Minn líkami, mín réttindi

Fyrir mörg okkar er frelsi til að velja hvað við gerum við líkama okkar og líf sjálfsögð mannréttindi. Við veljum hvern við elskum, hvernig við tjáum þá ást og hvort og hvenær við viljum eignast börn. Þessar ákvarðanir tökum við frjálst, án afskipta stjórnvalda, foreldra eða samfélagsins. Frelsi sem þetta er okkur nauðsynlegt til að geta lifað með reisn og notið líkamlegrar, andlegrar, tilfinningalegrar og félagslegrar velferðar. Víða um heim eru þó margir sviptir þessu frelsi eða sæta refsingu fyrir að nýta sér það. 

Í Úganda eiga samkynhneigðir nú á hættu að sæta lífstíðarfangavist  vegna kynhneigðar sinnar og þeir sem styðja réttindabaráttu hinsegin fólks í landinu eða ljóstra því ekki upp hvar samkynhneigðir halda sig, eiga jafnframt á hættu að sæta refsingu. 

Í Búrkína Fasó er konum ekki gefin getnaðarvörn nema með samþykki maka eða foreldra. 

Í Alsír og Túnis neyðast fórnarlömb nauðgana oft til að giftast kvalara sínum því lögin í umræddum löndum kveða á um að kynferðisbrotamaður geti sloppið undan refsingu með því að giftast þolandanum. 

Amina Filali frá Marokkó er eitt af mörgum fórnarlömbum þessara laga. Hún var neydd til að giftast nauðgara sínum á unga aldri. Angist Aminu var svo mikil að hún ákvað að svipta sig lífi með því að gleypa rottueitur. Hún var aðeins 16 ára gömul. 

Í stað þess að ríkið verndi þolendur kynferðisofbeldis og veiti þeim stuðning er þeim refsað miskunnarlaust. Vandinn byggist ennfremur á rótgrónum viðhorfum samfélagsins til hlutverka og virðis kvenna. Þær sem eru óspjallaðar þykja álitlegri kvenkostur og í þessu samhengi snýst nauðgun því um virði konunnar eða stúlkunnar. 
 
Saga Aminu minnir á sögu annarrar ungrar stúlku frá Túnis sem fór á fund lögreglu til að kæra nauðgun sem hún sætti af hálfu tveggja lögreglumanna. Í stað þess að lögreglan tæki mál hennar til meðferðar var stúlkan sjálf ákærð fyrir ósiðsemi.

Bann við fóstureyðingum þegar um nauðgun er að ræða!

Á Írlandi er fóstureyðing ólögleg þótt um sé að ræða nauðgun eða sifjaspell og þá og því aðeins leyfileg ef raunveruleg og mikil hætta er á að kona eða stúlka láti lífið á meðgöngu. Ekki er tekið tillit til þess þegar heilsa konu eða stúlku er í húfi á meðgöngu. 

Bann við fóstureyðingum á Írlandi á sér langa sögu. Samkvæmt gömlum lögum frá árinu 1861 var hægt að lögsækja bæði lækni og sjúkling fyrir morð ef fóstureyðing reyndist ekki hafa verið lífsnauðsynleg og gátu viðkomandi átt lífstíðarfangelsi yfir höfði sér.  Þetta breyttist ekki fyrr en árið 1992 eftir úrskurð hæstaréttar Írlands í umdeildu máli 14 ára unglingsstúlku sem var ólétt eftir nauðgun af vini fjölskyldunnar. Þar heimilaði dómstóllinn stúlkunni sem nefnd var X, að ferðast til Englands í því skyni að fara í fóstureyðingu en hætta var talin á því að hún myndi ella fremja sjálfsmorð. Í framhaldinu var samþykkt að konur í mikilli lífshættu eða í sjálfsvígshættu ættu að fá að fara í fóstureyðingu á Írlandi í stað þess að þurfa að ferðast til Englands eða lengra. Í rétt rúm 20 ár var þó „raunveruleg og mikil hætta“ ekki skýrt skilgreind í írskum lögum. Það var ekki fyrr en hin indversk ættaða Savita Halappanavar lét lífið á meðgöngu árið 2013 að stjórnvöld gerðu tilraun til lagfæringa með því að innleiða ný lög sama ár. Savita var komin 17 vikur á leið þegar hún var send á spítala vegna alvarlegra veikinda. Þegar henni var sagt að fóstrið myndi ekki lifa af bað hún um fóstureyðingu. Henni var neitað um slíkt vegna þess að ekki var skýrt í lögunum hvernig greina ætti á milli heilsbrests á meðgöngu og „raunverulegrar og mikil lífshættu“ og læknar óttuðust að sæta lögsókn eða fangavist hefðu þeir gripið inn í. Tveimur dögum seinna lést hún úr blóðeitrun.

