• Savita Írland

Írland

Fóstureyðing er með öllu ólögleg á Írlandi nema í þeim tilvikum þar sem raunveruleg og mikil hætta er á að meðganga stofni lífi stúlku eða konu í hættu. Ekki er tekið tillit til þess hvort meðganga stofnar heilsu þeirra í hættu. Áður var blátt bann við öllum fóstureyðingum en það breyttist árið 1992 eftir úrskurð hæstaréttar Írlands í umdeildu máli 14 ára unglingsstúlku sem var ólétt eftir nauðgun og var í sjálfsvígshættu. 

Í rétt rúm 20 ár var „raunveruleg og mikil hætta“ ekki skilgreind í lögum. Það setti konur í þrönga stöðu og stofnaði lífi þeirra í hættu. Það var ekki fyrr en Savita Halappanavar dó vegna óskýrleika laganna að þetta var lagfært með nýrri lagasetningu sem skilgreindi muninn á lífshættu og hættu fyrir heilsu kvenna til þess að geta fengið fóstureyðingu.

Það er enn ólöglegt fyrir konur að fara í fóstureyðingu eftir nauðgun eða sifjaspell, þótt heilsa þeirra sé í hættu eða fóstur sé ekki lífvænlegt vegna alvarlegs galla. Konur eiga á hættu að vera dæmdar í 14 ára fangelsi ef þær fara í ólöglega fóstureyðingu.

Aðeins einar 12 konur hafa farið til Bretlands frá Írlandi í fóstureyðingu á árunum 1980-2012.

Saga Savitu Halappanavar

Í október 2012 fór Savita á sjúkrahús vegna hættu á fósturmissi og bað hún, ásamt  manni sínum, um fóstureyðingu. Því var hafnað, þrátt fyrir að vitað væri að fóstrið myndi ekki lifa af. Í kjölfarið fékk hún blóðeitrun og dó nokkrum dögum síðar.

Samkvæmt gildandi lögum þegar þetta gerðist mátti aðeins gera fóstureyðingu ef móðir væri í raunverulegri og mikilli lífshættu, en lögfræðilega skilgreiningu vantaði á því hvað það í raun þýddi. Í fyrstu var aðeins talið að heilsa Savitu væri í hættu. Því virðist sem skortur á skýrleika laganna hafi átt þátt í dauða hennar. Dauði Savitu varð til þess að draga fram í dagsljósið óvissu heilbrigðisstarfsfólks um það hvenær fóstureyðing er lögleg. Mál hennar varð til þess að í júlí 2013 voru sett lög um fóstureyðingar.