Staðreyndir og tölur

Framkvæmdastjóri Amnesty International Salil Shetty.


177.000  - konur og stúlkur hafa ferðast frá Írlandi til Englands og Wales í fóstureyðingu frá árinu 1971. Árið 2013, fóru a.m.k. 3679 konur og stúlkur frá Írlandi til annarra landa í fóstureyðingu.

4,000 Evrur – Eða um 600.000 krónur er sektin sem heilbrigðisstarfsfólk getur átt yfir höfði sér fyrir að vísa konu í fóstureyðingu eða gefa ítarlegar upplýsingar um aðgerðina.

1,000-1,500 Evrur – eða um 150.000-225.000 krónur er áætlaður kostnaður við að fara úr landi til að leita sér fóstureyðingar.

43 – er fjöldi Evrópulanda sem leyfa fóstureyðingar eftir beiðni eða á grundvelli víðtækra félagslegra og efnahagslegra aðstæðna - öll Evrópulönd nema fimm þ.e. Írland, Andorra, Malta, Pólland og San Marínó.

24 – er fjöldi daga sem heilbrigðisstarfsfólk hélt heiladauðri ófrískri konu í öndunarvél gegn óskum fjölskyldu hennar í desember 2014 þar sem hjartsláttur greindist í fóstrinu.

14 ár – í fangelsi vofir yfir þeim sem fara í ólöglega fóstureyðingu á Írlandi eða aðstoða einhvern til þess.


„Þetta fólk var tilbúið að láta mig deyja, rétt eins og þau gerðu við Savitu“

Lítið hefur breyst hin síðari ár þrátt fyrir að dauði Savitu Halappanavar á háskólasjúkrahúsinu Galway hafi misboðið almenningi árið 2012. Hún lést af völdum sýkingar þegar heilbrigðisstarfsfólk neitaði henni um fóstureyðingu á þeim forsendum að fóstrið hefði enn hjartslátt.

Önnur kona, Lupe, sagði Amnesty International að starfsfólk á sama sjúkrahúsi hefði neitað henni um fóstureyðingu þrátt fyrir að hún hafi komið þangað með miklar blæðingar, nokkrum mánuðum eftir lát Savitu. Hún varð að fara til Spánar á heimaslóðir sínar til að fá fóstureyðingu. Lupe sagði að fóstrið hafði ekki sýnt nein lífsmerki en læknar sögðu að þeir gætu ekki gert neitt.

„Við gátum séð fósturvísinn fullkomlega. Þetta var agnarsmár 3 mm fósturvísir, dáinn, ég var miður mín. Vöxtur fósturvísisins hafði stöðvast á fjórðu eða fimmtu viku. Það þýðir að ég gekk með lífvana fóstur í móðurkviði í rúmlega tvo mánuði. Á þessum tíma var ég mjög óttaslegin þar sem mér var ljóst að ef einhver vandkvæði yrðu þá myndi þetta fólk láta mig deyja, rétt eins og það gerði við Savitu.“

Í desember 2014, sagði heilbrigðisstarfsfólk að lögin skylduðu það til að halda heiladauðri konu í öndunarvél, gegn óskum fjölskyldu hennar, þar til 15 vikna fóstrið myndi verða lífvænlegt. Læknar sögðu Amnesty International frá skapraunum sínum vegna óljósra fóstureyðingarlaga sem leyfa fóstureyðingu ef líf konu er í hættu en ekki ef heilsu hennar er ógnað. Þeir sögðu að lögin neyði þá til að ganga á fínni lagalegri og siðferðislegri línu til að ákvarða hvenær hættan á heilsubresti er nógu mikil til að leyfa inngrip án þess að eiga á hættu ákæru eða að missa starfsleyfið. Einn írskur læknir, Peadar O‘Grady útskýrði hversu erfitt það er að draga þessa línu:

„Ef þú ert í sporum Savitu þá þarftu annaðhvort að hafa samband við lögfræðing, fjölmiðla eða fara í flugvél. Þú kemur þér í burtu héðan [frá Írlandi]. Konur sem blæðir, þær eru Savita. Það er alltaf hætta á sýkingu þegar það er blæðing, það er það sem kom fyrir Savitu.“

Úr sjónmáli, út úr sögunni!

Konur sögðu Amnesty International frá áfallinu sem fylgdi því að laumast til Bretlands, fjárhagslega álaginu og skömminni sem þær fundu fyrir við heimkomu.

Ava, sagði að hún hefði farið til Englands í fóstureyðingu eftir að hafa fengið úr því skorið í september 2014 að lífslíkur fóstursins væru engar.

„Á meðan þú þarft að takast á við sársaukann og sorgina þarftu að þeytast um til að redda pening, flugi og barnapössun og skipuleggja þig, þegar þetta ætti bara að vera einföld ferð á sjúkrahús. Það allra versta, þegar þú ert að glíma við svo mikinn sársauka er að þú verður að skipuleggja þig, því þú veist að sjúkrahúsið gerir ekki neitt fyrir þig.“

Kally, forstöðumaður læknastofu sem býður upp á fóstureyðingar í Liverpool í Bretlandi og tekur oft á móti konum frá Írlandi sagði frá neikvæðum heilsufarlegum afleiðingum  þeirra sem eru í vandræðum að eiga fyrir ferðinni:

„Við höfum fengið konur sem hafa ferðast og þær voru of langt komnar á meðgöngu þannig að við gátum ekki meðhöndlað þær vegna þess að þær höfðu beðið til að safna peningi fyrir aðgerðinni.“

.


Lögin gera þær sem geta ekki ferðast að glæpamönnum.

