Rannsókn Amnesty leiðir í ljós skelfileg áhrif netofbeldis gegn konum

20.11.2017

Ný rannsókn Amnesty International leiðir í ljós skelfileg áhrif sem netofbeldi (netníð og netáreitni) á samfélagsmiðlum hefur á konur. Í skýrslunni greina konur víða um heim frá streitu, kvíða og kvíðaköstum í kjölfar þessarar skaðlegu reynslu á netinu.

Samtökin fengu markaðsrannsóknafyrirtækið Ipsos Mori til framkvæma könnun á  reynslu kvenna á aldrinum 18-55 ára í Danmörku, Ítalíu, Nýja-Sjálandi, Póllandi, Spáni, Svíþjóð, Bretlandi og Bandaríkjunum.

Næstum fjórðungur (23%) aðspurðra kvenna í þessum átta löndum sögðust hafa orðið fyrir netofbeldi að minnsta kosti einu sinni, allt frá 16% á Ítalíu til 33% í Bandaríkjunum. Það er sláandi að 41% kvennanna sem höfðu orðið fyrir netofbeldi sögðu þessi reynsla hefði að minnsta kosti einu sinni fengið þær til að óttast um líkamlegt öryggi sitt.

„Netið getur verið skaðlegur staður fyrir konur. Það er ekkert launungarmál að kvenhatur og níð þrífast á vettvangi samfélagsmiðla en þessi könnun leiðir í ljós skaðlegar afleiðingar níðs fyrir þær konur sem verða skotspónar þess,“ segir Asmina Dhrodia, rannsakandi Amnesty International í tæknimálum og mannréttindum.

„Þetta er ekki eitthvað sem hverfur um leið og þú skráir þig út. Ímyndaðu þér að fá líflátshótanir og nauðgunarhótanir þegar þú opnar símaforrit eða að búa við ótta um að kynferðislegum og persónulegum myndum af þér verði deilt á netinu án þíns samþykkis. Það sem er sérstakt við hættu níðs á netinu er hversu hratt það getur breiðst út. Eitt svívirðilegt tíst getur orðið að markvissum skothríðum tísta á nokkrum mínútum. Samfélagsmiðlafyrirtæki verða að fara að horfast í augu við þetta alvarlega vandamál.“

Streita, kvíði, kvíðaköst

Amnesty International gerði könnun meðal kvenna sem sögðust vera í meðallagi virkar og mjög virkar á netinu, um reynslu þeirra af netofbeldi.

Rétt um helmingur kvenna (46%) í öllum þátttökulöndunum sem höfðu reynslu af netofbeldi sögðu það hafa verið uppfullt af kvenhatri og karlrembu.

Frá fimmtungi kvenna (19% á Ítalíu) til fjórðungs kvenna sögðust hafa orðið fyrir netofbeldi sem innihélt meðal annars hótanir um líkamlega eða kynferðislega árás.

58% þátttakenda sem hafa orðið fyrir netofbeldi í þátttökulöndunum sögðu að það hefði einnig innihaldið kynþáttafordóma, karlrembu, hommafælni og transfælni.

26% kvenna sem hafði orðið fyrir netofbeldi í þátttökulöndunum sögðu að persónulegar og auðkennandi upplýsingum um þær hefði verið deilt á netinu (e. doxxing). 

Rúmur helmingur þeirra kvenna ( 59%) sem hafði orðið fyrir netofbeldi sagði það hafa verið af hendi ókunnugra aðila.

Andlegar afleiðingar netofbeldis geta verið hrikalegar.

  •  61% svarenda í þátttökulöndunum sem sögðust hafa orðið fyrir netofbeldi hafa þjáðst af lægra sjálfsmati eða misst sjálfstraust sitt vegna þess.
  • Rúmur helmingur (55%) sagðist hafa upplifað streitu, kvíða og kvíðaköst í kjölfar netofbeldis
  • 63% sögðu að þær hefðu átt erfitt með svefn í kjölfar netofbeldis.
  • Rúmur helmingur (56%) sagði að netofbeldi hefði leitt til einbeitingarskorts.

Þöggunaráhrif

Samfélagsmiðlar eru mikilvægt rými fyrir einstaklinga, þá sérstaklega fyrir konur og jaðarhópa, til að njóta tjáningarfrelsis. Netofbeldi er bein ógnun við tjáningarfrelsið.

Ofbeldi-gegn-konum-6 .

Um tveir þriðju kvenna (76%) sem sagðist hafa orðið fyrir netofbeldi á samfélagsmiðlum breytti hegðun sinni á þeim vettvangi, meðal annars með því að takmarka hvaða færslur þær settu inn. 32% kvenna sögðust hafa hætt að setja inn færslur um efni þar sem þær lýstu skoðunum sínum á ákveðnu málefni.

