• Zohra Fiali móðir Aminu heludr á mynd af dóttur sinni

Norðvestur-Afríka (Magreb-svæðið)

Í Norðvestur-Afríku (Marokkó, Vestur-Sahara, Alsír og Túnis) er áherslan í löggjöf um nauðgun á siðsemi þolenda fremur en á það að um sé að ræða alvarlega árás.  Löggjöfinni er þannig háttað víða á þessu svæði að gerendur í kynferðisbrotamálum geta sloppið við dóm ef þeir giftast þolandanum. Með þessari löggjöf er ríkið samsekt í því að hylma yfir nauðgun. Í stað þess að vernda þolendur kynferðisofbeldis og veita þeim stuðning er þeim refsað með því að þurfa að giftast kvalara sínum. 

Vandinn byggist á rótgrónum viðhorfum samfélagsins til hlutverka og virðis kvenna og heiður  fjölskyldunnar ræður. Óspjallaðar stúlkur þykja álitlegri kvenkostur og því snýst nauðgun um virði konunnar eða stúlkunnar. Löggjöf sem þessi kemur í veg fyrir að konur kæri nauðgun því hættan er sú að skuldinni verði skellt á þær.

Saga Aminu Filali

Amina Filali framdi sjálfsvíg með því að gleypa rottueitur í mars 2012. Hún var 16 ára gömul. Fljótlega kom í ljós að Aminu hafði verið nauðgað og hún síðan þvinguð til að giftast nauðgaranum sem að sögn hélt áfram að misþyrma henni í hjónabandinu.

Hann giftist henni vegna þess að marokkósk lög leyfðu nauðgurum að komast hjá ákæru með því að giftast fórnarlambi sínu ef það væri undir 18 ára aldri. Í kjölfar máls hennar hefur löggjöfinni verið breytt að einhverju leyti.

Stúlka í Túnis var ákærð fyrir ósiðsemi eftir að hún fór til lögreglu til að tilkynna nauðgun sem hún sætti af hendi tveggja lögreglumanna. Hún var í bíl ásamt unnusta sínum í höfuðborg Túnis þegar þrír lögreglumenn komu til þeirra. Einn þeirra fór með unnusta hennar að hraðbanka til að kúga af honum fé á meðan hinir nauðguðu henni í bílnum. Lögreglumennirnir sem hún kærði sögðu að parið hefði verið í ósiðsamlegum athöfnum og voru þau bæði ákærð fyrir ósiðsemi.