Tyrkland: Framkvæmdastjóri Tyrklandsdeildar Amnesty International í einangrun

6.7.2017

Framkvæmdastjóri Tyrklandsdeildar Amnesty International, Idil Eser, var ásamt sjö öðrum mannréttindafrömuðum og tveimur þjálfurum handtekin í gær, miðvikudag, þegar þau tóku þátt í námskeiði um stafrænt öryggi og upplýsingastjórnun í Büyükada í Istanbúl.

„Við erum virkilega óróleg og okkur er algjörlega misboðið að helstu mannréttindafrömuðir Tyrklands, þeirra á meðal framkvæmdastjóri Tyrklandsdeildar Amnesty International, skuli hafa verið handteknir blygðunarlaust og án tilefnis,“ segir Salil Shetty, framkvæmdastjóri Amnesty International.

„Það að Idil Eser og hinir mannréttindafrömuðurnir skuli hafa verið handtekin á meðan þau tóku þátt í venjubundinni þjálfun og sé haldið í einangrun er afkárleg misbeiting valds og undirstrikar það hættulega ástand sem aðgerðasinnar í Tyrklandi þurfa að búa við. Idil Eser og aðrir sem handteknir voru verður að leysa skilyrðislaust úr haldi strax.“

„Leiðtogar heimsins, sem sitja G20 fund í Hamborg í Þýskalandi í vikunni, hafa verið ótrúlega umburðalyndir þegar kemur að hnignun mannréttinda í Tyrklandi. Nú þegar þeir funda meðal annars með Erdoğan Tyrklandsforseta, gefst kjörið tækifæri til að ræða á ákveðin hátt um þessi mál og kalla eftir lausn allra þeirra mannréttindasinna sem nú sitja í fangelsi í Tyrklandi.“

Bakgrunnur

Eins og stendur er ekki vitað hvar Idil Eser eða hinum er haldið föngnum.

Eftir því sem best er vitað hefur Idil Eser og hinum föngnu verið meinaður aðgangur að lögfræðingum, en það hefur tyrkneska lögreglan leyfi til að gera í 24 klukkustundir. Þá hefur þeim ekki verið veitt leyfi til að hafa samband við fjölskyldur sínar en það á, samkvæmt lögum, að gera strax.

Lögreglan hefur sagt lögfræðingum að þeim verði veittar frekari upplýsingar klukkan 14.30 í dag, að staðartíma.

Þeir sem handteknir voru ásamt Idil Eser eru : İlknur Üstün, frá kvennabandalaginu Women‘s Coalition, Günal Kurşun, lögfræðingur, og Veli Acu frá mannréttindasamtökunum Human Rights Agenda Association, Nalan Erkem, lögfræðingur, og Özlem Dalkıran frá Citizens‘ Assembly, Nejat Taştan, frá samtökunum Equal Rights Watch Association og lögfræðingurinn Şeyhmuz Özbekli.

Þá voru tveir erlendir ríkisborgarar, Þjóðverji og Svíi, einnig handteknir ásamt hóteleigandanum þar sem námskeiðið fór fram.

Aðeins er tæpur mánuður síðan formaður Amnesty International í Tyrklandi, Taner Kiliç, var úrskurðaður í gæsluvarðhald í framhaldi af tilhæfulausum ákærum.

Til baka