Minn líkami, mín réttindi – Spurningar og svör

Almennar spurningar

Um hvað snýst herferðin Minn líkami, mín réttindi? Eftir hverju er verið að kalla?

Herferðin Minn líkami, mín réttindi kallar eftir því að ríkisstjórnir og Sameinuðu þjóðirnar verndi kyn- og frjósemisréttindi allra, þá sérstaklega ungra kvenna og unglingsstúlkna. 
Með herferðinni er leitast við að ná til ungs fólks af báðum kynjum um allan heim til að auka vitund þess um kyn- og frjósemisréttindi og hvetja það til að krefjast þess að réttindin séu virt, vernduð og uppfyllt.

Við viljum að kyn- og frjósemisréttindi og mannréttindi séu hluti af alþjóðaskuldbindingum og að ríkisstjórnir breyti lögum og verklagi til að tryggja að réttindin séu virt, vernduð og uppfyllt.

Hvað meinið þið með “kyn- og frjósemisréttindi”? Hvað eru þau?

Kyn- og frjósemisréttindi eru réttindi sem gera fólki kleift að taka ákvarðanir um líf sitt er tengist kynlífi og frjósemi með aðgangi að fullnægjandi upplýsingum og heilbrigðisþjónustu án þess að eiga á  hættu lögsókn fyrir glæpsamlegt athæfi, eða að vera refsað á annan hátt, og án mismununar, þvingana og ofbeldis.  

Kyn-og frjósemisréttindi byggjast á mannréttindum sem eru viðurkennd í alþjóðlegum mannréttindasáttmálum, svæðisbundnum stöðlum (regional standards), stjórnarskrám og öðrum mannréttindastöðlum. Þau eru undirstaðan undir því að allir geti nýtt sér mannréttindi og frumskilyrði fyrir mannlegri reisn og til að geta notið líkamlegrar, tilfinningalegrar, andlegrar og félagslegrar velferðar. Uppfyllt kyn- og frjósemisréttindi geta bætt almenna heilsu, betrumbætt persónuleg samskipti og stuðlað að kynjajafnréttindi og valdeflingu.

Af hverju er Amnesty International að vinna að kyn- og frjósemisréttindum? Af hverju núna?

Við höfum verið að vinna að kyn- og frjósemisréttindum í mörg ár, en við erum að hefja herferðina Minn líkami, mín réttindi vegna þess að mörg ríki – allt frá Spáni til Nígeríu – hafa síðustu ár leitast við að draga úr kyn- og frjósemisréttindum. Næsta áratuginn eiga hundruð milljóna manna á hættu að verða neitað um grunnfrelsi og verða fyrir aukinni mismunun og heilsubresti, sem leiðir jafnvel til dauða, ef við getum ekki hindrað ríkisstjórnir í því að brjóta kyn- og frjósemisréttindi þeirra.

43% íbúa heimsins eru á aldrinum 10-24 ára – það er meira en 1,8 milljarðar ungmenna sem eru stærsta unga kynslóð sögunnar. Næstum 90% þeirra búa í þróunarlöndum og miklum meirihluta þeirra, einkum ungum konum og stúlkum, er neitað um frelsi til að taka ákvarðanir um líf sitt er varðar kynlíf og frjósemi og hafa að auki ekki aðgang að grunnfræðslu og heilbrigðisþjónustu til að viðhalda heilsu sinni.

Sumir gætu gagnrýnt okkur fyrir þessa herferð – líkt og var gert þegar Amnesty International hóf herferð gegn dauðarefsingu fyrir mörgum árum síðan – en við búumst við almennum stuðningi með auknum skilningi á málefninu og þeim þjáningum sem brot á kyn- og frjósemisréttindum valda. 

Hvernig brjóta ríki kyn- og frjósemisréttindi?

Oft er misbrestur á að ríki veiti aðgang að nauðsynlegri kynheilbrigðisþjónustu og upplýsingum og algengt er að lög og lögregluvald séu misnotuð til að refsa fyrir hegðun sem álitin er siðferðislega óásættanleg. 

