Dauðarefsingin 2016: Staðreyndir og tölfræði

Tölfræði á heimsvísu

Að minnsta kosti 1.032 einstaklingar voru teknir af lífi í 23 löndum árið 2016. Árið 2015 skrásetti Amnesty International 1.634 aftökur í 25 löndum á heimsvísu sem er talið met sé horft frá árinu 1989.

Flestar aftökur áttu sér stað í Kína, Íran, Sádí-Arabíu, Írak og Pakistan – í þessari röð.

Hérna má sjá gagnvirka vefsíðu um dauðarefsinguna

Kína trónir enn á toppnum yfir þau ríki sem taka flesta af lífi en raunverulegt umfang dauðarefsinga í Kína er óþekkt þar sem gögn þar um teljast ríkisleyndarmál. Heildarfjöldi einstaklinga sem teknir voru af lífi árið 2016 á heimsvísu inniheldur ekki þær þúsundir aftakna sem talið er að Kína hafi beitt á síðasta ári.

Að Kína undanskildu eiga 87% allra aftakna sér stað í einungis fjórum ríkjum – Íran, Sádí-Arabíu, Írak og Pakistan.

Í fyrsta sinn frá árinu 2006 teljast Bandaríkin ekki í efstu fimm sætunum yfir ríki sem taka flesta af lífi og eru nú sjöunda í röðinni á eftir Egyptalandi. Færri aftökur hafa ekki átt sér stað í Bandaríkjunum frá árinu 1991 en þær töldust 20 árið 2016.

Vitað er að 23 lönd, eitt af hverjum átta ríkjum í heiminum, stunduðu aftökur á árinu 2016. Þetta eru mun færri lönd en þau sem tóku fólk af lífi fyrir tuttugu árum síðan (40 lönd stunduðu aftökur árið 1997). Hvíta-Rússland, Botsvana, Nígería og yfirvöld í Palestínu tóku aftur upp dauðarefsinguna árið 2016. Tsjad, Indland, Jórdanía, Óman, og Sameinuðu arabísku furstadæmin – lönd sem tóku fólk af lífi árið 2015  – tóku enga af lífi árið 2016.

141 ríki á heimsvísu, rúmlega tveir þriðju hluti allra ríkja, hafa afnumið dauðarefsinguna í lögum eða framkvæmd. Tvö lönd – Benín og Nauru – afnámu dauðarefsinguna árið 2016 fyrir alla glæpi. Samanlagt hafa 104 ríki afnumið dauðarefsinguna fyrir alla glæpi sem er meirihluti ríkja. Árið 1997 höfðu eingöngu 64 lönd afnumið dauðarefsinguna að fullu.

Mildun refsingar eða náðanir voru skráðar í 28 ríkjum árið 2016. Að minnsta kosti 60 manns í níu löndum sem dæmdir höfðu verið til dauða fengu uppreisn æru: Bangladess (9), Kína (5), Gana (1), Kúveit (1), Márítanía (1), Nígería (32), Súdan (9), Taívan (1) og Víetnam (2).

Amnesty International skráði 3.117 dauðadóma í 55 löndum árið 2016 sem er töluverð aukning frá árinu 2015 (1.998 dauðadómar féllu árið 2015 í 61 landi). Töluverð aukning varð á fjölda dauðadóma í 12 ríkjum en í sumum þeirra eins og Taílandi skýrist aukningin af þeirri staðreynd að yfirvöld veittu Amnesty International ítarlegri upplýsingar.  

Að minnsta kosti 18.848 einstaklingar voru á dauðadeild í loks árs 2016. Eftirfarandi aðferðum var beitt víðs vegar um heiminn: hálshöggning, henging, banvæn sprautugjöf og aftökur með skotvopnum. Opinberar aftökur fóru fram í Íran (a.m.k. 33) og í Norður-Kóreu.

Rannsókn leiddi í ljós að a.m.k. tveir einstaklingar sem voru undir átján ára þegar þeir gerðust sekir um glæp voru teknir af lífi í Íran árið 2016.

Í mörgum löndum þar sem fólk var dæmt til dauða eða tekið af lífi stóðst málsmeðferðin ekki alþjóðleg viðmið um sanngjörn réttarhöld. Í sumum tilfellum fól þetta meðal annars í sér játningar sem fengnar voru fram með pyndingum eða annarri illri meðferð eins og í Barein, Kína, Íran, Írak, Norður-Kóreu og Sádí-Arabíu.

Landsvæði

Norður og Suður-Ameríka

Áttunda árið í röð voru Bandaríkin eina landið sem tók fólk af lífi í Ameríku og voru 20 teknir þar af lífi árið 2016 (átta færri en árið 2015). Þetta er minnsti fjöldi aftakna sem skráður hefur verið frá árinu 1991. Umfangið aftakna er helmingi minna en árið 2007 og þriðjungur af þeim fjölda aftakna sem fram fóru árið 1997.

