Undirskriftir í Kringlunni björguðu lífi nígerísks jafnaldra

Anna Lilja Ægisdóttir ætlar að hlaupa 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu 19. ágúst og safna áheitum fyrir Amnesty International.

27.7.2017

„Það var magnað að hitta allt í einu dauðadæmda manninn, sem við höfðum barist fyrir að yrði frjáls. Þarna var hann lifandi, að tala við okkur,” segir Anna Lilja Ægisdóttir en hún ætlar að hlaupa 10 kílómetra í maraþoninu 19. ágúst og safna áheitum fyrir Amnesty International.

Anna Lilja sem er 21 árs læknanemi, var formaður ungliðahreyfingar Amnesty árin 2014 - 15. Ungliðahreyfing Amnesty vinnur að því að vekja athygli á mannréttindabrotum um allan heim en Anna Lilja segir að mál Moses Akatugba hafi verið stærsta málið sem ungliðahreyfingin tók þátt í á þessum árum.

Anna Lilja hleypur fyrir Amnesty.


Nígeríubúinn Moses Akatugba var handtekinn þegar hann var táningur og sakaður um að hafa stolið tveimur farsímum. Í kjölfarið var hann settur í varðhald þar sem hann var pyndaður. „Hann var barinn og dregnar voru af honum neglurnar til að knýja fram játningu. Í kjölfarið skrifaði hann undir játninguna þrátt fyrir að vita ekki hvað fælist í henni. Eftir 8 ár í gæsluvarðhaldi var loks kveðinn upp dómur í máli Móses. Hann hlaut dauðadóm fyrir farsímastuld sem hann var þvingaður til að játa að hafa framið.”

Á meðan Moses beið eftir dauða sínum í fangelsi tók Amnesty International málið hans upp. Farið var í herferð út um allan heim þar sem vakin var athygli á máli Moses og undirskriftum almennings safnað, sem síðan voru sendar til stjórnvalda í Nígeríu til að þrýsta á lausn Moses.

„Við í ungliðahreyfingunni tengdum við þetta mál þar sem Moses var á svipuðum aldri og við. Okkur fannst hræðilegt að hugsa til þess hversu mikið hann var látinn ganga í gegnum.

Við ákvaðum því að taka málið hans upp og vorum með aðgerð í Kringlunni, risastóran banner sem við söfnuðum undirskriftum á, upplýsingaskilti og fangabúr með leikara inni í sem leit út fyrir að hafa verið pyndaður. Við söfnuðum slatta af undirskriftum,” segir Anna Lilja en alls söfnuðust sextán þúsund undirskriftir sem voru sendar frá Íslandi til nígerískra stjórnvalda. Svo leið tíminn og einn daginn fréttu krakkarnir að Moses hefði verið látinn laus og væri frjáls.

Átján mánuðum síðar kom Moses til Íslands og hitti ungliðaráðið til að þakka þeim fyrir. „Það var bara svo mikil viðurkenning á því starfi sem Amnesty sinnir og þeirri vinnu sem við í ungliðahreyfingunni lögðum í þetta. Það að eyða einum laugardegi í aðgerð í Kringlunni og síðan einu hádegi í MR að safna undirskriftum hafi skilað sér í því að bjarga lífi hans er alveg magnað.”

„Það er auðvelt að horfa framhjá mannréttindabrotum í heiminum. En þegar maður áttar sig á því að hver og einn einstkalingur á þessari jörðu lifir lífi sem er algjörlega jafn verðmætt og manns eigið, og nær að bjarga einu slíku eins og við gerðum, þá er það ótrúlega dýrmætt. Þess vegna ætla ég að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og vekja athygli á því að venjulegt fólk getur haft áhrif á mannréttindabaráttu um allan heim.”

Anna Lilja segist hlakka til hlaupsins og hefur sett sér það markmið að hlaupa 10 kílómetra undir klukkutíma. „Mig langar líka að safna að minnsta kosti 15 þúsund krónum. Það væri samt gaman ef það væri meira.”

Hún skorar jafnframt á Evu Lín Vilhjálmsdóttur, sem einnig var í ungliðahreyfingu Amnesty, til að hlaupa 10 kílómetra með sér.

Við þökkum Önnu Lilju fyrir að hlaupa fyrir Amnesty International í Reykjavíkurmaraþoninu. Hægt er að heita á Önnu og aðra Amnesty-hlaupara hér . Einnig er hægt að skrá sig í hlaupið og hlaupa fyrir Amnesty International hér .

Til baka