Að pynda mann er að tortíma mennsku hans!

Hendur þínar eru bundnar yfir höfði þér svo klukkustundum skiptir. Vöðvarnir í líkama þínum öskra. Rafstuð skekur hann. Vatni er þvingað inn í munn þér. Þér finnst þú vera að drukkna. Þér er ítrekað nauðgað. Sýndarréttarhöld eru haldin og þú ert svipt/ur svefni svo dögum skiptir. Hvaðeina sem þarf til að brjóta þig niður. Fá þig til að gefast upp. Til að skrifa undir játningu eða veita upplýsingar. Eða tilgangurinn er sá einn að refsa þér grimmilega. Þú ert falin/n frá umheiminum. Þér finnst sem allir hafi gleymt þér, að þú sér ein/n og yfirgefin/n. Víða um heim pynda stjórnvöld eða útsendarar stjórnvalda fólk með þessum hætti og hylma yfir gjörðir sínar. Í stað þess að pyndarar séu sóttir til saka og refsileysið sem umlykur og viðheldur pyndingum sé stöðvað fær það víða að dafna óáreitt í skjóli valdsins og leyndarinnar.

Stjórnvöld réttlæta pyndingar til að þvinga fram játningar, fá fram upplýsingar, til að bæla niður andstöðu eða einfaldlega til að refsa fólki á grimmilegan hátt. Þessari ómannlegu refsingu er beitt af ríkisvaldinu víðs vegar um heiminn í trássi við alþjóðlegt bann við pyndingum og annarri illri meðferð. Bannið er algilt og nær til allra ríkja, óháð því hvort þau hafa samþykkt alþjóðasáttmála sem kveða á um bannið. Það á við um allar kringumstæður, án nokkurra undantekninga, og ekki er hægt að afnema bannið þó að um stríðsástand sé að ræða eða þótt almennt neyðarástand ríki. 

Pyndingar eru aldrei réttlætanlegar. Þær eru villimannlegar og siðlausar og ein stærsta smán mannkyns. Nafntogaður sálfræðingur, Erich Fromm, sagði af þessu tilefni á alþjóðlegri ráðstefnu Amnesty gegn pyndingum árið 1973: „Pyndingar eru ódyggð engri annarri lík. Að deyða mann er að tortíma líkama hans. Að pynda mann er að tortíma mennsku hans. Ef heimurinn bregst ekki við þessari takmarkalausu óskammfeilni þá munu öll ljós slokkna um síðir.“ 

Sum ríki hafa reynt að réttlæta tilgang pyndinga eða illrar meðferðar með vísan í hernaðarnauðsyn og/eða sjálfsvörn. Sú hugsun var sérlega ráðandi í mörgum ríkjum eftir ellefta september þegar reynt var að endurskilgreina pyndingar og illa meðferð og réttlæta slíka meðferð undir því yfirskini að fórna þyrfti réttindum sumra til að vernda almannaheill. Grunaðir hryðjuverkamenn voru þvingaðir til að veita upplýsingar með „léttvægari aðferðum“, eins og kynferðislegri niðurlægingu, svefnskerðingu, ýmiskonar truflun á skynfærum, hita- og kulda- og vatnspyndingum, svo fátt eitt sé nefnt. Sumar þessara aðgerða valda ef til vill ekki líkamlegum áverkum en þær geta valdið miklum sálrænum skaða sem getur varað lengi, jafnvel ævilangt og pyndingar eru bæði af líkamlegum og sálrænum toga. Skilgreiningin á pyndingum var þrengd og illri meðferð lýst í sumum tilvikum sem „þvingunar- og harðræðisaðferðum“. Hvorugt stenst hins vegar hið skýra og afdráttarlausa alþjóðlega bann við pyndingum né heldur þann siðferðislega skilning sem liggur að baki banninu. Pyndingar og ill meðferð verða ekki leyfilegar þó hugtökunum séu gefin önnur nöfn.

