• Google Earth © 2016 CNES/Astrium

Sýrland: Ný rannsókn AI afhjúpar fjöldahengingar og pyndingar í hinu illræmda Saydnaya-fangelsi

7.2.2017

Ný og svört skýrsla Amnesty International afhjúpar skipulagðar aftökur sýrlenskra stjórnvalda  án dóms og laga í Saydnaya-fangelsi. Í flestum tilvikum hafa fangar verið hengdir.

Á árunum 2011 til 2015 voru hópar fanga, oft allt að fimmtíu talsins, teknir vikulega eða tvisvar í viku, út úr fangaklefum og hengdir. Á fimm árum er áætlað að allt að 13.000 manns, flestir þeirra óbreyttir borgarar andsnúnir stjórnvöldum, hafi verið hengdir á laun í Saydnaya-fangelsi.

Skýrsla Amnesty International, Sláturhús: Fjöldahengingar og útrýmingar í Saydnaya-fangelsi, Sýrlandi (Human slaughterhouse: Mass hangings and extermination at Saydnaya prison, Syria) sýnir einnig að stjórnvöld í landinu beita ómannúðlegri meðferð kerfisbundið og meðvitað gegn fólki í varðhaldsvist í  Saydnaya-fangelsi: Fólk er endurtekið pyndað og mat haldið frá því, einnig lyfjum og læknisaðstoð. Í skýrslunni er því lýst hvernig þessi útrýmingarstefna hefur gert að verkum að fjöldi fólks í varðhaldsvist hefur látið lífið.

Saydnaya-fangelsi: Sláturhús

Þetta framferði, sem heimilað var af helstu ráðamönnum í Sýrlandi, telst til stríðsglæpa og glæpa gegn mannkyni. Markmið þess var að brjóta á bak aftur alla andstöðu sýrlenskra borgara.

Amnesty International krefst þess að sýrlensk stjórnvöld hætti þegar í stað aftökum án dóms og laga, sem og pyndingum og ómannúðlegri meðferð í Saydnaya-fangelsi og öllum öðrum fangelsum stjórnvalda í Sýrlandi. Rússland og Íran, nánustu bandamenn stjórnvalda, verða að þrýsta á þarlend stjórnvöld að hætta þessari grimmilegu og ómannúðlegu stefnu.

Á döfinni eru friðarviðræður stríðandi aðila í Sýrlandi í Genf. Taka verður tillit til þessara rannsókna Amnesty International í þeim viðræðum og krefjast verður að stjórnvöld bindi enda á þennan hrylling sem viðgengst í sýrlenskum fangelsum. Sameinuðu þjóðirnar verða tafarlaust að ráðast í óháða rannsókn á glæpunum sem framdir hafa verið í Saydnaya-fangelsi og krefjast aðgangs fyrir óháða rannsóknaraðila að öllum varðhaldsstöðvum í landinu.

Nánari upplýsingar á ensku má lesa hér:

Skýrsluna má lesa hér:

 

Til baka