Konur og stúlkur sem geta ekki ferðast eru í mestri hættu, þær sem eru fátækar, hælisleitendur án pappíra, þær sem búa á afskekktum stöðum eða þær sem eru einfaldlega ekki í líkamlegu ástandi til að ferðast.

Hin harðneskjulega hlið laganna á Írlandi sýndi sig enn á ný árið 2014 í „máli Y“ þegar læknar þvinguðu unga stúlku, sem var hælisleitandi og í sjálfsvígshugleiðingum, þunguð eftir nauðgun, til að halda áfram meðgöngu og fæða með keisaraskurði.

Hún var þunguð eftir að henni var rænt, haldið gegn vilja hennar, barin og nauðgað ítrekað af forystumanni vopnaðs hóps í landi hennar. Eftir að hún komi til Írlands í leit að hæli komst hún að því að hún væri þunguð. Hún reyndi að fara til Bretlands í fóstureyðingu en var neitað um inngöngu. Ósnortin af ítrekuðum hótunum hennar um sjálfsvíg og hungurverkfalli hennar fyrir fæðingu, neyddu heilbrigðisyfirvöld hana til að halda áfram meðgöngu þar til barnið var lífvænlegt og þá tekið með keisaraskurði.

Árið 2009, var Nicola gengin 19 vikur á annarri meðgöngu sinni þegar hún fékk þær fréttir að fóstrið hefði fósturgalla og lífslíkur væru engar en heilbrigðisstarfsfólk sagði henni að ekki væri hægt að koma af stað fæðingu. 

Þar sem hún hafði ekki efni á því að fara úr landi til að fá fóstureyðingu þurfti Nicola að fara á sjúkrahús í hverri viku í sónarskoðun og fékk aðeins meðferð nokkrum vikum síðar þegar heilbrigðisstarfsfólk staðfesti að fóstrið hefði látist.

„Flestar konur fara í sónarskoðun til að ganga úr skugga um barnið sé á lífi. Ég fór í sónarskoðun til að sjá hvort barnið hefði dáið.“

Eftir að fæðing var sett af stað fékk Nicola sýkingu vegna fastrar fylgju sem leiddi til frekari sjúkrahúsvistar og aðhlynningar.

„Ég myndi óttast um líf mitt ef ég eignaðist annað barn á Írlandi“

 Á meðgöngu þjáðist Rebeccu H. af hyperemesis gravidarum, ástandi sem lýsir sér í stöðugum flökurleika, miklum uppköstum og uppþornun. Á 14. viku gat hún ekki lengur séð um sig sjálf og flutti til fjölskyldu sinnar. Hún segist hafa beðið um andlegan stuðning til að hjálpa henni að þrauka en fékk ekki. Hún sagði við Amnesty International:

„Ég virkilega trúði því að ég væri að deyja og ég vildi það...Ég gat ekki lifað enn einn daginn í þessu helvíti, á 36.viku eyddi ég flestum dögum í sjúkrahúsrúmi mínu með kreppta hnefa og augun vel lokuð þar sem ég bað heiminn um að hætta að snúast, flökurleikinn var svo lamandi að hann var verri en stöðugu uppköstin. Ég gat varla gengið út að enda gangsins flesta dagana.“

 Þrátt fyrir að aðhlynningarteymi hennar sögðu henni að hún gæti fætt fyrr þá var henni ítrekað neitað um það:

„Þau lugu að mér hvenær fæðing yrði sett af stað, fyrst var sagt næsta þriðjudag og síðan næsta fimmtudag, síðan voru athugasemdir: „en þú segist elska barn þitt, en þú getur ekki elskað barnið þitt ef þú vilt fæða það snemma. Þú ert að setja líf barns þíns í hættu.“ Og fleiri í þessum dúr. Þetta var algjörlega galið. Þau sögðu að þau myndu framkalla fæðingu á 35. viku, síðan 36. viku og síðan 37. viku og síðan 38. viku, það var alltaf í næstu viku.“

Starfsfólk sjúkrahússins neitaði beiðni hennar um að vera útskrifuð og fara heim:

„Ég sagði þeim að leyfa mér að fara heim, ef þið viljið ekki hjálpa mér þá finn ég aðra leið. Og þá sögðu þau: „en þú getur ekki fengið að fara neitt.“ Það er hlutverk okkar að hugsa um barnið, barnið er í fyrsta sæti.“ Ég sagði þeim að öryggi þess væri í algjörum forgangi hjá mér en á sama tíma þá væru þetta pyndingar. Algjörar pyndingar.“

Að lokum samþykktu læknar að koma fæðingu af stað hjá Rebeccu á 38. viku. „Þá var byrjað að þrýsta á mig að fæða náttúrulega. Ég var svo þróttlítil og örvingluð að ég bað þá um keisaraskurð en þeir sögðu: „Alls ekki, þú setur líf barnsins þíns í hættu.“ Rebecca tjáði að hún treysti sér líkamlega ekki í að fæða en læknar neituðu beiðni hennar um fyrirfram ákveðinn keisara. Þess í stað var fæðingin sett af stað og hún þvinguð til að þola hríðar í 36 tíma. Að lokum fékk Rebecca bráðakeisara vegna fósturstreitu í fæðingu. Sonur hennar eyddi fyrstu dögunum inn á nýburadeild til að jafna sig.

Rebecca sagði við Amnesty International:

„8. grein stjórnarskrárinnar er misnotuð. Hún er notuð til að koma fram við konur eins og hluti en ekki eins og manneskju. Ég myndi óttast um líf mitt ef ég eignaðist annað barn á Írlandi.“