Íslensk stjórnvöld skuldbindi sig til að auka fjárframlög til Úganda vegna flóttamannavandans

28.7.2017

Grimmileg stríðsátök í Suður-Súdan hafa leitt til einnar stærstu flóttamannakrísu heims og þeirrar verstu í Afríku. Rúmlega 928 þúsund einstaklingar hafa flúið frá Suður-Súdan til Úganda frá desember 2013, þar sem dauði, pyndingar, nauðganir og önnur gróf mannréttindabrot biðu þeirra í heimalandinu. Í það heila hafa 1.8 milljónir flóttamanna flúið Suður-Súdan á síðustu fjórum árum og þúsundir hafa verið myrtir. Í skýrslu Amnesty International, Help has not reached me here: Donors must step up support for SouthSudanese refugees in Uganda , sem gefin var út þann 21. júní 2017, er rætt við fjölda flóttamanna frá Suður-Súdan sem leituðu alþjóðlegrar verndar í Úganda og lýsa hörmungunum sem þeir upplifðu í heimalandi sínu.

Joyce, sem er 37 ára kona frá Suður-Súdan, lýsti því fyrir rannsakendum Amnesty International í Úganda hvernig hún varð vitni að því þegar hermenn veittu eiginmanni hennar fjölmörg stunguár þar til hann dó. „Eftir að þeir [hermennirnir] handtóku hann þá ómökuðu þeir sig ekki sinu sinni við að skjóta hann, þeir notuðu hnífa og stungu hann til bana.“

Önnur kona, Jane að nafni, aðeins 28 ára gömul, greindi Amnesty International frá því þegar þrír einkennisklæddir karlmenn ruddust inn á heimili hennar og nauðguðu, eftir að hafa myrt eiginmann hennar að henni ásjáandi. „Ástæða þess að ég yfirgaf landið mitt er sú að maðurinn minn var drepinn. Þeir náðu okkur á heimili okkar, skutu eiginmann minn og tóku til við að nauðga mér.“

Flóttamannastefna stjórnvalda í Úganda er ein sú framsæknasta í heimi. Flóttamenn hafa aðgang að allri opinberri þjónustu og eiga rétt á að vinna, stofna fyrirtæki og eignast landskika.  Vegna viðvarandi skorts á fjárframlögum til flóttamannamála, frá þjóðum sem veita landinu þróunaraðstoð, hefur Úganda hins vegar ekki getað kostað tilhlýðilega sálfélagslega aðstoð til handa flóttafólkinu sem þolað hefur óbærileg áföll. Stjórnvöld í Úganda hafa ekki einu sinni getað séð flóttafólkinu fyrir lágmarksþjónustu s.s. matargjöfum, vatnsbirgðum og húsaskjóli, vegna dapurlegra viðbragða alþjóðasamfélagsins við þeirri skyldu sinni að veita landinu fjárhagsaðstoð. Að minnsta kosti 86% þeirra flóttamanna sem líða mestan skort eru konur og börn.

Í júní 2017 komu tugir þjóðarleiðtoga saman á fundi úgandskra stjórnvalda og Sameinuðu þjóðanna um flóttamannamál landsins. Markmið fundarins var að safna áheitum upp á tvo milljarða Bandaríkjadala í mannúðarskyni fyrir flóttafólk.  Því miður söfnuðust aðeins áheit upp á 358 milljónir Bandaríkjadala sem er dropi í hafið miðað við þá neyð sem ríkir í Úganda og langt frá því marki sem stefnt var að á Úganda-fundinum. Ísland var ekki meðal þeirra ríkja á fundinum í Úganda í júní sem skuldbundu sig til að veita frekara fjármagn til aðstoðar flóttamannavandanum í landinu.

Þann 28. júlí 2017 sendi Íslandsdeild Amnesty International Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra, bréf þar sem skorað er á íslensk stjórnvöld að skuldbinda sig til að auka verulega fjárframlög til Úganda. Slík fjárframlög þurfa að vera tímanleg og styðja bæði við aðkallandi og lengri tíma þarfir flóttafólks í landinu. Þær fela m.a. í sér aðgengi að grunnþjónustu eins og húsaskjóli, menntun, sorphreinsun og matar- og vatnsbirgðum.

Samtökin skoruðu einnig á íslensk stjórnvöld að koma á neyðarmóttöku flóttafólks, sérstaklega frá Suður-Súdan, sem býr við bág kjör í Úganda. Viðkvæmir hópar ættu þar að vera í sérstökum forgangi, þeirra á meðal einstaklingar með alvarlegan heilsuvanda, konur og stúlkur í hættu, börn og fylgdarlausir einstaklingar undir lögaldri, og fólk sem þarfnast sérstakrar verndar vegna kynþáttar eða stjórnmálaskoðana eða þátttöku í friðsömu mannúðarstarfi eða annars konar starfi, auk LGBTIQ-fólks.

Loks skoraði Íslandsdeild Amnesty International á íslensk stjórnvöld að bjóða fleiri öruggar og lagalegar leiðir til að flóttafólk geti leitað alþjóðlegrar verndar á Íslandi m.a. fyrir tilstilli fjölskyldusameiningar en notast ætti við mun víðfeðmari skilgreiningu á fjölskyldumeðlim í ákvæðum laga um fjölskyldusameiningu, þannig að fjölskyldumeðlimur teljist ekki aðeins þeir sem tilheyra kjarnafjölskyldu heldur einnig stórfjölskyldunni. Þá ættu íslensk stjórnvöld ennfremur að skoða möguleikann á lögum um „community sponsorship“ sem er vel þekkt leið til móttöku flóttamanna í Kanada og hefur reynst einkar vel.

 

 

Til baka