Ríkisstjórnir Evrópu endursenda nærri 10.000 Afgani til heimalandsins þar sem þeir eiga í hættu að sæta pyndingum eða deyja

5.10.2017

  •  Endursendingar frá Evrópu aukast á sama tíma og ástandið í Afganistan versnar
  • Ríkisstjórnir Evrópu vaða í villu og svima með því að halda því fram að sum svæði Afganistan séu örugg
  • Árið 2016 varð mest mannfall meðal óbreyttra borgara í Afganistan og 2017 verður með sama móti

Samkvæmt nýrri skýrslu Amnesty International sem kom út í dag, 5. október, hafa ríkisstjórnir Evrópu lagt líf þúsunda Afgana í hættu með því að þvinga þá til að snúa aftur til lands þar sem þeir eiga í hættu á að týna lífi sínu eða sæta pyndingum, mannshvörfum og öðrum mannréttindabrotum. 

Á sama tíma og mannfall í Afganistan er í sögulegu hámarki eru ríkisstjórnir Evrópu að þvinga sífellt fleiri hælisleitendur aftur í það hættuástand sem þeir flúðu, sem er gróft brot gegn alþjóðalögum.

Skýrslan ber heitið Þvinguð aftur í hættuástand: Hælisleitendur endursendir frá Evrópu til Afganistan og inniheldur skelfileg dæmi um Afgani sem hafa verið endursendir frá Noregi, Hollandi, Svíþjóð og Þýskalandi og dáið eftir komuna til heimalandsins, særst í sprengjuárásum eða lifa í stöðugum ótta um ofsóknir vegna kynhneigðar sinnar eða fyrir að hafa snúist til kristni.

„Vegna þrákelkni við að fjölga endursendingum eru ríkisstjórnir Evrópu að innleiða stefnu sem er í senn óvægin og ólögleg. Evrópsk stjórnvöld láta meðvitað undir höfuð leggjast að horfa til sannana um ofbeldi og mannréttindabrot í Afganistan sem hafa aldrei verið meiri og líta framhjá því að engin svæði eru örugg í landinu. Með þessu setja ríkisstjórnir Evrópu fólk í hættu á að sæta pyndingum, mannshvörfum, lífláti og öðrum hryllingi,“ segir Anna Shea, rannsakandi hjá Amnesty International um málefni flóttamanna og farandsfólks.

Meðal Afgana sem eru endursendir frá Evrópu, samkvæmt skýrslunni, eru fylgdarlaus börn og unglingar sem voru börn þegar þau komu til Evrópu. Nokkrir viðmælenda Amnesty International í skýrslunni voru endursendir til svæða í Afganistan sem þeir þekktu ekki til. Endursendingarnar áttu sér stað þrátt fyrir hættulegar aðstæður og refsileysi fyrir glæpi eins og pyndingar.  

„Þessar endursendingar eru skýrt brot á alþjóðalögum og þær verður tafarlaust að stöðva. Sömu ríkisstjórnir og eitt sinn hétu því að tryggja bjartari framtíð fyrir Afgani deyða nú vonir þeirra og yfirgefa þá í landi sem er enn hættulegra en þegar þeir fyrst flúðu landið,“ segir Horia Mosadiq, rannsakandi um málefni Afganistan hjá Amnesty International.

Þvingaðar endursendingar og aukið mannfall

Fjöldi endursendinga frá Evrópu eykst hröðum skrefum á sama tíma og mannfall í Afganistan er með því hæsta sem Sameinuðu þjóðirnar hafa skráð.

Samkvæmt opinberum gögnum Evrópusambandsins varð nærri þreföldun á endursendingum Afgana frá Evrópu á árunum 2015-2016 en þær fóru úr 3.290 í 9.460. Endursendingarnar eru í samræmi við skýra fækkun á samþykktum hælisumsóknum, frá 68% í september 2015 í aðeins 33% í desember 2016. Á sama tíma hefur mannfall í Afganistan aukist samkvæmt upplýsingum frá sveitum á vegum SÞ í Afganistan, UNAMA (United Nations Assistance Mission in Afghanistan).

Samkvæmt SÞ létust eða særðust 11.418 manns í Afganistan árið 2016. Árásir á borgara áttu sér stað um land allt en flestar þeirra voru á ábyrgð vopnaðra hópa, þeirra á meða Talíbana og Íslamska ríkisins. Á fyrstu sex mánuðum ársins 2017 féllu 5.243 borgarar í Afganistan samkvæmt tölum SÞ. 

Þann 31. maí 2017 létust rúmlega 150 manns og tvisvar sinnum fleiri særðust í einni stærstu árás sem gerð hefur verið á Kabúl þegar sprengja sprakk nærri nokkrum evrópskum sendiráðum.

Særð og lifa í stöðugum ótta við ofsóknir

Rannsakendur Amnesty International ræddu við nokkrar fjölskyldur sem lýstu á áleitinn hátt eldraunum sínum eftir að hafa verið sendar aftur til baka frá Evrópu til Afganistan, þar sem þær misstu ástvini, rétt lifðu af sprengjuárásir og lifa nú í stöðugum ótta við ofsóknir í landi sem þær vart þekkja.

