Kemur ekki annað til greina en að hlaupa fyrir Amnesty International

9.8.2017

Netákalls- og SMS aðgerðanetsfélaginn Óskar Le Qui Khuu Júlíusson er 18 ára MHingur og einn þeirra sem ætlar að hlaupa til styrktar Amnesty International í Reykjavíkurmaraþoninu eftir rúma viku. 

Óskar velur að hlaupa fyrir Amnesty International af einfaldri ástæðu, „Í skólanum er mikið verið að tala um mannréttindi og þess vegna er ég meira meðvitaður um það sem er í gangi í heiminum. Og það var það eina sem kom til greina af því margir vinir mínir í MH eru í sjálboðaliðastarfi og hjálpa til hjá Amnesty International.“ Þá fluttust foreldrar Óskars til Íslands frá Víetnam til að skapa sér betra líf og það tengist auðvitað mannréttindum á einn og annan hátt.

Oskar_adal


Óskar er að eigin sögn mikill hlaupari. Hann hefur æft fótbolta og þar af leiðandi vanur hlaupum enda þurfi fótboltamenn oft að hlaupa marga kílómetra í hverjum leik. Einnig stundar hann alhliða líkamsrækt. Þetta er hins vegar í fyrsta skipti sem hann tekur þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og hann ætlar að hlaupa 10 kílómetra. „Markmiðið er að reyna að ná klukkutímanum og slá met bróður míns,“ segir Óskar. „Hann ætlar að hlaupa líka en ég held að hann sé ekki að hlaupa fyrir neitt félag. ‚Ég gæti þurft að tala við hann um það.“ Þá segist Óskar vera að hvetja fólk í kringum sig til að taka þátt og telur sig vera búinn að sannfæra fimm. „En ég veit ekki hvort þau muni standa við orð sín,“ segir hann.

Óskar hvetur alla sem hann þekkir til að taka þátt, vera með og hlaupa til góðs og skorar sérstaklega á alla MH-inga að hlaupa fyrir Amnesty International. „Það er leiðinlegt hvernig ástandið er víða í heiminum og það er alltaf gott að hjálpa til,“ segir hann að lokum.

Við hjá Íslandsdeild Amnesty International skorum á alla MHinga, unga sem aldna, að heita á Óskar og styðja þannig við mannréttindabaráttuna. Hægt er að heita á Óskar og aðra Amnesty-hlaupara hér.

Til baka