„Samfélagsmiðlar hafa aukið tjáningarfrelsið, meðal annars með fjölbreyttari aðgengi að upplýsingum. En þegar mismunun úr raunheimum og ofbeldi gegn konum færist yfir í stafræna heiminn þá víkja konur til hliðar í opinberum umræðum eða ritskoða sig þar sem þær annars óttast um einkalíf sitt og öryggi,“ segir Azmina Dhrodia.

Um fjórðungur kvenna (24%) sem höfðu orðið fyrir netofbeldi sögðust í kjölfarið hafa óttast um öryggi fjölskyldu sinnar.

Samfélagsmiðlafyrirtæki eru ekki að gera nóg

Allt netofbeldi krefst viðbragða frá stjórnvöldum, fyrirtækjum eða beggja aðila eftir því hvað við á eða alvarleika.

Töluvert fleiri þátttakendur sögðu að stefnu stjórnvalda gegn netofbeldi væri ábótavant frekar en fullnægjandi. Um þriðjungur kvenna í Bretlandi (33%), Bandaríkjunum og á Nýja-Sjálandi (32%) sögðu að viðbrögðum lögreglu væri ábótavant.

Könnunin gefur til kynna að konum finnist samfélagsmiðlafyrirtæki þurfa að gera meira. Aðeins 18% kvennanna í löndunum sem tóku þátt sögðu að viðbrögð samfélagsmiðlafyrirtækja væru, mjög, frekar eða algjörlega fullnægjandi.

“Samfélagsmiðlafyrirtæki bera ábyrgð á því að virða mannréttindi þar á meðal tjáningarfrelsið. Þau þurfa að tryggja að konur sem nota vettvang þeirra geti gert það frjálslega og án ótta,“ sagði Azmina Dhrodia.

Amnesty International tekur það fram að rétturinn til tjáningarfrelsis verndar einnig réttinn til ummæla sem gætu verið móðgandi, verulega óhugnanleg og karlrembuleg. Tjáningarfrelsið felur samt sem áður ekki í sér rétt til að stuðla að hatri og ofbeldi. Auk þess eiga allir rétt á að njóta tjáningarfrelsis til jafns við aðra, það felur í sér rétt kvenna til að tjá sig án ofbeldis, bæði í raunheimum og á netinu.

Ofbeldi-gegn-konum-5

Samfélagsmiðlar taka það skýrt fram að markvisst netofbeldi vegna kyns eða annarra þátta sé ekki liðið. Það sem vantar nú er að þeir framfylgi sínum eigin samfélagslegu siðareglum. Það þarf einnig að gera notendum kleift og valdefla þá til að nota einstaklingsmiðaðar öryggisráðstafanir eins og að blokka, slökkva á og sía út efni. Það leyfir konum og öðrum notendum almennt að stjórna upplifun sinni á netinu þannig að hún verði skaðminni.

Samfélagsmiðlafyrirtæki verða að tryggja að þeir sem fylgjast með umræðum séu þjálfaðir í að þekkja netofbeldi sem tengist kyni eða öðrum viðkvæmum hópum.

Amnesty International kallar einnig eftir því að stjórnvöld tryggi að viðeigandi löggjöf, stefnur, starfsvenjur og þjálfun sé til staðar til að koma í veg fyrir netofbeldi gegn konum. Það skiptir samt sem áður öllu máli að óviðeigandi takmarkanir og refsingar séu ekki gerðar gegn lögmætri notkun tjáningarfrelsis. Það má ekki verða til þess að tæklun á netofbeldi verði notuð sem afsökun til að draga úr tjáningarfrelsi.

Aðferðafræði

Rannsóknin var gerð af Ipsos Mori sem gerðu netkönnun meðal fimm hundruð kvenna á aldrinum 18-55 ára í hverju landi í gegnum Ipsos Online Panel system.

Fyrir hvert land var settur kvóti á aldur, svæði og atvinnu kvenna í samræmi við hlufall íbúa í hverju landi fyrir sig.

Gögn voru metin út frá RIM weighting aðferðafræðinni til að leiðrétta mögulega skekkjur í úrtakinu.

Úrtakið í hverju landi var dæmigert úrtak kvenna í hverju landi fyrir sig. Skekkjumörk heildarúrtaks fyrir hvert land var á milli 3% til 4%.

Í heildina tóku 4.000 konur þátt í átta löndum. Af þeim sögðust 911 hafa orðið fyrir netofbeldi og 688 að þær hefðu orðið fyrir því á samfélagsmiðlum.

 

Land Heildarúrtak kvenna á aldrinum 18-55 ára sem tóku þátt Heildarfjöldi kvenna sem sagðist hafa orðið fyrir netofbeldi Heildarfjöldi kvenna sem sagðist hafa orðið fyrir netofbeldi á samfélagsmiðlum
Bretland n=504 n=106 n=85
Bandaríkin n=500 n=167 n=139
Nýja-Sjáland n=500 n=142 n=116
Spánn n=500 n=94 n=68
Ítalía n=501 n=81 n=62
Pólland n=501 n=86 n=56
Svíþjóð n=500 n=147 n=99
Danmörk n=503 n=88 n=63

 

Til baka