Lögin neyða að minnsta kosti fjögur þúsund þungaðar konur og stúlkur á ári til að ferðast utan Írlands til að leita sér fóstureyðingar með tilheyrandi andlegum og fjárhagslegum kostnaði. Konur og stúlkur sem ekki geta ferðast erlendis fá ekki aðgang að nauðsynlegri læknisþjónustu á Írlandi eða þurfa að hætta á hegningu leiti þær sér ólöglegrar fóstureyðingar heima fyrir. Konur geta átt yfir höfði sér allt að fjórtán ára fangelsisdóm sæki þær fóstureyðingu á Írlandi og heilbrigðissstarfsfólk sem aðstoðar konur í þessum tilgangi er undir sömu sökina selt. 

Refsivæðing fóstureyðinga stangast á við alþjóðleg mannréttindi. 

 

Beatriz mótmæli

Í El Salvador er ástandið enn verra þar sem skilyrðislaust bann er lagt við fóstureyðingum í öllum tilvikum. Beatriz, 22 ára gömul kona frá El Salvador, glímdi við mjög áhættusama meðgöngu sem hefði getað leitt til dauða ef hún gengi með barnið alla meðgönguna. Henni var synjað um fóstureyðingu þrátt fyrir að hafa biðlað til heilbrigðisstarfsfólks í meira en mánuð. Amnesty-félagar um allan heim þrýstu á stjórnvöld í El Salvador um að bjarga lífi Beatriz og að lokum var leyfi gefið fyrir snemmbúnum keisaraskurði sem bjargaði lífi hennar. 


Allt eru þetta brot á alþjóðlega viðurkenndum mannréttindum sem kallast kyn- og frjósemisréttindi en milljónir sæta slíkum brotum á degi hverjum. Þess vegna mun Amnesty International ýta úr vör herferðinni Líkami minn, réttindi mín, sem beinir sjónum að kyn - og frjósemisréttindum okkar. 

Heyrir undir öll mannréttindi!

Um 1,8 milljarðar ungs fólks búa við þá ógn að kyn- og frjósemisréttindi þeirra verði hunsuð, þrátt fyrir loforð ríkja Sameinuðu þjóðanna um að vernda, virða og uppfylla þessi réttindi. Loforðin voru skjalfest í Kaíró-aðgerðaáætluninni fyrir 20 árum, á alþjóðlegri ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um mannfjölda og þróun.
Í apríl 2014 koma leiðtogar heimsins saman á sömu ráðstefnu til að ræða hvað hefur áunnist síðan Kaíró-aðgerðaáætlunin var samþykkt.
Hætta er á að ríki Sameinuðu þjóðanna standi ekki við stóru orðin þar sem þrýstingur ýmissa íhaldssamra ríkisstjórna og trúarhópa er mikill um að útvatna kyn- og frjósemisréttindi.     

Öll eigum við rétt á að taka ákvarðanir er lúta að líkama okkar og heilsu, kynvitund, kynferði, kynhneigð og frjósemi, án ótta, mismununar eða þvingana. En um heim allan er fólki refsað – af ríkisvaldinu, heilbrigðisstarfsfólki og/eða eigin fjölskyldu – fyrir að taka slíkar ákvarðanir eða því er varnað þess að taka þær yfirhöfuð. Auk þess skortir margt ungt fólk aðgengi að upplýsingum, kynfræðslu og heilbrigðisþjónustu er varðar kyn- og frjósemisréttindi til að það geti notið öryggis og heilbrigðis. Réttindin ná til allra borgaralegra, stjórnmálalegra, félagslegra, efnahagslegra og menningarlegra réttinda. Næstu tvö árin mun Amnesty International taka fyrir mál í fimm löndum og landsvæðum þar sem brotin eru kyn- og frjósemisréttindi, þ.e. í Nepal, El Salvador, Búrkína Fasó, í Norðvestur-Afríku og á Írlandi.