Hálfrar aldar barátta

Amnesty International hefur barist gegn pyndingum í rúmlega 50 ár og margt hefur áunnist í þeirri baráttu. Frá árinu 1980 hefur Amnesty tekið upp mál rúmlega 3000 einstaklinga sem sætt hafa pyndingum í 50 löndum og landsvæðum og margir þeirra fengu lausn sinna mála. Samtökin börðust einnig í áratugi fyrir gerð samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu og tók hann gildi í júní árið 1987 á vettvangi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Mikill meirihluti ríkja heims hefur fullgilt samninginn, eða 155 ríki, auk þess sem 10 önnur hafa skrifað undir hann en ekki fullgilt hann. Enn á þó baráttan gegn pyndingum og annarri illri meðferð mjög á brattann að sækja. Víða um heim er fólk pyndað í fangelsum, á lögreglu-, varðhalds- og herstöðvum, í yfirheyrslubúðum og á öðrum stöðum á vegum yfirvalda. Víða um heim misnota fulltrúar ríkisins vald sitt og pynda varnarlaust fólk. Þetta á ekki aðeins við um ríki þar sem harðstjórar og einræðisherrar ráða ríkjum enda þótt pyndingar séu tíðar undir slíku stjórnarfari. Ríkisstjórnir sem gerast sekar um að stunda pyndingar spanna allt litróf stjórnmálaafla og þrífast í öllum heimsálfum. Samkvæmt nýlegri könnun sem Amnesty International lét gera kom í ljós að nærri helmingur íbúa heimsins óttast að sæta pyndingum eða annarri illri meðferð í eigin landi.

Sorglegar staðreyndir um pyndingar koma fram ár eftir ár í ársskýrslum Amnesty International. Í ársskýrslu samtakanna frá 2011 er að finna upplýsingar frá 101 ríki þar sem pyndingar og önnur grimmileg, ómannleg og vanvirðandi meðferð viðgengst. Árið 2012 skrásetti Amnesty pyndingar í 112 ríkjum. Frá janúar 2009 til mars 2014 skráði Amnesty International pyndingar og aðra illa meðferð í 141 ríki. Pyndingar af hálfu ríkisvaldsins eru því hvergi nærri á undanhaldi þrátt fyrir að alþjóðleg lög gegn pyndingum hafi víða verið samþykkt. Fyrr á árinu komst frétt af lögreglumönnum á Filippseyjum á forsíðu heimspressunnar. Þeir höfðu komið á laggirnar „lukkuhjóli“ sem þeir léku sér með við ákvarðanir um það hvernig ætti að pynda fanga á þeirra vakt. Pyndingar þrífast enn, því þrátt fyrir nærri 30 ára alþjóðlegt bann við þessu grimmilega athæfi og loforð ríkisstjórna um að stöðva það er hyldýpisgjá á milli loforða og efnda. Amnesty International ýtti því úr vör nýrri herferð þann 13. maí sem nefnist Stöðvum pyndingar. Með herferðinni verður lögð áhersla á að ríki tryggi öfluga varnagla gegn pyndingum og grípi til fyrirbyggjandi aðgerða til að sporna við því að pyndingar og ill meðferð þrífist í eigin landi. Ríkisstjórnir allra landa verða að sýna í verki að þær líði ekki pyndingar eða illa meðferð undir nokkrum kringumstæðum. Amnesty International mun vinna að öflugri vernd á milli pyndara og þolenda pyndinga með ýmsu móti. Til að mynda með því að krefjast þess að óháðir læknar skoði fanga og lögfræðingar fái að heimsækja fangelsi og séu ávallt viðstaddir yfirheyrslur. Barist verður fyrir því að einangrunarvist og varðhald á leynilegum stöðum verði ekki leyft. Þrýst verður á um að varðhaldsstofnanir fái reglulegar, ótilkynntar og ótakmarkaðar eftirlitsheimsóknir frá sjálfstæðum og óháðum aðilum. Tilkynna á öllum föngum réttindi sín þegar í stað, m.a. að þeir geti kvartað við yfirvald yfir slæmri meðferð og fengið þegar í stað úrskurð dómara um lögmæti handtökunnar. Allar kvartanir varðandi pyndingar og illa meðferð skulu rannsakaðar af óháðum aðilum á skjótan, hlutlægan og árangursríkan hátt. Hinir ábyrgu skulu dregnir fyrir rétt og þolendur skulu eiga rétt á skaðabótum. Við þjálfun ætti að gera embættismönnum ljóst að ill meðferð og pyndingar verði aldrei liðnar. Skipun frá yfirmanni ætti aldrei að réttlæta pyndingar eða illa meðferð. Yfirlýsingar, upplýsingar eða játningar sem fengnar eru með pyndingum og illri meðferð ætti aldrei að nota sem sönnunargögn í réttarhöldum og föngum ætti að verða gert kleift að hitta fjölskyldu sína og lögfræðing með reglulegu millibili.

