Fóstureyðingarbann gerir konur að útungunarvélum

.


Þungaðar konur stofna lífi sínu og heilsu í hættu haldi þær til á Írlandi, samkvæmt nýrri skýrslu Amnesty International sem kom út þann 9. júní 2015, um fóstureyðingarlög í landinu. Skýrslan sem ber heitið, Hún er ekki glæpamaður: áhrif laga um fóstureyðingar á Írlandi greinir frá átakanlegum tilfellum þar sem írsk yfirvöld neita þunguðum konum og stúlkum um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu á þeim forsendum að líf fóstursins hafi forgang. Samkvæmt lagabreytingum á stjórnarskrá Írlands sem gerð var árið 1983 er líf fósturs jafnrétthátt lífi móður.

Löggjöf um fóstureyðingu á Írlandi er ein sú strangasta í heimi þar sem fóstureyðing er aðeins leyfð þegar líf konu eða stúlku er í mikilli hættu. Lögin neyða að minnsta kosti fjögur þúsund þungaðar konur og stúlkur á ári til að ferðast utan Írlands til að leita sér fóstureyðingar með tilheyrandi andlegum og fjárhagslegum kostnaði. Konur og stúlkur sem ekki geta ferðast erlendis fá ekki aðgang að nauðsynlegri læknisþjónustu á Írlandi eða þurfa að hætta á hegningu leiti þær sér ólöglegrar fóstureyðingar heima fyrir. Konur geta átt yfir höfði sér allt að fjórtán ára fangelsisdóm sæki þær fóstureyðingu á Írlandi og heilbrigðissstarfsfólk sem aðstoðar konur í þessum tilgangi er undir sömu sökina selt.

„Írska þjóðin samþykkti nýverið að lögleiða hjónabönd samkynhneigðra og státaði sig í framhaldinu af því að vera frjálslynt og opið samfélag en ekki er allt með felldu í írska lýðveldinu. Mannréttindi kvenna og stúlkna eru þverbrotin á degi hverjum vegna þess að stjórnarskráin gerir konur að útungunarvélum,“ segir framkvæmdastjóri Amnesty International Salil Shetty. „Konur og stúlkur sem þurfa á fóstureyðingu að halda eru meðhöndlaðar eins og glæpamenn, útskúfaðar og neyddar til að koma sér úr landi sem tekur gríðarlegan toll af andlegri og líkamlegri heilsu þeirra. Írska ríkið getur ekki lengur hunsað þennan veruleika og þær skelfilegu afleiðingar sem hann hefur á þúsundir einstaklinga á hverju ári.

„Óttast um líf mitt“

Í skýrslunni er að finna vitnisburð írskra kvenna sem hafa gengist undir fóstureyðingu á erlendri grundu. Sumar höfðu misst fóstur en voru tilneyddar að ganga með lífvana eða ólífvænt fóstur í nokkrar vikur í þeirri veiku von að þær gætu fengið þá heilbrigðisþjónustu sem þær þurftu á að halda á Írlandi. Róisín var þvinguð til að ganga með lífvana fóstur í nokkrar vikur af því að læknar vildu ganga úr skugga um að engin merki um hjartslátt greindust í fóstrinu. Hún sagði eftirfarandi við Amnesty International: „Ég myndi ekki treysta heilbrigðisþjónustu fyrir konur í þessu landi, á þessum tímapunkti.“

Lupe, sem bar undir belti lífvana fóstur í 14 vikur sagði Amnesty International að hún hafi þurft að ferðast til Spánar, á heimaslóðir sínar, til að fá viðhlítandi læknisþjónustu: „Mér fannst ég alls ekki örugg... ég var virkilega óttaslegin því mér varð ljóst að ef eitthver vandkvæði kæmu upp, myndi þetta fólk láta mig deyja.“

Konur sem leita sér fóstureyðingar eru ekki þær einu sem neitað er um heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðisstarfsfólk neitaði Rebeccu H. sem var alvarlega veik, um keisaraskurð vegna ótta við að slíkt myndi skaða fóstrið. Hún var neydd til að ganga í gegnum 36 klukkustunda fæðingu á þeim forsendum að „það væri hlutverk heilbrigðisstarfsfólks að huga að barninu – barnið kæmið fyrst“. Hún sagðist óttast um líf sitt ef hún eignaðist annað barn á Írlandi.

Dr. Peter Boylan, fæðingarlæknir, kvensjúkdómlæknir og fyrrum framkvæmdastjóri írska fæðingarspítalans greindi Amnesty International frá þeim siðferðislega og lagalega línudansi sem heilbrigðisstarfsfólk er neytt til að fylgja: „Samkvæmt núverandi lögum verðum við að bíða þar til þunguð kona er orðin nægilega veik til að við getum gripið inn í. Hversu nærri dauðanum þarftu að vera? Það er ekkert svar við þeirri spurningu.“

Ein ströngustu fóstureyðingarlög í heimi

Írland, Andorra, Malta og San Marino og eru einu löndin í Evrópu sem banna konum að leita sér fóstureyðingar, jafnvel þegar um nauðgun er að ræða, alvarlega fósturgalla eða þungun stefnir heilsu þeirra í hættu.

Amnesty International hleypti nýrri herferð úr vör í dag þar sem skorað er á írsk stjórnvöld að breyta löggjöf sinni á þann veg að konur geti sótt sér fóstureyðingu þegar þungun er afleiðing nauðgunar eða sifjaspells, þegar heilsu þeirra er stefnt í hættu eða þegar fóstrið er ekki lífvænlegt eða fósturgallar alvarlegir. Íslandsdeild Amnesty International mun taka þátt í þessarri herferð og safna undirskriftum til írskra stjórnvalda á næstunni á X.

Samkvæmt írskri löggjöf er það refsivert fyrir lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk að veita konum og stúlkum ítarlegar upplýsingar um þá meðferð sem þær þurfa á að halda og hvernig þær geta fengið örugga fóstureyðingu. Í skýrslunni greinir heilbrigðisstarfsfólk Amnesty International frá vonbrigðum sínum vegna hamlandi laga í landinu um upplýsingagjöf.

„Harðneskjuleg lög á Írlandi hafa skapað andrúmsloft ótta þar sem heilbrigðisstarfsfólk getur sætt hárri sekt fyrir það eitt að upplýsa konur og stúlkur um hvernig best sé að leita sér læknisaðstoðar. Afleiðingin er sú að margar konur á Írlandi forðast með öllu að leita eftir læknisþjónustu,“ segir Colm O´Gorman, framkvæmdastjóri Amnesty International á Írlandi.

„Írsk stjórnvöld líta framhjá því þegar konur og stúlkur ferðast á erlenda grund til að leita sér fóstureyðingar og eru skeytingarlaus gagnvart þeim þjáningum sem fylgja. Stjórnvöld dæma oft hina veiku, fátæku og varnarlausu, sem ekki eiga kost á að ferðast erlendis, til að fremja glæp samkvæmt írskum lögum, fyrir það eitt að taka ákvarðanir um eigin líkama, ákvarðanir sem oft snúast um líf og dauða. Írland verður að breyta stjórnarskránni og fella úr gildi ákvæði þess sem verndar fóstrið. Þetta verður að gerast hið bráðasta þar sem núverandi löggjöf stefnir lífi kvenna og stúlkna í hættu á degi hverjum.“