Sýrland: Öryggisráð SÞ verður að grípa til skilvirkra aðgerða eftir efnavopnaárás í Idleb-héraði

5.4.2017

Sífellt fleiri sönnunargögn berast nú sem benda til þess að taugagas hafi verið notað í eiturvopnaárás sem varð til þess að 70 manns létust og hundruð óbreyttra borgara slösuðust í Khan Sheikhoun í Idleb-héraði í norðanverðu Sýrlandi. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun funda í dag, 5. apríl, um ástandið. Amnesty International hvetur öryggisráðið til að samþykkja tafarlaust ályktun þar sem kveðið er á um viðurlög við notkun á efnavopnum og auðveldað er að draga þá sem bera ábyrgð á slíkum árásum til saka.

 „Öryggisráðið, og sérstaklega Rússland og Kína, hefur sýnt algert skeytingarleysi gagnvart lífi óbreyttra borgara í Sýrlandi með því að neita ítrekað að samþykkja ályktanir sem heimila refsiaðgerðir gegn þeim er fremja stríðsglæpi og önnur alvarleg mannréttindabrot í Sýrlandi,“ segir Anna Neistat, yfirmaður rannsókna hjá Amnesty International. „Öryggisráðið verður að grípa til aðgerða þegar í stað til að rannsaka árásina og draga hina seku til ábyrgðar. Sé slíkt ekki gert verða afleiðingarnar mjög alvarlegar og slíkt myndi hvetja stjórnvöld og vopnaða hópa í Sýrlandi til að beina árásum sínum enn frekar gegn óbreyttum borgurum.“

Mörg fórnarlömb árásarinnar, sem átti sér stað um klukkan hálf sjö um morguninn að staðartíma, þriðjudaginn 4. apríl, virðast hafa orðið fyrir eitrun þegar þau sváfu í rúmum sínum. Eiturefnasérfræðingar sem vinna með Amnesty International hafa staðfest að mjög líklegt sé að fórnarlömbin hafi sætt taugagasárás, eða efni eins og saríni. Sérfræðingar telja ekki að klórgas hafi verið notað eins og í fyrri efnavopnaárásum í landinu.

Frekari upplýsingar (á ensku)

Amnesty International fagnar samþykkt ályktunar 17/248 sem samþykkt var á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þann 21. desember og kveður á um fyrirkomulag til aðstoðar við rannsókn á alvarlegustu glæpunum sem framdir hafa verið í Sýrlandi allt frá mars 2011. Íslandsdeild Amnesty International hefur sent bréf á Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra þar sem íslensk stjórnvöld eru hvött til að styðja við fyrirkomulagið með því að veita fé til verkefnisins. Amnesty International er eindregið þeirrar skoðunar að umrætt fyrirkomulag, með stuðningi frá Sameinuðu þjóðunum og aðildarríkjum þess, sé til þess fallið að geta fært þolendum mannréttindabrota, sem framin hafa verið og eru enn framin í Sýrlandi, í það minnsta vott af réttlæti. 

Til baka