Dæmi um athæfi sem eru álitin glæpsamleg:

  • samkynhneigð
  • notkun getnaðarvarna
  • fóstureyðing
  • kynlíf utan hjónabands

Þetta grefur undan vali einstaklinga í einkalífinu. Í sumum tilfellum leiða refsilög til þess að þolendum mannréttindabrota er refsað en gerendur komast hjá refsingu, til dæmis hafa þolendur nauðgana verið ákærðir fyrir hórdóm. Í öðrum tilvikum refsa ríki þeim sem reyna að aðstoða þolendur nauðgana til að nýta kyn- og frjósemisréttindi sín. Sem dæmi voru níu konur sem vinna að mannréttindamálum í Níkaragva dæmdar árið 2007 fyrir að aðstoða níu ára stúlku, sem var ófrísk eftir nauðgun, við að fá löglega fóstureyðingu árið 2003. Þær voru sakaðar um að skipuleggja mótmæli til stuðnings „fóstureyðingum í meðferðarskyni“. 

Hvað hefur Amnesty International fram að færa í þessu máli?

Amnesty International lítur á þessi málefni frá sjónarhóli mannréttinda og skyldu ríkja til að vernda og greiða leiðina fyrir einstaklinga til að njóta réttinda sinna.  

Markmið okkar er að sýna fram á að þessi málefni, sem oft eru álitin vandamál tengd heilsu og fátækt, séu í raun afleiðing rótgróinnar mismununar og kúgunar.  

Við munum árétta við rúmlega 3 milljónir félaga Amnesty International að þetta eru mannréttindamál og nýta raddir þeirra til að ræða um kyn- og frjósemisréttindi. Stuðnings- og fjölmiðlanet okkar gerir okkur kleift að  ná til breiðs hóps sem við viljum nýta til að ná alþjóðlegri einingu um að kyn- og frjósemisréttindi séu í raun grunnmannréttindi.

Hvað segja alþjóðalög um kyn- og frjósemisréttindi?

Í fjölmörgum sáttmálum Sameinuðu þjóðanna eru kyn- og frjósemisréttindi nú þegar vernduð í lögum. Fjölmörg ríki neita samt sem áður að fullgilda þá og eru andsnúin sáttmála sem snúa eingöngu að kyn- og frjósemisréttindum. Þessi réttindi eru á sama tíma brotin í þeirra eigin löndum.

Hvaða lönd/heimshlutar/landsvæði standa sig verst er varðar brot á kyn- og frjósemisréttindi?

Amnesty International gerir ekki samanburð á stöðu mannréttinda eftir löndum eða svæðum. Það er misjafnt eftir löndum hvaða brot eru algeng þannig að beinn samanburður er ekki sérlega gagnlegur. Það er aftur á móti hægt að segja að brot á kyn- og frjósemisréttindum eiga sér stað í verulegum mæli um allan heim. Þetta er vandamál sem varðar allan heiminn. Allt frá því að neita konum um fóstureyðingu eftir nauðgun á Spáni til refsingar með svipuhöggum eða grýtingum í Súdan vegna kynlífs utan hjónabands. 

Er Amnesty International að herja á ákveðna menningar- og trúarhópa með þessari herferð. Er þessi herferð ekki árás á menningu, trú og hefðbundin gildi?

Amnesty International leitast ekki við að ráðast á neina menningu, trú eða hefð. Við víkjum okkur aftur á móti ekki undan því að beina kastljósi að mannréttindabrotum, óháð því hvaðan þau koma og munum ekki hika við að kalla gerendur til ábyrgðar. Ef við berjumst ekki gegn kreddum sem leggja steina í götu þessara réttinda þá munu hundruð milljóna manna þjást fyrir vikið. 

Er ekki verið að þrengja að trúfrelsi ef afstaða Amnesty International stríðir gegn helstu lífsreglum trúarbragða?

Margar trúarstofnanir hafa mikilla hagsmuna að gæta í því að hafa stjórn á kynlífi og frjósemi. Hagsmunir þeirra eru verndaðir með réttinum til trúfrelsis upp að því marki að það brjóti ekki á rétti einstaklinga. Til dæmis mega trúarbrögð vera á móti fóstureyðingum í öllum tilvikum en ekki hvetja til ofbeldis eða ógna fólki sem framkvæmir, gengst undir eða útvegar fóstureyðingu.  

