Tyrkland: Fjölskylda formanns Amnesty International í öngum sínum eftir að hann var handtekinn á ný

1.2.2018

Ákvörðun um endurnýjun varðhalds yfir formanni Amnesty International í Tyrklandi, aðeins klukkustundum eftir að dómstóll fyrirskipaði lausn hans, verður að afturkalla án tafar og leysa Taner Kılıç úr haldi.

„Síðasta rúman sólarhring höfum við orðið vitni að skrumskælingu á réttlæti af ótrúlegri stærðargráðu. Að veita honum lausn en síðan loka dyrum fyrir frelsi á gimmilegan hátt er reiðarslag fyrir Taner, fjölskyldu hans og alla þá sem  berjast fyrir réttlæti í Tyrklandi,“ sagði aðalframkvæmdastjóri Amnesty International Salil Shetty.

„Þetta atvik í fjandsamlegu varðhaldi hans hefur dregið úr von Taners sem og eiginkonu hans og dætra sem biðu allan daginn við fangelsishliðið til að taka á móti honum.“

Endurnýjun varðhalds Taners kom í kjölfar ákvörðunar undirréttar í Istanbúl í gær um að leysa hann úr haldi með skilyrðum á meðan hann biði réttarhalda. Saksóknari áfrýjaði ákvörðuninni sem var samþykkt af öðrum dómstóli í Istanbúl.  Í stað þess að vera leystur úr haldi var Taner færður frá Izmir-fangelsinu þar sem honum hefur verið haldið síðan í júní og settur í gæsluvarðhald. Undirrétturinn samþykkti síðan þessa ákvörðun um áframhaldandi varðhald.

„Þetta er nýjasta dæmið um þrengingar í réttarkerfi Tyrklands sem eyðileggur líf og dregur úr réttinum til sanngjarnra réttarhalda,“ sagði Salil Shetty.

 „Með því að valta yfir réttlætið og líta framhjá yfirgnæfandi sönnunargögnum um sakleysi hans mun áframhaldandi varðhald hans aðeins dýpka á staðfestu okkar til að berjast fyrir máli Taners. Ein milljón radda hefur nú þegar kallað eftir lausn hans. Það hefði aldrei átt að handtaka hann og við munum ekki hætta fyrr en hann er frjáls á ný.“

 Næsta fyrirtaka í dómsmáli hans verður 21. júní 2018. 

Til baka