Ársskýrsla Amnesty International: Dauðarefsingin 2016


  • 1032 aftökur áttu sér stað árið 2016 – 37% færri en árið 2015 (1634).
  • Íran, Sádí-Arabía, Írak, Pakistan og Kína taka flesta af lífi.
  • Bandaríkin tróna í fyrsta sinn frá árinu 2006 ekki í efstu fimm sætunum yfir þau ríki sem taka flesta af lífi. Ekki hafa verið færri aftökur í Bandaríkjunum frá árinu 1991.
  • Rannsókn Amnesty International leiðir í ljós að yfirlýsingar Kína um opið og gagnsætt réttarfar eru byggðar á sandi.
  • Morðæði stjórnvalda í Víetnam opinberað.

Skelfileg beiting dauðarefsingarinnar í Kína heldur áfram að vera ríkisleyndarmál og stjórnvöld halda uppteknum hætti og taka þúsundir einstaklinga af lífi á ári hverju samkvæmt nýrri ársskýrslu Amnesty International um dauðarefsinguna árið 2016.  

Ný ítarleg rannsókn Amnesty International sýnir að kínversk stjórnvöld nota flókið og leynilegt kerfi til að fela sláandi fjölda aftakna í landinu, þrátt fyrir endurteknar yfirlýsingar stjórnvalda um skref í átt að gagnsæi.

Að Kína undanskildu voru 1032 aftökur skráðar á árinu 2016. Kína beitti fleiri aftökum en öll önnur ríki samanlagt á meðan Bandaríkin náðu sögulegu lágmarki í beitingu dauðarefsingarinnar árið 2016.

„Kína vill vera í forystu þjóða á heimsvísu en þegar kemur að dauðarefsingunni þá er Kína í forystu á versta mögulega veg og tekur fleiri af lífi árlega en nokkurt annað ríki í heiminum,“ segir Salil Shetty.

„Kínversk stjórnvöld hafa viðurkennt að hægt gangi að ná fram opnu og gagnsæu réttarfarskerfi en halda fast við sinn keip að leyna raunverulegum fjölda aftakna í landinu. Það er löngu tímabært fyrir Kína að svipta hulunni af þessu banvæna leyndarmáli og gera loks hreint fyrir sínum dyrum um dauðarefsingar í landinu. Aðeins örfá ríki taka fólk enn af lífi í auknum mæli. Meirihluti ríkja lætur ekki viðgangast að ríkið taki mannslíf. Einungis fjögur ríki bera ábyrgð á 87% allra skráðra aftakna í heiminum sem vitnar til um að dauðarefsingin sem slík sé í dauðateygjunum.“

Helmingur-rikja-daudarefsingin-2016-minni


Villandi staðhæfingar kínverskra stjórnvalda um gagnsæi

Rannsókn Amnesty International sýnir fram á að hundruð skráðra dauðarefsingarmála finnast ekki í gagnasafni dómstóla á netinu en því safni er hampað sem „mikilvægu framfaraskrefi í átt að gagnsæu og opnu kerfi“ og er reglulega kynnt sem sönnun þess að réttarkerfi landsins hafi ekkert að fela.“

Gagnasafnið geymir aðeins brot af þeim þúsundum dauðadóma sem Amnesty International áætlar að kínversk stjórnvöld láti falla á hverju ári sem endurspeglar þá staðreynd að stjórnvöld halda fast í þá leynd sem ríkir um fjölda einstaklinga sem dæmdir eru til dauða og teknir af lífi í landinu.

Kína flokkar flestar upplýsingar sem tengjast dauðarefsingunni sem „ríkisleyndarmál“ og kunna hvaða upplýsingar sem er að flokkast sem ríkisleyndarmál samkvæmt víðtækum öryggislögum landsins.

Amnesty International fann opinberan fréttapistil þar sem gert er grein fyrir aftökum 931 einstaklinga á árunum 2014 og 2016 (aðeins brot af heildarfjölda aftakna) en aðeins 85 þeirra er getið í gagnasafni ríkisins á netinu.