Ríki geta ekki notað trúarlega hlýðni sem réttlætingu til að neita fólki um rétt sinn til kynheilbrigðisþjónustu og kynfræðslu, óháð trúarskoðunum þeirra.  

Ættu lönd ekki að fá að ráða þessum málefnum eftir áliti meirihluta íbúa landsins?

Mannréttindi eru ekki mál sem er kosið um, ákveðin af ríkisstjórnum eða áliti meirihlutans. Þetta eru grundvallarréttindi sem hver og einn fæðist með. Ríkisstjórnum ber skylda til að vernda þessi réttindi, sérstaklega ef réttindum minnihlutahóps stafar ógn af meirihlutanum.  

Markmið Amnesty International með þessari herferð er að auka vitund um að kyn- og frjósemisréttindi séu í raun grunnmannréttindi.

Menntun og upplýsingar

Vill Amnesty International að börn fræðist um kynlíf í skólum? Er Amnesty International að ýta undir kærulaus viðhorf til kynlífs með því að styðja alhliða kynfræðslu?

Amnesty International telur að það eigi að fræða börn um kynlíf í skólum en það þýðir samt ekki að verið sé að samþykkja kærulaus viðhorf til kynlífs. Alvarlegar afleiðingar af því að fá ekki fullnægjandi kynfræðslu eru sýnilegar – áætlað er að um 3000 ungmenni smitist af HIV-veirunni á hverjum degi.  Þessi herferð snýst ekki bara um kynlíf. Hún snýst um að fólk geti tekið upplýsta ákvörðun um kynlíf.  

Í raun er órjúfanlegur þáttur af herferðinni að koma í veg fyrir að fólk sé þvingað til kynlífs gegn vilja sínum.

Leiðir það ekki til lauslætis að hafa kynfræðslu fyrir börn, og fjölgar þá kynsjúkdómasmiti?

Nei. Rannsóknir sýna að vönduð kynfræðsla leiðir til ábyrgrar kynhegðunar, meðal annars seinkar ungt fólk því að byrja að stunda kynlíf þar til því finnst það vera betur undirbúið.  

Í könnun UNESCO: Alþjóðlegar tæknilegar leiðbeiningar um kynfræðslu (International Technical Guidance on Sexuality Education) kom fram að ungmennin sem tóku þátt byrjuðu ekki að stunda kynlíf fyrr vegna kynfræðslu, heldur seinkuðu 37% fyrstu kynlífsreynslu sinni vegna hennar. 63% sögðu að kynfræðslan hefði ekki haft nein áhrif á ákvörðun þeirra. Það kom einnig í ljós að 31% þeirra stundaði minna kynlíf vegna kynfræðslunnar og 44% fækkuðu rekkjunautum. Til samanburðar voru aðeins 3% sem sögðust hafa stundað meira kynlíf vegna fræðslunnar en það varð engin fjölgun á rekkjunautum. Notkun smokka jókst einnig um 40% í kjölfar betri fræðslu.

Aðgangur að getnaðarvörnum og annarri heilbrigðisþjónustu

Af hverju eru getnaðarvarnir mannréttindamál? Hvers vegna ættu yfirvöld að tryggja aðgang að getnaðarvörnum og smokkum?

Það er grundvallarréttur fólks að fá að ákveða hvort eða hvenær það vill eignast börn og vernda sig gegn smiti og heilsuleysi. Stjórnvöldum ber ekki einungis skylda til að vernda þessi réttindi heldur einnig að sjá til þess að fólk geti notið þeirra með aðgengi að getnaðarvörnum og fræðslu um notkun þeirra.

Hverju viljum við koma á framfæri til þeirra sem vilja meina ógiftum einstaklingum aðgang að getnaðarvörnum?

Mannréttindi minnka hvorki né aukast við giftingu. Þau eru algild fyrir alla einstaklinga til að njóta óháð hjúskaparstöðu.

Er þetta ekki einkamál?

Skömmin sem fylgir málefnum kyn- og frjósemisréttinda kemur í veg fyrir opna umræðu með þeim afleiðingum að teknar eru óupplýstar ákvarðanir sem hugsanlega geta verið áhættusamar. Opin umræða um kynlíf er oft bannhelg, sérstaklega í hefðbundnum og íhaldssömum samfélögum og fólk blygðast sín fyrir að ræða þessi mál. Skortur á umræðum og upplýsingum er tálmi í vegi þess að fólk geti tekið stjórn á lífi sínu og fengið upplýsingar og stuðning til að gæta kyn- og frjósemisréttinda sinna.

