Ábyrgðarskylda

 

camp_delta

Ljóst er orðið að ýmis stjórnvöld hafa framið mannréttindabrot í tengslum við hið svokallaða „stríð gegn hryðjuverkum“. Fyrir liggja sannfærandi gögn um leynileg gæsluvarðhaldsfangelsi í ákveðnum löndum þar sem fangar hafa þurft að þola pyndingar og sæta illri meðferð.

Sönnunargögn og ásakanir um misbeitingu eru enn að koma fram en þrátt fyrir það hafa fáir þurft að sæta ábyrgð. Fram að þessu hafa flestir þeirra verið lágt settir embættismenn.

Fórnarlömbin, fjölskyldur þeirra og samfélög í heild sinni eiga rétt á að vita sannleikann um mannréttindabrot sem framin eru, hverjir gerendurnir eru og hvaða ráðstafanir eru gerðar til að tryggja ábyrgðarskyldu. Þetta eru grundvallaratriði til að samfélög geti dregið lærdóm af mannréttindabrotunum, fyrirbyggt að slík brot verði framin á ný og tryggt að  fórnarlömb slíkra brota fái bætur vegna þjáninga sinna.

Amnesty International hefur barist fyrir því að flett verði ofan af hlutverki evrópskra stjórnvalda og annarra í aðgerðum bandarísku leyniþjónustunnar CIA eftir árásirnar á Bandaríkin 11. september 2001. Aðgerðirnar tengjast framsali og leynilegu varðhaldi þar sem fólk  var handtekið á laun, fært á milli landa, sætti þvinguðu mannshvarfi, var hneppt í ólöglegt varðhald og þurfti í sumum tilvikum að þola pyndingar og annars konar illa meðferð. Einnig eru mörg dæmi um önnur brot en þau sem nefnd hafa verið.

Sum stjórnvöld hafa áformað eða látið gera úttekt og rannsókn á hlutverki sínu í þessum aðgerðum en önnur forðast ábyrgð.

  • Yfirvöld í Litháen hafa viðurkennt að hafa verið með tvö leynileg fangelsi í samvinnu við bandarísku leyniþjónustuna. Hafin var rannsókn á hlutverki litháísku leyniþjónustunnar í fangelsunum árið 2010. Rannsókninni var hætt í janúar 2011 áður en hún var fullkláruð.
  • Yfirvöld í Makedóníu eru sögð hafa aðstoðað við ólöglega handtöku og framsal þýska ríkisborgarans Khaled el-Masri. Málið er í vinnslu hjá Mannréttindadómstól Evrópu en Makedónía hafnar því að útsendarar sínir hafi framið lögbrot.
  • Árið 2010 kunngerðu bresk stjórnvöld að þau myndu gera úttekt á þátttöku breska ríkisins í meintum pyndingum á einstaklingum sem voru handteknir af erlendum leyniþjónustum í öðrum ríkjum.

Miklu skiptir að þeir, sem bera ábyrgð á mannréttindabrotum, sæti ábyrgð vegna brota sinna. En mannréttindabrot eiga sér enn stað í nafni þjóðaröryggis og baráttu gegn hryðjuverkum um heim allan. Tryggja þarf að þeir, sem brjóta mannréttindi, sæti ábyrgð um leið og brotin eru framin.