• Nepal herferð

Nepal

Eitt stærsta heilbrigðisvandamál kvenna í Nepal er legsig. Það þykir feimnismál og því þjást margar konur í hljóði. Yfirleitt er þetta vandamál ríkjandi hjá eldri konum en í Nepal er ástandið útbreitt meðal ungra kvenna. Legsig er auðvelt að lækna en án meðhöndlunar getur það leitt til fósturmissis því grindarbotnsvöðvi nær ekki að halda fóstrinu á sínum stað.

Könnun sem var gerð í Nepal 2006 sýndi að um 600.000 konur þjáðust vegna legsigs og 200.000 þeirra þurftu á aðgerð að halda. Ástæða þess að vandamálið er útbreitt í Nepal er að margar konur byrja að eignast börn mjög ungar, oft með stuttu millibili og fæða án aðstoðar faglærðrar ljósmóður. Vannæring og burður á þungum hlutum á meðgöngu eða skömmu eftir fæðingu eykur einnig líkurnar. 

Ofbeldi gegn konum er algengt, þar á meðal nauðganir í hjónaböndum og það hefur einnig áhrif. Ríkisstjórn landsins hefur viðurkennt að legsig sé heilbrigðisvandamál en lítur framhjá rót vandans, sem er kynjamismunun, þar sem konur hafa ekki ákvörðunarvald yfir eigin líkama og frjósemi.

Saga Kopilu

Kona í NepalKopila giftist manni sínum þegar hún var 17 ára og átti sitt fyrsta barn ári síðar. Hún er úr fátækri fjölskyldu úr sveit og hefur aldrei gengið í skóla. Þrjú af fjórum börnum fæddust heima en eitt fæddist á spítala. Kopila fékk aðeins að hvíla sig í 10-12 daga eftir fæðingu áður en hún þurfti að hefja vinnu á ný. Kopila hefur orðið ófrísk oftar, en eiginmaður hennar ákvað að hún skyldi fara í fóstureyðingu. Ef Kopila líður illa ræður eiginmaður hennar því hvort hún getur farið á heilsugæsluna.

Fjölskyldan á lítinn landskika og Kopila vinnur þar á akrinum og sér um nautgripina, sinnir öllum heimilisverkum og börnunum fjórum. Í fjölskyldu hennar borða börnin fyrst, síðan eiginmaður hennar og að lokum borðar hún.

Á öllum meðgöngum sínum og skömmu eftir fæðingu barna sinna þurfti hún að bera þungar byrðar, m.a. við, gras og kúamykju. Það hafði þær afleiðingar að hún fékk legsig í fyrsta sinn 24 ára gömul. 

Tólf dögum eftir fæðingu var ég að höggva við með exi. Eiginmaður minn bað um vatn og úr varð rifrildi. Hann barði mig fast. Ég veit ekki hvort legsigið kom á meðan ég var að höggva viðinn eða eftir að ég var lamin. Þetta var dagurinn sem ég fann fyrst fyrir þessu vandamáli. Það var fyrir sex árum síðan. Eftir það fór ég að finna fyrir bak- og kviðverkjum, ég gat ekki staðið upprétt, setið eða unnið. Ég finn verki neðarlega í kviðnum og yfirleitt fæ ég bakverki þegar ég vinn mikið.

Kopila segir einnig frá því að eiginmaður hennar þvingi hana til samfara. Ef hún reynir að neita þá er hún lamin.

Eina skiptið sem Kopila gat leitað sér læknisaðstoðar vegna legsigs var stuttu eftir að hún fann fyrst fyrir því. Eiginmaður hennar var fjarverandi og hún bað bróður sinn að fylgja sér til læknis. Læknirinn sagði henni að hvílast en hún gat það ekki þar sem hún hafði mörgum verkum að sinna. Þegar hún fékk legsig í annað sinn þá þorði hún ekki aftur til læknis vegna þess að eiginmaður hennar barði hana illa þegar hann komst að því að hún hefði leitað sér læknisaðstoðar að honum fjarverandi vegna annars kvilla.

Nepal - Tilvitnanir

Sex dögum eftir að fyrsta dóttir mín fæddist var ég að bera hirsi þegar ég fann eins  og eitthvað væri að koma út [úr leggöngunum]. Eiginmaður minn kom fálátlega fram við mig og hótaði mér: „Ég er ekki sáttur við þig, ég ætla að fá mér aðra eiginkonu.

Kesar Kala Malla, 48 ára.


Í fyrstu sagði ég engum frá. En síðan sótti ég fræðslu og fundi [hjá óháðum samtökum]. Ég lærði að ég gæti deilt reynslu minni og sársauka með öðrum konum. Eftir það fór ég að segja frá vandamáli mínu. 

Radha Sada, 50 ára. 


Hún giftist 16 ára og fékk legsig eftir fæðingu fyrsta barns síns. Skömmin vegna ástandsins og skortur á upplýsingum þýddi að hún lifði við óþægindin í áratugi áður en hún leitaði sér hjálpar – þá var hún orðin amma.

Tengdaforeldrar mínir borða fyrst, síðan allir aðrir karlmenn í fjölskyldunni og síðast borða konurnar. 

Rajkumari Devi, 24 ára. 


Hún er með legsig en vannæring getur leitt til þess að grindarbotnsvöðvinn verði meira veikburða og það eykur hættuna á legsigi. Hefð er fyrir því í sumum fjölskyldum að yngri konur og stúlkur borði síðast.