Ungverjaland: Fangabúðir flóttamanna í gámum handan gaddavírsgirðinga er gróft brot á alþjóðalögum

8.3.2017

Ungverska þingið hefur samþykkt lög sem kveða á um að allir þeir sem sækja um hæli í landinu sæti handtöku og varðhaldi á meðan umsókn þeirra er afgreidd.

Gauri Van Gulik, framkvæmdastjóri Amnesty International í málefnum Evrópu lét eftirfarandi orð falla í tengslum við nýju ungversku lögin: „Áætlanir um að setja viðkvæmasta hóp veraldar í gæsluvarðhald í skipagáma sem komið hefur verið fyrir handan við gaddavírsgirðingar á landamærum Serbíu, þar sem hælisleitendur þurfa að dúsa svo mánuðum skiptir, eru utan marka alls velsæmis. Þessar nýju pakkningar á landamæravörslu er nýjasta útspil Ungverjalands í harðskeyttri herferð stjórnvalda gegn flóttafólki og hælisleitendum. Þeir sem fyrir eru í landinu verða einnig handteknir og fluttir í sömu fangabúðirnar á landamærunum. Þetta á við um alla fullorðna hælisleitendur óháð kyni, aldri eða líkamlegu og andlegu ástandi. Þessum aðgerðum verður jafnvel beitt gegn börnum, 14 ára og eldri, sem er svívirðilegt brot á bæði alþjóða- og Evrópulöggjöfinni. Lagabreytingarnar kveða auk þess á um að hælisleitendur sem koma frá Serbíu hljóti ekki sanngjarna málsmeðferð heldur verði þvingaðir til baka.”

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur harðlega gagnrýnt lagabreytingarnar og bendir á að nær óhugsandi verði fyrir hælisleitendur að sækja um alþjóðlega vernd í landinu.

Amnesty International skorar á Evrópusambandið að rísa upp og sýna Ungverjalandi að ólöglegar og ómannúðlegar aðgerðir sem þessar hafa afleiðingar. Sú aðgerð að kasta öllu flóttafólki og hælisleitendum í gáma sýnir ekki stefnu í flóttamannamálum heldur stefnuleysi. 

 

Til baka