Í gagnasafninu er jafnframt ekki að finna upplýsingar um erlenda ríkisborgara sem hlotið hafa dauðadóm í Kína vegna fíkniefnabrota þrátt fyrir að þarlendir fjölmiðlar hafi gert grein fyrir a.m.k. 11 aftökum á erlendum ríkisborgurum. Upplýsingar skortir um fjölda dauðarefsingamála sem tengjast „hryðjuverkum“ og „fíkniefnaglæpum“.

„Kínversk stjórnvöld afhjúpa einungis lítið brot af dauðarefsingarmálum og styðjast við fullyrðingar sem ekki er unnt að staðfesta til að geta haldið því fram að framfarir eigi sér stað í landinu hvað fjölda aftaka ræðir en á sama tíma viðhalda stjórnvöld algjörri leynd,“ segir Salil Shetty.

„Kína er sér á parti í samfélagi þjóða þegar kemur að dauðarefsingunni, úr takti við alþjóðleg mannréttindaviðmið og fer þvert gegn ítrekuðum tilmælum Sameinuðu Þjóðanna um að greina frá fjölda einstaklinga sem teknir eru af lífi í landinu.“

Sú hætta að saklaust fólk sé tekið af lífi hefur á undanförnum árum vakið aukinn óhug meðal almennings í Kína. Í desember 2016 snéri Hæstiréttur fólksins rangri sakfellingu við í einu þekktasta máli landsins þar sem réttarmorð átti sér stað þegar Nie Shubin var tekinn af lífi. Hann var tekinn af lífi fyrir tuttugu og einu ári, aðeins tvítugur að aldri. Árið 2016 kváðu kínverskir dómstólar upp þann úrskurð að fjórir einstaklingar sem allir sátu á dauðadeild væru saklausir og ógiltu dauðadómana yfir þeim.

Sláandi umfang aftakna í Víetnam afhjúpað


Nýjar rannsóknir leiða í ljós að umfang aftakna í Malasíu og Víetnam er mun meira en talið var. Upplýsingar frá Víetnam, sem fjölmiðlar landsins birtu í fyrsta sinn í febrúar 2017, sýna að því hefur verið leynt að landið er þriðja í röðinni yfir þau lönd sem tekið hafa flesta af lífi á undanförnum þremur árum. Frá 6. ágúst 2013 til 30. júní 2016 voru 429 einstaklingar teknir af lífi í Víetnam. Aðeins Kína og Íran tóku fleiri af lífi á tímabilinu. Skýrsla á vegum Öryggismálaráðuneytis Víetnam hefur ekki að geyma sundurliðun á fjölda aftakna.

„Umfang aftakna í Víetnam á undaförnum árum er sannarlega mikið reiðarslag. Þetta færiband aftakna skyggir algerlega á nýlegar umbætur í málaflokknum. Við hljótum að spyrja okkur að því hversu margir til viðbótar hafa þurft að sæta dauðarefsingunni án þess að heimurinn viti af því,“ segir Salil Shetty.

Svipuð leynd ríkir í Malasíu þar sem þrýstingur frá þinginu árið 2016 leiddi til opinberunar á því að rúmlega eitt þúsund manns eru á dauðadeild sem er mun meira en talið var og  níu voru teknir af lífið árið 2016.

Á meðan festir sú hugmynd rætur annars staðar að glæpir heimili beitingu dauðarefsingarinnar, eins og á Filippseyjum þar sem nú er reynt er að koma dauðarefsingunni aftur á (síðast afnumin 2006) og Maldíveyjar hóta aftökum að nýju eftir 60 ára hlé.

Færri aftökur í Bandaríkjunum

Bandaríkin eru, í fyrsta sinn frá árinu 2006 og í annað sinn frá árinu 1991, ekki lengur meðal þeirra fimm ríkja sem taka flesta af lífi.

