Tæplega 74% landsmanna telja að íslensk stjórnvöld ættu að gera meira til að hjálpa flóttafólki

5.9.2016

Maskína ýtti nýrri könnun úr vör fyrir Íslandsdeild Amnesty International dagana 22. júlí til 2. ágúst 2016, þar sem spurt var um afstöðu Íslendinga til flóttafólks. Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu á netinu og svöruðu 1.159 einstaklingar á öllu landinu af báðum kynjum, á aldrinum 18-75 ára.

Þrjár meginspurningar voru lagðar fram í skoðanakönnuninni og tóku þær mið af spurningum sem lagðar voru fram í Globescan-könnun sem aðalstöðvar Amnesty International lét gera í 27 löndum í maí 2016, þvert á allar heimsálfur og náði til 27 þúsund einstaklinga. Skoðanakönnun Maskínu, eins og könnun Globescan, mældi viðhorf svarenda til þess hvort flóttafólk ætti að geta leitað hælis í öðrum löndum. Þá var spurt hvort íslensk stjórnvöld ættu að gera meira til að hjálpa þeim sem eru á flótta undan stríði eða ofsóknum. Loks mældi skoðanakönnun Maskínu mismunandi viðhorf til móttöku flóttafólks þ.e. hversu nálægt heimahögum Íslendingar eru tilbúnir að bjóða flóttafólk velkomið: á heimili sitt, í hverfið sitt, í bæinn sinn, í borgina sína eða sveitafélag, í landið sitt eða hvort þeir myndu vilja neita flóttafólki inngöngu í landið.

Skoðanakönnun Maskínu leiddi í ljós að mikill meirihluti aðspurðra Íslendinga eða 85,5% eru tilbúin að taka opnum örmum á móti flóttafólki sem er í takt við niðurstöður Globescan-könnunina þar sem 80% sögðust tilbúin að bjóða flóttafólk velkomið.

Mikill meirihluti aðspurðra Íslendinga styður alþjóðlega vernd flóttafólks

Tæp 85% aðspurðra í skoðanakönnun Maskínu töldu að flóttafólk sem flýr stríð eða ofsóknir ætti að geta leitað hælis í öðrum löndum en rúm15% voru ósammála þeirri fullyrðingu. Aðeins hærra hlutfall kvenna var sammála þeirri fullyrðingu að flóttafólk sem flýr stríð eða ofsóknir ætti að geta leitað hælis í öðru landi eða 86,5% en tæp 83% karlmanna. Samkvæmt niðurstöðu Globescan-könnunarinnar studdi 74% kvenna fullyrðinguna á móti 72% karlmanna.

Samkvæmt Globascan-könnuninni töldu 73% aðspurðra að flóttafólk ætti að geta leitað hælis í öðrum löndum og 25% voru ósammála fullyrðingunni.[1]

Stjórnvöld ættu að gera meira til að aðstoða flóttamenn

Tæplega 74% aðspurðra voru sammála þeirri fullyrðingu að íslensk stjórnvöld ættu að gera meira til að hjálpa þeim sem eru á flótta undan stríði eða ofsóknum. Þeir svarendur sem voru ósammála fullyrðingunni voru rúm 26%. Í Globescan-könnuninni svöruðu 66% aðspurðra því til að ríkisstjórn þeirra ætti að gera meira til aðstoða fólk sem flýr stríð eða ofsóknir.

Samkvæmt könnun Maskínu eru konur mun líklegri til að styðja þá fullyrðingu að íslensk stjórnvöld ættu að gera meira til að hjálpa fólki sem flýr stríð eða ofsóknir eða 81,5% á móti 66,5% karlmanna. 

Þá töldu tæp 83,5% aðspurðra yngri en 25 ára að íslensk stjórnvöld ættu að gera meira til að aðstoða fólk sem flýr stríð eða ofsóknir og rúm 66% aðpurðra á aldrinum 35-44 ára voru sammála fullyrðingunni.  

Almenningur tilbúinn að bjóða flóttafólk velkomið

Almenningur á Íslandi er einnig mjög viljugur að bjóða flóttafólk velkomið nærri heimahögunum. Tæp 65% eru tilbúin að taka á móti flóttafólki í hverfið sitt, þar af eru tæp 13% tilbúin að bjóða flóttafólk velkomið á heimili sitt. Þeir sem sögðust ekki vilja fá flóttafólk til Íslands mældust 14,5%. Til samanburðar voru 32% aðspurðra tilbúin að bjóða flóttafólk velkomið í hverfið sitt, þar af 10% á heimili sitt, samkvæmt Globescan-könnuninni. Þá sögðust 17% aðspurðra ekki vilja fá flóttafólk til landsins samkvæmt sömu könnun.  

Marktækur munur var svörum eftir kyni en tæp 46% karlmanna sögðust tilbúin að bjóða flóttafólk velkomið í hverfið sitt en tæp 59% kvenna. Þá var jafnframt marktækur munur á svörum eftir aldri en töluvert fleiri á aldrinum 25-34 ára eða rúm 63% voru tilbúin að bjóða flóttafólk velkomið í hverfið sitt á móti rúmum 43% á aldrinum 55 ára og eldri.

Þá voru tæp 23% aðspurðra yngri en 25 ára tilbúin að bjóða flóttafólk velkomið á eigið heimili en tæp 8% 55 ára og eldri. Athygli vekur að yngsti hópurinn mældist einnig hæstur í afstöðu sinni til þess að vilja ekki hleypa flóttafólki inn í landið eða 20%.

Niðurstöður könnunar Maskíu sýna svart á hvítu að stór meirihluti aðspurðra Íslendinga er tilbúinn til að bjóða flóttafólk velkomið til landsins.

 „Það er auðvitað mjög gleðilegt að sjá hversu tilbúinn almenningur er hér á landi að bjóða flóttafólk velkomið. Vissulega er það vel að ríkisstjórn Íslands hafi tekið á móti fleira kvótaflóttafólki í ár en árin sem á undan eru gengin en betur má ef duga skal og ríkisstjórn landsins má ekki skorast undan þeirri ábyrgð að taka virkari þátt í lausn flóttamannavandans. Ekki aðeins með því að taka á móti fleira kvótaflóttafólki heldur að hugsa aðrar leiðir til að veita fólki sem flýr stríð og ofsóknir vernd. Það er kominn tími til að taka hugaðar ákvarðanir og fylgja þeim eftir. Við verðum að muna að vernd er ekki gjöf til flóttafólks - hún er mannréttindi,“ segir Anna Lúðvíksdóttir framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International.

 

[1] Í Globescan-könnunni var boðið upp á svarmöguleikana „Veit ekki“ og „fer eftir ýmsu“ í sumum löndum sem skýrir heildarhlutfall þeirra sem tóku afstöðu eða 98%. Hin 2% svöruðu „veit ekki“ eða „fer eftir ýmsu“. Þessir svarmöguleikar voru ekki í boði í könnun Maskínu. 

Til baka