Opið bréf fimm félagasamtaka vegna fangavistunar mannréttindafrömuða í Tyrklandi

17.7.2017

Við erum skelfingu lostin og okkur ofbýður handtaka og varðhald tyrkneskra stjórnvalda á tíu mannréttindafrömuðum sem nú bíða rannsóknar vegna meintrar „aðildar að vopnuðum hryðjuverkasamtökum”. Mannréttindafrömuðirnir hafa ekkert til saka unnið annað en að berjast friðsamlega fyrir mannréttindum.

Árásir gegn sex þekktum frjálsum félagasamtökum í landinu og handtaka tíu mannréttindafrömuða er reiðarslag fyrir mannréttindastarf í landinu og óheillavænleg vísbending um hvert Tyrkland stefnir.

Mannréttindafrömuðirnir tíu sem sitja nú í varðhaldi eru: Veli Acu, Özlem Dalkıran, İdil Eser, Nalan Erkem, Günal Kurşun, Şeymus Özbekli, Nejat Taştan, İlknur Üstün (tyrkneskir ríkisborgarar), Ali Gharavi (sænskur ríkisborgari) og Peter Steudtner (þýskur ríkisborgari).

Handtaka İdil Eser, framkvæmdastjóra Tyrklandsdeildar Amnesty International fylgir í kjölfar varðhaldsvistunar Taner Kılıç formanns Tyrklandsdeildarinnar fyrir mánuði síðan en þetta er í fyrsta sinn í sögu Amnesty International sem bæði framkvæmdastjóri og formaður sitja á bak við lás og slá, á sama tíma, í sama landi.

Við krefjumst þess að tyrknesk stjórnvöld leysi alla mannréttindafrömuðina tafarlaust og án skilyrða úr haldi.

Fyrir ári síðan kostaði valdránstilraunin í Tyrklandi 249 manns lífið. Þeir sem voru myrtir og særðust í valdaránstilrauninni ættu að njóta fyllstu virðingar og þeir sem ábyrgð báru á ofbeldinu ættu að svara til saka.

Allt frá því að valdaránstilraunin í landinu var brotin á bak aftur fyrir ári síðan hefur hins vegar ekkert lát verið á gagnaðgerðum stjórnvalda sem leiddu til uppsagnar 100 þúsund manns í opinbera geiranum, handtöku tugþúsunda af geðþóttaástæðum, varðhaldsvistunar hundruða blaðamanna og lokunar á hundruðum frjálsra félagasamtaka og fjölmiðla.

Þetta er hluti af kvíðvænlegri þróun á heimsvísu. Árið 2016 var baráttufólk fyrir mannréttindum myrt í a.m.k. 22 ríkjum og handtekið eða sett í varðhald í 68 ríkjum.

Þeir sem leitast eftir því að loka á almennar umræður og þagga niður í gagnrýnisröddum telja sig í síauknum mæli hafa töglin og hagldirnar.

Rétt viðbrögð þjóðarleiðtoga heimsins skipta sköpum á þessum tímapunkti. Enda þótt einhverjir þjóðarleiðtogar hafi lýst áhyggjum sínum af ástandi mála á G20 fundinum þá er einangrað tilfelli ekki nóg. Það er tími til kominn að leiðtogar heims rísi upp og tali á ákveðinn og sannfærandi hátt fyrir mannréttindum, mannlegri reisn og réttlæti, auk blómstrandi aðgerðastarfs, sem stendur vörð um þessi gildi, bæði í Tyrklandi og á heimsvísu.

Undirritað af,

Salil Shetty, framkvæmdastjóra Amnesty International

Ricken Patel, framkvæmdastjóra Avaaz

Ken Roth, framkvæmdastjóra Human Rights Watch

Sharan Burrow, aðalritara International Trade Union Confederation

Robin Hodess, framkvæmdastjóra Transparency International

 

Til baka