20 staðreyndir sem ættu að skipta þig máli

Hér eru 20 staðreyndir sem sýna hvers vegna kyn- og frjósemisréttindi ættu að skipta þig máli

Vegna þess að ungt fólk skiptir þig máli:

1. Það eru rúmlega 1,8 milljarðar ungmenna á aldrinum 10-24 ára í heiminum í dag. Það er stærsta unga kynslóð sögunnar. Næstum 90% af ungu fólki búa í þróunarlöndum. Þar er það oftast meirihluti íbúa.

2. Vandkvæði á meðgöngu og við barnsfæðingar, kynbundið ofbeldi og alnæmi eru meðal meginorsaka dauðsfalla ungs fólks.

3. Samkvæmt könnun UNICEF frá árinu 2001, þar sem 10 af 12 iðnríkjum voru með tiltæk gögn, hafa tveir þriðju ungs fólks stundað kynlíf á táningsaldri.

4. Þrátt fyrir hátt hlutfall unglinga sem stunda kynlíf þá er erfitt fyrir marga unglinga að fá aðgang að kynheilbrigðisþjónustu og -fræðslu. Ástæðan fyrir því eru gloppur í lögum og reglugerðum og auk þess er beitingu og framkvæmd laga ábótavant. Þar að auki spila inn í félagsleg og menningarleg tabú, kynjamismunun og landfræðilegar og fjárhagslegar hindranir.

Vegna þess að aðgengi fólks að upplýsingum, menntun og þjónustu skiptir þig máli:

5. Samkvæmt áætlunum frá Sameinuðu þjóðunum hefur þorri unglinga og ungs fólks ekki aðgang að alhliða kynheilbrigðisþjónustu og kynheilbrigðisfræðslu sem er nauðsynleg til að geta lifað heilbrigðu lífi.

6. Notkun getnaðarvarna er tiltölulega lítil á meðal ungra giftra kvenna á aldrinum 15-24 ára. Í Asíu og Afríku, til dæmis, hafa færri en 25% giftra stúlkna notað getnaðarvarnir.

7. Í ítarlegri rannsókn sem var gerð í fjórum Afríkuríkjum sunnan Sahara kom í ljós að meira en 60% unglinga vissu ekki hvernig ætti að koma í veg fyrir þungun og meira en 1/3 vissi ekki hvar hægt væri að nálgast getnaðarvarnir. Vegna takmarkaðs aðgengis ungmenna að upplýsingum og góðri kynheilbrigðisþjónustu á viðráðanlegu verði er þörfum fyrir getnaðarvarnir ekki mætt.

Vegna þess að það að koma í veg fyrir HIV/AIDS skiptir þig máli:

8. Fólk á aldrinum 15-24 ára er 41% allra nýrra HIV-smitaðra í aldursflokknum 15-49 ára. Nærri 3000 ungmenni smitast af HIV á hverjum degi en einungis 34% ungs fólks í þróunarlöndum (24% af ungum konum og 36% af ungum mönnum) geta svarað rétt fimm grunnspurningum um HIV og hvernig megi koma í veg fyrir smit. Það er langt undir alþjóðamarkmiðum um 95% hlutfall árið 2010.

9. Ungar konur eru í meiri hættu á að smitast af HIV heldur en ungir karlar: á heimsvísu eru næstum tvöfalt fleiri ungar konur HIV-smitaðar. Í Afríkulöndum sunnan Sahara eru ungar konur 71% af öllum þeim ungmennum sem eru HIV-smituð.

Vegna þess að barnahjónabönd skipta þig máli:

10. Barnahjónabönd eru enn útbreidd, sérstaklega í fátækustu þróunarríkjunum, þar sem 30% stúlkna á aldrinum 15-19 ára eru gift. Ef þessi þróun heldur áfram munu 124 milljónir stúlkna giftast á barnsaldri á næsta áratug.

11. Víða um heim eru stúlkur mun líklegri en drengir til að giftast á barnsaldri og byrja að stunda kynlíf á unga aldri.

12. Vegna barnahjónabanda, óöruggs kynlífs og ónógrar mæðraverndar á meðgöngu er mæðradauði 28% algengari á meðal unglingsstúlkna heldur en þeirra sem eru á aldrinum 20-24 ára. Flestar unglingsstúlkur, hvort sem þær eru giftar eða ógiftar, fæða börn án nægilegra upplýsinga, heilbrigðisþjónustu eða stuðnings.

Vegna þess að kynferðisofbeldi skiptir þig máli:Staðreyndir

13. Unglingsstúlkur og ungar konur um allan heim og í öllum þjóðfélagsstéttum búa við ógn um kynferðislegt ofbeldi og misnotkun, þar á meðal af hendi ættingja og maka. Um það bil 150 milljónir stúlkna undir 18 ára aldri hafa upplifað einhvers konar kynferðisofbeldi. Allt að 50% allra kynferðisbrota eru framin gegn stúlkum undir 16 ára aldri.