Af hverju er stefna Amnesty International um fóstureyðingar ekki ítarlegri?

Stefna okkar um fóstureyðingar var innleidd eftir langt og strangt ferli þar sem leitað var ráðgjafar, fræðslu og vitneskju víðsvegar að. Stefnan byggist á þeim grundvelli sem Amnesty International starfar eftir í þágu mannréttinda og á undirstöðuatriðum í alþjóðlegum stöðlum.  

Hvenær er upphaf lífs að mati Amnesty International? Viðurkennir Amnesty International að fóstureyðing hefur áhrif á rétt fóstursins til lífs?

Amnesty International tekur enga afstöðu til þess hvenær líf hefjist. Alþjóðleg mannréttindalög byrja að taka gildi við fæðingu en ekki er minnst á hvenær líf hefjist.  

Amnesty International er að berjast fyrir því að fóstureyðingar séu leyfðar á þeim grundvelli að fólk eigi að geta ákveðið hvort eða hvenær það eignast börn. 

Hvers vegna var Amnesty International ekki með herferð gegn stefnu um takmörkun barneigna eins og í Kína?

Þetta er tiltölulega ný stefna innan Amnesty International. Á þeim tíma sem Kína hóf eins barns stefnuna þá gátum við ekki tekið afstöðu í málinu. Allir hafa rétt á því að ákveða hvort eða hvenær þeir eignast börn og fjölda og bil á milli barna sinna.

Er Amnesty International að segja að karlmenn ráði ekki hvenær þeir vilja eignast börn?

Auðvitað telur Amnesty International að karlmenn eigi að geta tjáð skoðanir sínar við maka sinn um hvort eða hvenær þeir vilji eignast börn en þeir geta ekki þvingað ákvörðunum sínum upp á maka sinn. Þegar allt kemur til alls þá hefur þetta mest áhrif á konuna og það er því hennar réttur að taka ákvarðanir  um líkama sinn og líf.

Nauðgun og kynferðislegt ofbeldi

Af hverju er nauðgun mannréttindamál?

Í næstum öllum löndum er nauðgun refsiverður glæpur samkvæmt landslögum. Nauðgun er alvarlegt brot á mannréttindum og flokkast sem pynding þegar nauðgun er framin af aðilum á vegum stjórnvalda eða stjórnvöld bregðast því að stöðva, refsa eða veita skaðabætur vegna nauðgunar.  

Hver er afstaða Amnesty International til limlestingar kynfæra kvenna?

Amnesty International fordæmir í öllum tilvikum limlestingar á kynfærum kvenna sem er sumstaðar útbreiddur siður. Aðgerðirnar hafa í sumum tilfellum alvarlegar afleiðingar eins og mikið blóðtap, sýkingar, smit á sjúkdómum á borð við HIV-veiru vegna ósótthreinsaðra verkfæra, áverka og sársauka sem oft leiðir til erfiðleika við samfarir og barnsfæðingar. Limlesting á kynfærum kvenna getur verið ein birtingarmynd af pyndingum þegar yfirvöld eru samsek í verknaðinum eða bregðast skyldu sinni til að stöðva limlestingarnar.

Hinsegin fólk

 

Er Amnesty International einnig að vinna að kyn- og frjósemisréttindum hinsegin fólks?

Já, hluti af þessari herferð er að kyn- og frjósemisréttindi eru fyrir alla. Málefni hinsegin fólks eru þó sérstaklega tekin fyrir í herferð um að binda enda á mismunun.

Vændi

Er tímasetningin ekki of hentug? Hófuð þið herferðina Minn líkami, mín réttindi til að reyna að afla stuðnings við lögleiðingu vændis?

Nei, Amnesty International hefur verið að vinna að mannréttindamálum sem tengjast herferðinni Minn líkami, mín réttindi í mörg ár og þar er ekki tekin fyrir lögleiðing vændis. Engin ákvörðun hefur verið tekin hjá Amnesty International varðandi það.

