Mannréttindi hinsegin fólks

Öll eigum við rétt á að taka ákvarðanir er lúta að líkama okkar og heilsu, kynferði og frjósemi, án ótta, mismununar eða þvingunar. Fyrir mörg okkar er frelsi til að velja hvað við gerum við líkama okkar og líf sjálfsögð mannréttindi. Við veljum til dæmis hvern við elskum og hvernig við tjáum þá ást. Þessar ákvarðanir tökum við frjálst, án afskipta annarra. Víða um heim eru þó margir sviptir þessu frelsi eða sæta refsingu fyrir að nýta sér það.

Skýrustu brotin á kyn- og frjósemisréttindum eru þegar ríki beita valdi sínu til að refsa fyrir hegðun sem þau skilgreina sem ósiðlega eða óæskilega, samanber þegar ríki setur fólk á bak við lás og slá fyrir það eitt að elska einstakling af sama kyni, eins og í Úganda. Yoveri Museveni, forseti landsins, skrifaði undir lög í febrúar 2014 sem kveða á um lífstíðardóm fyrir samkynhneigð í landinu. Einnig er gert refsivert að styðja við bakið á samkynhneigðum eða ýta undir samkynhneigð, eins og það er orðað.

Með lögunum er rótgróið hatur og mismunun gagnvart þeim sem eru eða teljast hinsegin fest enn frekar í sessi. Og vandinn er víðtækur. Samkvæmt nýlegri skýrslu er samkynhneigð bönnuð í 76 löndum, þar af eru 38 Afríkuríki. Í Afganistan, Brúnei, Íran, Máritaníu, Pakistan, Sádí-Arabíu, Súdan, Jemen og hluta af Nígeríu og Sómalíu, liggur dauðarefsing við samkynhneigð. Í Rússlandi eru einnig ríkjandi ólög gagnvart samkynhneigðum. Árið 2013 var bannað, samkvæmt þarlendri löggjöf, að reka áróður fyrir samkynhneigð, eins og það er orðað í lögunum.

Samtökin '78 og Íslandsdeild Amnesty International hafa tekið höndum saman og styðja úgönsku baráttusamtökin Freedom and Roam Uganda í baráttu þeirra fyrir réttindum hinsegin fólks í Úganda. Stuðningur Íslandsdeildar Amnesty International í þessari baráttu er liður í herferð samtakanna, Minn líkami, mín réttindi.


Dæmi frá Kamerún

Þrjú ár í fangelsi vegna skilaboða sem tengdust samkynhneigð

Árið 2011 sendi Roger Jean-Claude Mbede sms-skilaboð þar sem hann tjáði ást sína til viðtakanda. Þar sem Roger sendi skilaboðin í Kamerún og til annars karlmanns þá var hann handtekinn. Lögreglumenn yfirheyrðu hann í nokkra daga, afklæddu hann og börðu.

Roger var neitað um lögmann í réttarhöldunum og var dæmdur í fangelsi í þrjú ár, ákærður fyrir „samkynhneigð og tilraun til samkynhneigðar“. Hann var lokaður inni í ofsetnu fangelsi þar sem hann varð fyrir kynferðisofbeldi, var neitað um læknismeðferð og barinn af fangavörðum.

Amnesty International tók mál Rogers að sér, hann var skilgreindur sem samviskufangi og fólk um heim allan var hvatt til að standa með Roger og biðja yfirvöld í Kamerún að leysa hann án tafar úr haldi.

Hann var leystur úr haldi síðasta sumar af læknisfræðilegum ástæðum. Að sögn lögmanns hans hafði fjölskylda hans afneitað honum og neitaði honum einnig um læknismeðferð. Roger lést í síðasta mánuði.

Roger var einungis 34 ára að aldri þegar hann lést. Hann varð fyrir aðkasti frá lögreglu, fangelsisyfirvöldum, nágrönnum og fjölskyldu sinni og það leiddi til þess að honum var neitað um þá meðferð sem hann þurfti á að halda, bæði í fangelsi og heima fyrir.