14. Áætlað er að önnur hver stúlka í Karíbahafslöndum sé neydd til fyrstu kynlífsreynslu. Einnig verður hátt hlutfall kvenna í Mið-Ameríku fyrir ofbeldi. Hlutfall stúlkna sem upplifa fyrstu kynlífsreynslu án samþykkis, var einna lægst í Aserbaídsjan þar sem hlutfallið var 2% en hæst í Austur-Kongó þar sem hlutfallið var 64%.

15. Yfirgnæfandi meirihluti stúlkna sem verða ófrískar í kjölfar nauðgunar eða sifjaspella í Níkaragva er á aldrinum 10 til 14 ára. Lög sem tóku gildi árið 2008 gerðu fóstureyðingar ólögmætar með öllu, líka fyrir þolendur nauðgunar og sifjaspella. Samkvæmt þessum lögum þurfa þolendur nauðgana að ganga fulla meðgöngu eða leita eftir lífshættulegri, ólöglegri fóstureyðingu og eiga á hættu að lenda í fangelsi ef upp kemst. Lögin neita þessum stúlkum um mannréttindi og setja heilsu þeirra og líf í hættu vegna lífshættulegra og leynilegra fóstureyðinga eða vegna meðgöngu og barnsfæðinga á unga aldri.

16. Rannsókn í Afríku sunnan Sahara leiddi í ljós að ofbeldi maka og ótti við misþyrmingar hindraði stúlkur í að neita kynmökum og nota smokk.

17. Milli 100 og 140 milljónir kvenna og stúlkna í Afríku hafa þurft að þola limlestingu á kynfærum. Jafnvel þótt hlutfall stúlkna sem sæta limlestingu á kynfærum fari lækkandi í sumum löndum þá eru enn yfir 3 milljónir stúlkna um allan heim sem eiga á hættu að þurfa að gangast undir aðgerðina á ári hverju.

18. Þunganir unglingsstúlkna eru oftast ótímabærar og því er hlutfall óöruggra fóstureyðinga hjá ungum stúlkum hátt, sérstaklega í Afríkuríkjum sunnan Sahara þar sem ein af hverjum fjórum stúlkum á aldrinum 15-19 ára hefur gengist undir slíka fóstureyðingu.

19. Unglingsstúlkur og ungar konur eiga á hættu að verða fyrir alvarlegum skaða eða láta lífið vegna óöruggra fóstureyðinga. Árið 2008 er áætlað að gerðar hafi verið um 3 milljónir óöruggra fóstureyðinga á meðal stúlkna á aldrinum 15-19 ára. Meira en 90% af mæðradauða eiga sér stað í þróunarlöndunum.

Vegna þess að öll mannréttindi skipta þig máli:

20. Allir eiga rétt á að njóta kyn- og frjósemisréttinda. Ríkisstjórnir hafa skyldum að gegna til að tryggja að allir geti notið þessara réttinda án ótta, þvingunar eða mismununar!

Allir eiga rétt á að:

• Taka ákvarðanir um eigin heilsu

• Biðja um og fá upplýsingar um heilbrigðisþjónustu

• Ákveða hvort eða hvenær þeir eignast börn

• Ákveða hvort eða hvenær þeir giftast

• Hafa aðgang að fjölskylduráðgjöf, getnaðarvörnum, löglegri fóstureyðingu og mæðravernd ásamt annarri heilbrigðisþjónustu

• Lifa frjálsir án ótta við nauðgun eða annað ofbeldi 

Aðgerðaáætlun sem gerð var á alþjóðaráðstefnu um mannfjölda og þróun útlistar  eftirfarandi grunnmannréttindi (byggð á gögnum um alþjóðleg mannréttindi og öðrum samþykktum):

• Allir eiga rétt til lífs, frelsis og mannhelgi (1. grein)

• Hornsteinn allra áætlana sem tengjast mannfjölda- og þróunarmálum er að stuðla að jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna ásamt því að útrýma öllu ofbeldi gegn konum (4. grein)

• Allir eiga rétt á að njóta bestu mögulegrar heilsu, jafnt líkamlega sem andlega. Pör og einstaklingar eiga rétt á að ákveða að vild og af ábyrgð fjölda og bil milli barna sinna og hafa aðgang að upplýsingum, fræðslu og leiðum til þess að ná því (8. grein)

• Allir eiga rétt á menntun. Menntun skal auka virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsi (10. grein)

• Öll börn eiga rétt á mannsæmandi lífskjörum, heilsu og menntun og að vera frjáls undan vanrækslu, þrælkun eða misnotkun (11. grein)