Sadeqa (ekki hennar raunverulega nafn) og fjölskylda hennar flúðu Afganistan árið 2015 í kjölfar þess að eiginmanni hennar, Hadi, var rænt, hann barinn og honum síðan sleppt lausum eftir að lausnargjald var reitt af hendi.

Eftir að hafa lifað af hættulega flóttaför komust þau loks til Noregs þar sem þau eygðu von um örugga framtíð. Norsk yfirvöld synjuðu hins vegar umsókn þeirra um hæli og gáfu þeim tvo afarkosti. Annað hvort að sæta handtöku áður en þau yrðu endursend eða fá greiddar 10.700 evrur gegn því skilyrði að snúa „sjálfviljug“ til baka.

Örfáum mánuðum eftir að þau snéru aftur til Afganistan hvarf eiginmaður Sadequ. Dagarnir liðu hjá án þess að nokkrar fregnir bærust af því hvar Hadi væri niðurkominn. Hann hafði verið myrtur. Sadeqa telur að mannræningjarnir hafi myrt eiginmann hennar en hún lifir sjálf í stöðugum ótta um líf sitt og er jafnvel hrædd við að heimsækja grafreitinn.

Farhadi-fjölskyldan var einnig þvinguð til að snúa aftur til Afganistan frá Noregi í október 2016. Mánuði síðar voru þau stödd nærri Baqir-ul Uloom moskunni nærri Kabúl þegar sprengja sprakk og grandaði að minnsta kosti 27 manns. Íslamska ríkið lýsti yfir ábyrgð á tilræðinu. Sprengingin var svo öflug að Subhan Farhadi, tveggja ára drengur, féll úr örmum móður sinnar og slasaðist illa. Þegar fjölskyldan snéri aftur heim til sín fór að blæða úr eyrum Subhan. Hann þjáist enn af verkjum í öðru eyra, nokkrum mánuðum eftir árásina. 

Farid (ekki hans raunverulega nafn) flúði Afganistan ásamt fjölskyldu sinni þegar hann var barn. Þau komu fyrst til Íran en Farid flúði einn síns liðs til Noregs þar sem hann snérist til kristni. Í maí 2017 var hann endursendur til Kabúl þar sem ofbeldi er mest í Afganistan en 19% af öllu mannfalli í landinu árið 2016 varð í borginni. Farid á engar minningar um þann tíma þegar hann var barn og bjó í Afganistan. Hann lifir nú í stöðugum ótta um ofsóknir í landi þar sem vopnaðir hópar, þeirra á meðal Talibanar, beina spjótum sínum að fólki sem snúist hefur til annarrar trúar en Íslam. „Ég er hræddur,“ sagði Farid. „Hvert á ég að fara? Ég á engan pening til að búa einn og ég get ekki snúið mér til ættingja því þau munu sjá að ég iðka ekki lengur íslam.“

Azad (ekki hans raunverulega nafn) ólst upp í Íran og flúði til Hollands ásamt bróður sínum. Honum var snúið til baka til Afganistan í maí 2017 en vegna kynhneigðar sinnar óttast hann um öryggi sitt. Azad óttaðist mjög að vera endursendur og reyndi sjálfsvíg áður en hann var sendur til baka. „Ég er að reyna að lifa eins og maður hér. Ég er að missa vitið. Ég er mjög óttasleginn á nóttinni, ég er verulega hræddur,“ sagði Azad.

„Eitraður bikar“

Þrátt fyrir vitneskjuna um ástandið í Afganistan skrifuðu ríki Evrópusambandsins undir samkomulagið „Sameiginleg leið fram á við“ um endursendingar á hælisleitendum frá Afganistan. 

Í skjali, sem lekið var út, viðurkenndi Evrópusambandið að „öryggi landsmanna færi versnandi og borgarar væru berskjaldaðir fyrir ógnum“, auk þess sem „hryðjuverkaárásum færi fjölgandi og mannfall væri orðið meira“.

Engu að síður tóku ríki Evrópusambandsins þá harðbrjósta ákvörðun að þörf væri á að „endursenda rúmlega 80.000 einstaklinga í náinni framtíð“.

Ekil Hakimi, fjármálaráðherra Afganistan, sagði við afganska þingið, „ef Afganistan á ekki í samstarfi við Evrópusambandið um flóttamannaástandið mun það hafa neikvæð áhrif á þá þróunaraðstoð sem Afganistan fær.“

Samkvæmt áreiðanlegum afgönskum heimildarmanni er þekkir vel til samkomulagsins á milli Evrópusambandins og afganskra stjórnvalda er um „eitraðan bikar“ að ræða þar sem afgönsk stjórnvöld voru neydd til að samþykkja samkomulagið í skiptum fyrir þróunaraðstoð. 

 

Til baka