Afnemum dauðarefsinguna

 

Myndband frá Amnesty International um dauðarefsinguna

 

Dauðarefsingin er grimmileg, ómannúðleg og niðurlægjandi.

Hún er brot á réttinum til lífs. Óháð aðferðinni, hvort sem það er rafmagnstóll, hengingar, gasklefi, hálshöggningar, grjótkast, aftökusveit eða banvæn sprauta þá er dauðarefsingin ofbeldisfull og á ekki að fyrirfinnast í nútímaréttarkerfi.

Samt  sem áður er dauðarefsingin enn við lýði.

Í mörgum löndum réttlæta stjórnvöld notkun dauðarefsinga með því að hún komi í veg fyrir glæpi. En engar sannanir eru fyrir því að sú leið sé árangursríkari til að fækka glæpum en aðrar harðar refsingar.

Dauðarefsingin mismunar fólki. Hún er oft notuð hlutfallslega meir gegn fátækum, minnihlutahópum, öðrum kynþáttum, þjóðarbrotum og trúarhópum. Dauðarefsingu er beitt af geðþótta. Í sumum löndum er hún notuð sem tæki til kúgunar – hún er skjótvirk og grimmileg leið til að bæla niður pólitíska andstöðu.

Dauðarefsingin er óafturkræf. Í réttarkerfinu starfa manneskjur og þær gera mistök og sýna fordóma. Sú hætta er ávallt fyrir hendi að saklaust fólk sé tekið af lífi. Slík mistök er ekki hægt að taka til baka.

Amnesty International er andvígt dauðarefsingum undir öllum kringumstæðum og vinnur að því að afnema hana í öllum löndum heims.

Mannréttindabrot

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna viðurkennir rétt einstaklinga til lífs (í 3. grein) og lýsir afdráttarlaust yfir í 5. grein: „Enginn maður skal sæta pyndingum, grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.”

Sameinuðu þjóðirnar ítrekuðu og styrktu afstöðu sína gegn dauðarefsingum í desember 2007 þegar allsherjarþingið samþykkti ályktun þar sem kallað var eftir því að aðildarríki stöðvuðu aftökur „með það í huga að afnema dauðarefsingu.“

Einkenni en ekki lausn

Viðurkenna þarf að dauðarefsingin er pólitísk stefna sem veldur sundrungu, hefur eyðileggjandi áhrif og gengur þvert gegn almennt viðurkenndum gildum samfélaga. Hún stuðlar að einföldum viðbrögðum við flóknum mannlegum vandamálum og beinir athygli frá áhrifaríkum leiðum til að vinna gegn glæpum. Hún er yfirborðskennt svar við þjáningum fjölskyldna fórnarlamba og eykur á þjáningar ástvina dæmdra fanga. Með notkun hennar er fjármagni beint frá öðrum úrræðum gegn ofbeldisglæpum og aðstoð við þolendur slíkra glæpa.

Dauðarefsing er einkenni á ofbeldismenningu, ekki lausn gegn slíkri menningu.  Hún brýtur gegn mannlegri reisn. Dauðarefsinguna á að afnema.

Andstaðan gegn dauðarefsingum eykst sífellt. Frá því árið 1979 hafa yfir 70 lönd afnumið dauðarefsinguna fyrir alla eða vægari glæpi. Dauðarefsing er ekki lengur í lögum hjá yfir 130 ríkjum heims og aðeins nokkur stjórnvöld framkvæma aftökur á ári hverju.

Amnesty International hvetur til þess að:

  • Aftökum verði hætt alls staðar í heiminum
  • Dauðarefsingin verði afnumin í lögum fyrir alla glæpi
  • Öll ríki heimsins fullgildi alþjóðlega sáttmála sem styðja afnám dauðarefsingarinnar, þar á meðal aðra valfrjálsu bókunina við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, en bókunin lýtur að dauðarefsingunni og afnámi hennar.
  • Öll lönd, sem enn halda í dauðarefsinguna, framfylgi alþjóðlegum skyldum sínum um að taka ekki börn af lífi.