraðgerðum, þær ættu að gilda fyrir öll skip sem sjá um björgunaraðgerðir á Miðjarðarhafinu og ættu ekki að tengjast landgöngu flóttafólksins.

Amnesty International og Human Rights Watch telja að starfsreglurnar geti í sumum tilfellum hindrað björgunaraðgerðir og tafið landgöngu á örugga staði sem er brot á skyldum bæði ríkja og skipstsjóra, samkvæmt reglum alþjóðlegs hafréttar.  

Tillaga Ítalíu að starfsreglunum er sett fram mitt í samstilltri rógsherferð gegn frjálsum félagasamtökum sem sinna leitar- og björgunaraðgerðum á hafi úti og kemur upp á sama tíma og Ítalía gerir kröfu um að fleiri Evrópuríki deili ábyrgð á björgunaraðgerðum. Evrópusambandið og ríki þess hafa brugðist því hlutverki að veita Ítalía og öðrum ríkjum í framlínu flóttamannastraumsins þann stuðning og þá aðstoð sem þau þurfa. Þess í stað hefur Evrópusambandið, með stuðningi Sameinuðu þjóðanna, einblínt á þjálfun líbísku strandgæslunnar til að auka afköst hennar við að stöðva för flóttafólks. Amnesty International og Human Rights Watch hafa skráð ófyrirleitna og illa meðferð líbísku strandgæslunnar á flótta- og farandfólki.

„Frjáls félagasamtök eru að bjarga fólki á Miðjarðarhafinu af því að Evrópusambandið sinnir því ekki,“ segir Judith Sunderland, aðstoðarframkvæmdastjóri Evrópu og Mið-Asíu teymis hjá Human Rights Watch. „Miðað við allar þær hörmungar sem hafa átt sér stað á Miðjarðarhafinu og þá hryllilegu meðferð sem flótta- og farandfólk sætir í Líbíu, þá ætti Evrópusambandið að vinna með ítölskum yfirvöldum að stórauknum leitar- og björgunaraðgerðum við landhelgi Líbíu, ekki að takmarka þær. 

Til baka