Fjöldi dauðadóma minnkaði einnig í Bandaríkjunum og fór frá 52 árið 2015 í 32 árið 2016 (38% minnkun). Þetta er minnsti fjöldi dauðadóma í Bandaríkjunum frá árinu 1973.

Aðeins þrjú önnur lönd á landsvæðinu, Barbados, Gínea og Trínidad og Tóbagó felldu dauðadóma árið 2016. Tvö karabísk lönd – Antígva og Barbúda og Bahamaeyju  – milduðu síðustu dauðadómana.

Asíu- og Kyrrahafsríkin

Að minnsta kosti 130 aftökur áttu sér stað í ellefu löndum árið 2016 en árið 2015 fóru a.m.k. 367 aftökur fram í 12 ríkjum. Þetta skýrist einkum af fækkun aftakna um 239 (73%) í Pakistan. Tölfræðin fyrir Asíu- og Kyrrahafsríkin inniheldur ekki fjölda aftakna í Kína þar sem aftökur teljast enn til þúsunda. Raunverulegt umfang á beitingu dauðarefsingarinnar í Kína er óþekkt þar sem slíkar upplýsingar teljast ríkisleyndarmál.

Nýjar rannsóknir á aftökum í Kína, Malasíu og Víetnam sýna hversu langt stjórnvöld í þessu ríkjum ganga til að leyna upplýsingum um beitingu dauðarefsingarinnar. Vegna þrýstings frá þinginu opinberuðu stjórnvöld í Malasíu að níu manns hefðu verið teknir af lífi árið 2016 og að þann 30. apríl 2016 væru 1.042 einstaklingar á dauðadeild. Ný gögn sýna að Víetnam er meðal ríkja sem taka flesta af lífi á heimsvísu. Samkvæmt skýrslu frá öryggismálaráðuneyti Víetnam sem gerð var opinber í febrúar 2017 voru 429 fangar teknir af lífi frá 6. ágúst 2013 til 30. júní 2016. Einungis Kína og Íran tóku fleiri af lífi á tímabilinu.

Að minnsta kosti 1.224 nýir dauðadómar voru felldir í 18 löndum vítt og breitt um landsvæðið sem er mikil aukning frá árinu 2015 þegar 661 dauðadómar voru felldir (85% aukning). Þetta tengist aukningu dauðadóma í Bangladess, Indónesíu, Pakistan og Taílandi en í síðastnefnda landinu veittu yfirvöld Amnesty International upplýsingar um 216 nýja dauðadóma árið 2016.

Maldíveyjar og Filippseyjar tóku annars vegar skref í átt að endurupptöku aftakna eftir rúmlega sex áratuga hlé og hins vegar í átt að endurinnleiðingu dauðarefsingarinnar.

Afríka sunnan Sahara

Beiting dauðarefsingarinnar í Afríku sunnan Sahara er á ýmsa vegu. Færri aftökur fóru fram áttu en dauðadómum fjölgaði um 145%. Að minnsta kosti 22 aftökur voru framkvæmdar í fimm löndum í samanburði við 43 aftökur í fjórum löndum árið 2015.

Fjöldi dauðadóma fór úr 443 árið 2015 í a.m.k. 1.086 árið 2016, einkum vegna aukningar í Nígeríu (frá 171 í 527) sem felldi fleiri dauðadóma árið 2016 en nokkuð annað ríki fyrir utan Kína. Hættan á að saklausir einstaklingar séu teknir af lífi er viðvarandi. Helmingur allra dauðarefsingamála í heiminum þar sem sýnt var fram á sakleysi fólks var skráður í Nígeríu (32).

Evrópa og Mið-Asíulönd

Í Evrópu og Mið-Asíulöndum tók Hvíta-Rússland aftur upp aftökur eftir 17 mánaða hlé. Hvíta-Rússland og Kasakstan eru einu tvö löndin á landsvæðinu sem enn beita dauðarefsingunni.

Mið-Austurlönd og Norður-Afríka

Fjöldi skráðra aftakna í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku minnkaði um 28% frá árinu 2015 þegar 1.196 aftökur áttu sér stað en árið 2016 voru þær 856.

Íran eitt og sér var ábyrgt fyrir 66% allra skráðra aftakna á svæðinu. Heildarfjöldi aftaka í Íran minnkaði hins vegar um 42% miðað við árið á undan og fór úr 977 aftökum í 567.

Sádí Arabía tók a.m.k. 154 af lífi og viðhélt því nærri jafn háum fjölda og árið 2015 þegar 158 einstaklingar voru teknir af lífi sem var mesti fjöldi er skráður hefur verið í Sádí Arabíu frá árinu 1995.