Mýtur og staðreyndir um dauðarefsinguna

 

Mýtur og staðreyndir um dauðarefsinguna

 

Mýta

Dauðarefsingin dregur úr ofbeldisglæpum og gerir samfélagið öruggara.

Staðreynd

Rannsóknir víða um heim sýna að dauðarefsingar draga ekki sérstaklega úr glæpatíðni.

Margir hafa haldið því fram að afnám dauðarefsingarinnar leiði til aukinnar glæpatíðni en rannsóknir, til dæmis í Bandaríkjunum og Kanada, styðja það ekki.  

Árið 2004 var morðtíðnin í þeim ríkjum Bandaríkjanna, sem framkvæma dauðarefsingar, að meðaltali 5,71 morð fyrir hverja 100.000 íbúa á móti 4,02 í ríkjum sem beittu ekki dauðarefsingunni.

Í Kanada árið 2003, 27 árum eftir afnám dauðarefsingarinnar, var morðtíðnin 44 prósentum lægri en árið 1975 þegar dauðarefsingar voru enn leyfðar.

Dauðarefsingar gera samfélög alls ekki öruggari heldur auka þær grimmd samfélaganna.

Manndráp ríkisvaldsins eykur valdbeitingu og nærir vítahring ofbeldis.

Mýta

Dauðarefsingin dregur úr fíkniefnabrotum.

Staðreynd

Í mars 2008 kallaði framkvæmdastjóri Skrifstofu Sameinuðu þjóðanna um fíkniefni og glæpi eftir því að hætt yrði að nota dauðarefsingu fyrir fíkniefnabrot: Þótt fíkniefni drepi þá tel ég ekki að við þurfum að drepa vegna þeirra.“

Notkun dauðarefsingar vegna fíkniefnabrota stríðir gegn alþjóðalögum. Í alþjóðasamningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, í sjöttu grein, er sagt: Í löndum sem ekki hafa afnemið dauðarefsingu má aðeins kveða upp dauðadóm fyrir alvarlegustu glæpi…“.

Í apríl 2007 var sérstakur eftirlitsfulltrúi Sameinuðu þjóðanna um aftökur án dóms og laga, skyndi- og geðþóttaaftökur sérfrótt vitni vegna málareksturs í tengslum við stjórnarskrá Indónesíu. Hann sagði fyrir stjórnarskrárdómstólnum: Dauði er ekki viðeigandi svar við þeim glæp sem fíkniefnaflutningur er.“  

Auk Indónesíu eru Kína, Íran, Malasía, Sádi-Arabía og Singapúr meðal þeirra landa sem taka fólk af lífi fyrir fíkniefnabrot.  Ekki eru til neinar skýrar sannanir fyrir því að dauðarefsing fyrir slík brot hafi meiri fyrirbyggjandi áhrif en löng fangelsisvist.

Mýta

Einstaklingar eru síður líklegir til að fremja ofbeldisglæpi, þeirra á meðal morð, ef þeir vita að dauðarefsing liggur við.

Staðreynd

Þessi rök gera ráð fyrir að afbrotamenn kynni sér afleiðingarnar og séu viðbúnir því að þeir náist og taki síðan ákvörðun um að löng fangelsisvist sé ásættanleg en aftaka sé það aftur á móti ekki.

Margir glæpir eru framdir í hita augnabliksins og möguleg refsing hefur lítil áhrif á ákvarðanatöku við slíkar aðstæður. Brotamenn telja auk þess að þeir muni ekki nást og sæta refsingu.

Dauðarefsingin getur jafnvel kynt undir ofbeldi. Aftökur eru strangasta refsing gegn einstaklingum sem ríki getur beitt. Þegar brotamenn vita að þeir hafa framið brot sem varða dauðarefsingu þá hafa þeir ekki lengur vilja til að draga úr hugsanlegri refsingu með því að forðast að fremja fleiri morð eða önnur brot. Ef vopnað rán fellur, til dæmis, undir dauðarefsingu þá tapar ræninginn engu á því að fremja morð á flóttanum.

Mýta

Hættan á að sæta aftöku er áhrifarík aðferð til að fyrirbyggja hryðjuverk.

Staðreynd

Einstaklingar, sem eru tilbúnir að fremja stórfellda ofbeldisglæpi til að valda ótta á meðal almennings, gera það vitandi að þeir eiga á hættu að verða fyrir alvarlegum líkamlegum skaða. Þeim er því lítið eða alls ekki umhugað um öryggi sitt. Aftaka þessara einstaklinga er oft kærkomin kynning fyrir hópinn, sem þeir tilheyra, og býr til píslarvotta sem geta verið notaðir til að afla frekari stuðnings við málstað þeirra.

Þrátt fyrir það hafa mörg lönd reynt að vinna bug á hryðjuverkum með því að nota dauðarefsinguna. Írakar samþykktu lög gegn hryðjuverkum í nóvember 2005. Lögin skilgreina hryðjuverk með óljósum hætti og nokkur brot teljast hryðjuverk og varða dauðarefsingu, jafnvel brot þar sem engin dauðsföll verða vegna brotanna. Fjölmargar aftökur hafa farið fram í Írak á grundvelli þessara og annarra laga.

Mýta

Dauðarefsingin er í lagi svo framarlega sem að meirihluti almennings styðji hana.

Staðreynd

Amnesty International viðurkennir rétt ríkja til að setja eigin lög. Samt sem áður þurfa slík lög að virða mannréttindi.

Mannkynssagan er full af dæmum af mannréttindabrotum sem eitt sinn voru samþykkt af þorra almennings; mannréttindabrotum sem horft er á með óhug í nútímasamfélagi. Í samfélögum þar sem þrælahald, kynþáttaaðskilnaður og múgaftökur áttu sér stað var víðtækur stuðningur fyrir þeim, en þetta voru þó alvarleg brot á mannréttindum fórnarlambanna.

Skiljanlegt er að almenningur leiti til leiðtoga sinna um aðgerðir gegn ofbeldi og sýni reiði gagnvart þeim sem gerast sekir um hrottalega glæpi.

Amnesty International telur að stjórnmálamenn eigi að vísa veginn í stuðningi sínum við  mannréttindi og taka afstöðu gegn dauðarefsingunni og útskýra hvers vegna ríkisvaldið eigi ekki að taka fólk af lífi.

Eftir rúmlega þrjátíu ára rannsóknir á dauðarefsingunni telur Amnesty International að stuðningur almennings við dauðarefsinguna byggist á löngun til að vera laus við glæpi. Þetta kemur fram í skoðanakönnunum í Bandaríkjunum og öðrum löndum sem sýna minnkandi stuðning við dauðarefsingu ef valmöguleiki um lífstíðarfangelsi án skilorðs er í boði.

Í Bandaríkjunum sýndi Gallup-könnun í maí 2006 að stuðningur við dauðarefsingu féll úr 65% í 48% þegar boðið var upp á val um  lífstíðarfangelsi án skilorðs.

Mýta

Aftökur eru hagkvæmasta lausnin við ofbeldisglæpum.

Staðreynd

Samfélag getur ekki samþykkt ofbeldi og fórnað mannréttindum með vísan í kostnað. Ákvörðunin um að taka mannslíf ætti ekki að byggjast á fjárhagslegum forsendum. Dauðarefsingin er gagnslaus aðferð til að fækka föngum. Til dæmis eru um 2,2 milljónir fanga í Bandaríkjunum, en einungis um 3 þúsund þeirra hafa verið dæmdir til dauða. Jafnvel þótt allir fangar á dauðadeildum væru teknir af lífi þá myndi það ekki hafa nein sjáanleg áhrif á fjölda fanga.