• Beatriz mótmæli

El Salvador

Blátt bann er við fóstureyðingum í El Salvador, óháð því hvort líf eða heilsa konunnar er í hættu eða þungunin afleiðing nauðgunar eða sifjaspella. Það er því refsivert í öllum tilvikum að leita eftir fóstureyðingu. Flestar konur sem hafa verið sóttar til saka hafa verið á aldrinum 18-25 ára. Þessi hörðu lög eru miskunnarlaus og eru í raun eitt form ríkisofbeldis. Einungis örfá lönd í heiminum, þeirra á meðal Síle, Dóminíska lýðveldið og Malta, hafa svo stranga löggjöf um fóstureyðingar. Ofbeldi gegn konum er einnig útbreitt vandamál í El Salvador og eru morð á konum algeng. Flest fórnarlömbin eru á aldrinum 18-30 ára. Ný löggjöf gegn ofbeldi á konum tók gildi árið 2012 en sum ákvæðin hafa ekki enn tekið gildi eða verið hrint í framkvæmd og það gerir konur berskjaldaðar fyrir ofbeldi.

Saga Beatriz

Beatriz var heilsulítil og þjáðist meðal annars af rauðum úlfum og  nýrnavandamálum þegar hún varð ófrísk 22 ára. Læknar sögðu henni að ef hún héldi áfram meðgöngunni þá gæti það leitt hana til dauða. Vitað var að það vantaði stóran hluta af heila og höfuðkúpu fóstursins og það myndi ekki lifa nema í mesta lagi nokkra klukkutíma eftir fæðingu. Þar sem blátt bann liggur við fóstureyðingum í landinu, án undantekninga, óttuðust læknar að verða sóttir til saka ef þeir framkvæmdu fóstureyðingu og töldu sig því ekki geta aðhafst neitt. Í meira en tvo mánuði barðist Beatriz fyrir því að fá þá læknismeðferð sem hún þurfti til að halda lífi og í júní 2013 fékk hún að lokum að fara í snemmbúinn keisaraskurð. 

Hún sagði af því tilefni: 

Ég vona að tilfelli mitt þjóni sem fordæmi svo aðrar konur þurfi ekki að ganga í gegnum það sama og ég.

Hún hefur höfðað skaðabótamál gegn ríkinu fyrir brot á mannréttindum.