Fjöldi aftakna (20 talsins) árið 2016 náði sögulegu lágmarki en aftökur hafa ekki verið færri frá árinu 1991, helmingur þess sem var árið 1996 og næstum fimm sinnum færri en árið 1999. Aftökum hefur fækkað á hverju ári frá 2009, fyrir utan 2012 þegar fjöldinn var sá sami.

Fjöldi dauðadóma (32) hefur heldur ekki verið minni frá árinu 1973 sem er merki þess að dómarar, saksóknarar og kviðdómendur eru að snúa baki við dauðarefsingunni sem leið til að framfylgja réttlætinu. Engu að síður eru 2.832 einstaklingar enn á dauðadeild í Bandaríkjunum.

Umræðan er klárlega að breytast í Bandaríkjunum en það að dregið hafi úr aftökum skýrist að hluta til af málshöfðun gegn reglum um banvæna sprautugjöf og áskorunum í mörgum fylkjum við að fá efni í spauturnar. Möguleg úrlausn á áskorunum sem fylgdu banvænni sprautugjöf á árinu 2016 gæti þýtt að umfang aftakna nái aftur nýjum hæðum í Bandaríkjunum árið 2017, fyrst í Arkansas í apríl.


Aðeins fimm fylki í Bandaríkjunum tóku fólk af lífið árið 2016: Alabama (2), Flórída (1), Georgía (9), Missurí (1) og Texas (7). Georgía og Texas stóðu að 80% aftakna í landinu árið 2016. Hins vegar hafa 12 fylki Bandaríkjanna, Arkansas þeirra á meðal, ekki tekið neinn af lífi síðustu tíu árin þrátt fyrir að hafa ekki afnumið dauðarefsinguna.

„Beiting dauðarefsingarinnar í Bandaríkjunum hefur ekki verið minni frá því í byrjun tíunda áratugarins en við þurfum að halda baráttunni lifandi. Aftökur kunna að komast aftur á af fullum þunga í ár. Sláandi fjöldi aftakna sem fyrirhugaðar eru í Arkansas í apríl eru skýrt dæmi um hverju skjótt veður geta skipast í lofti,“ segir Salil Shetty.“

„Sú stöðuga fækkun sem orðið hefur á beitingu dauðarefsingarinnar í Bandaríkjunum gefur aðgerðasinnum styrk og von en þeir hafa lengi barist fyrir því að bundinn verði endi á dauðarefsinguna. Umræðan er greinilega að breytast. Stjórnmálamenn ættu að fjarlægja sig frá þeirri orðræðu sem snýr að því að „beita hörku gegn glæpum“, orðræðu sem kynti undir gríðarlega aukningu á aftökum á níunda og tíunda áratugnum. Dauðarefsingin mun ekki gera neinn öruggari.“

„Þau fimm fylki Bandaríkjanna sem beittu dauðarefsingunni á síðasta ári eru á eftir sinni samtíð. Þau eru ekki eingöngu á skjön við þróunina á landsvísu heldur víðar. Í átta ár hafa Bandaríki Norður-Ameríku verið eina landið í Ameríku sem beitir dauðarefsingunni.“

Meginatriðin í þróun dauðarefsingarinnar árið 2016

 

  • Fækkun aftakna á heimsvísu stafar að mestu leyti af færri aftökun í Íran (42% fækkun á milli ára, frá 977 aftökum 2015 í 567 aftökur 2016) og í Pakistan (73% fækkun á milli ára, frá 326 aftökum 2015 í 87 aftökur 2016)
  • Í Afríku sunnan Sahara áttu færri aftökur sér stað en fjöldi dauðadóma jókst um helming, að mestu vegna fleiri dauðadóma í Nígeríu
  • Í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku fækkaði aftökum um 28% en Íran og Sádí-Arabía eru enn meðal þeirra ríkja sem taka flesta af lífi
  •  Tvö ríki afnámu dauðarefsinguna fyrir alla glæpi – Benín og Nauru og Gínea afnam dauðarefsinguna fyrir minniháttar glæpi