Af hverju er Amnesty International að setja í forgang tvær herferðir er varða kynlíf og taka það fram yfir málefni eins og [mannréttindi/siðferði og fjölskyldugildi/o.s.frv.]? Hefur Amnesty International misst sjónar á málstað sínum?

Ástæðan fyrir þessari herferð er að ef ekki er tekið á þessum mannréttindamálum þá mun hundruðum  milljóna manns verða neitað um grunnfrelsi og þeim mismunað og misþyrmt, auk þess að eiga á hættu að missa heilsu vegna kynlífs- og meðgöngutengdra vandamála og í sumum tilfellum mun þetta leiða fólkið jafnvel til dauða. Kyn- og frjósemisréttindi eru mannréttindi sem allir eiga rétt á. 

Þetta er eina herferðin okkar í þessum málaflokki.

Mun Amnesty International vinna að því að „rétturinn til kaupa á kynlífi“ verði hluti af herferðinni Minn líkami, mín réttindi?

Nei, það tengist á engan hátt þessari herferð. Við erum að byrja á ráðgjöf varðandi lögleiðingu vændis. Við höfum byrjað ráðgjafarferlið vegna þess að vændisfólk er hópur sem er sérstaklega  berskjaldaður fyrir mannréttindabrotum. Engin ákvörðun hefur verið tekin um þessi mál.

Er það ekki hræsni af ykkar hálfu að hafa réttindi kvenna í miðpunkti herferðarinnar Minn líkami, mín réttindi? Eruð þið ekki á sama tíma að leggja fram stefnu um lögleiðingu vændis og þar með setja réttindi karlmanna til kaupa á kynlífi ofar en réttindi kvenna til að lifa frjálsar undan kynferðisofbeldi?

Amnesty International er skuldbundið réttindum kvenna. Herferðin Minn líkami, mín réttinditekur á málefnum sem leggjast þyngst á konur, t.a.m. berjumst við fyrir því að konur hafi rétt á að velja hverjum þær giftast, lifa án ótta við kynferðisofbeldi, að velja með maka sínum hvort eða hvenær þær eignast börn o.s.frv. Vert er að minnast á að herferðin Minn líkami, mín réttindi er samt sem áður ekki eingöngu herferð um konur. Kyn- og frjósemisréttindi eru mál allra, líka karlmanna.

Ótengt herferðinni höfum við byrjað á að leita ráðgjafar um afstöðu til lögleiðingar vændis vegna þess að við gerum okkur grein fyrir því að mannréttindi vændisfólks eru brotin og við viljum móta  stefnu sem getur verndað það sem allra best. Vitanlega eru margir sem eru í vændi, alls ekki allir samt, konur.

Ýtir þessi stefna ykkar um lögleiðingu vændis ekki undir það að hlutgera konur?

Við erum í ráðgjöf með þessa stefnu eins og er. Spurningin gerir samt ráð fyrir því að konur, óháð aðstæðum, geti ekki tekið meðvitaða ákvörðun um að selja kynlíf. Það gerir lítið úr konum sem ákveða sjálfar að fara í vændi og afskrifar raddir þeirra og getu til að taka ákvarðanir um sitt eigið líf.  

Forgangsröðun okkar verður ávallt mannréttindi fyrir alla og fólk í vændi er sérstaklega berskjaldað fyrir mannréttindabrotum.

En ýtir þessi stefna ykkar um lögleiðingu vændis ekki undir auknar líkur á kynferðislegu ofbeldi?

Við erum í ráðgjöf með þessa stefnu eins og áður sagði. Einstaklingar í vændi eru samt sem áður bersjaldaðir fyrir ofbeldi og öðrum skaða og benda tiltæk gögn til þess að stærsta ástæðan sé sú að vinna þeirra er ólögleg. Það veldur aðstæðum þar sem ofbeldi og misnotkun eru látin viðgangast. Það takmarkar möguleika vændisfólks til að vinna við öruggar aðstæður og leita skaðabóta eða verndar. Vísbendingar eru um að besta leiðin til að vernda vændisfólk frá ofbeldi og leyfa því að njóta mannréttinda sé að afnema refsilög og stefnu sem hindrar það í að afla sér viðurværis á öruggan hátt.