Löndin sem Amnesty horfir til í herferðinni

Næstu tvö árin munu samtökin berjast fyrir vernd gegn pyndingum og í þeim tilgangi þrýsta á ríki að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða til að sporna við pyndingum og annarri illri meðferð. Horft verður til fimm landa þar sem pyndingar eru útbreiddar: í Mexíkó og Filippseyjum þar sem pyndingar eru algengar á lögreglustöðvum, í Marokkó og Úsbekistan þar sem dómstólar reiða sig á játningar fólks sem sætt hefur pyndingum og í Nígeríu þar sem barsmíðar og sýndarréttarhöld eru dæmi um meðferð sem fólk hlýtur í varðhaldi. Tekin verða fyrir mál fimm einstaklinga frá hverju þessara landa og félagar okkar í sms-netinu og netákallinu hvattir til að grípa til aðgerða vegna þeirra.

Staðan á Íslandi

Árið 1985 undirritaði Ísland samning gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannleg og niðurlægjandi meðferð og refsingu og fullgilti hann árið 1996. Valfrjáls bókun við samninginn hefur hins vegar enn ekki verið fullgilt. Bókunin sem var undirrituð 24. september 2003 felur m.a. í sér að komið verði á alþjóðlegri eftirlitsnefnd sem er heimilað að skoða aðstæður í þeim löndum sem fullgilda bókunina. Einnig er gert ráð fyrir að þau ríki sem fullgilda bókunina grípi til fyrirbyggjandi aðgerða til að koma í veg fyrir pyndingar, m.a. með því að setja á fót sjálfstæða stofnun sem annast eftirlit. Með sjálfstæðu eftirliti aðildarríkjanna er átt við að þau setji á fót stofnun sem sér um eftirlit með stöðum þar sem einstaklingar dveljast á vegum hins opinbera og almennt eftirlit með störfum lögreglunnar. Reynslan hefur sýnt að reglubundnar heimsóknir til slíkra stofnana eru mikilvægar til þess að koma í veg fyrir pyndingar og ómannlega meðferð. Fyrirbyggjandi heimsóknir á varðhaldsstaði eiga því bæði að vera í höndum undirstofnunar Sameinuðu þjóðanna og stofnunar á vegum aðildarríkjanna. Á Íslandi hefur umboðsmaður Alþingis gegnt slíku eftirlitshlutverki en hann skortir fjármagn svo hann geti sinnt því sem skyldi. Engin stofnun á Íslandi hefur því burði til að hafa viðunandi eftirlit með varðhaldsstöðum og dvalar- og meðferðarheimilum en brýnt er að bæta úr þessu. Nefnd gegn pyndingum á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur hvatt íslensk stjórnvöld til að fullgilda bókunina um eftirlit og setja sjálfstæða eftirlitsstofnun á fót. Auk þess hefur hún lagt til að umsvif umboðsmanns Alþingis verði aukin með tilheyrandi mannauði og fjármagni þannig að embættið geti betur haft eftirlit með varðhaldsstöðum og dvalar- og meðferðarstofnunum.

Amnesty International mun halda baráttunni áfram þar til við búum í heimi þar sem pyndingar heyra sögunni til. Samtökin munu standa við hliðina á hverjum þeim sem eiga á hættu að sæta pyndingum og styðja þá sem sætt hafa pyndingum í því að leita réttar síns. Þolendur pyndinga munu vita að félögum Amnesty International stendur ekki á sama um örlög þeirra, að þeir eru ekki einir og yfirgefnir.