Einstæð móðir á Filippseyjum barin með kylfu, potað í augu hennar og HÚN áreitt kynferðislega af lögreglu

Alfreda er einstæð móðir á Filippseyjum. Þann 3. október 2013 sat hún á netkaffihúsi nálægt heimili sínu þegar tveir lögreglumenn komu upp að henni og sökuðu hana um að vera dópsali. Alfreda harðneitaði ásökununum og tæmdi vasa sína til að sýna að hún bæri aðeins á sér farsíma og smámynt. Án viðvörunar beindi annar  lögreglumaðurinn byssu að henni á meðan hinn kýldi hana í brjóstið. Hún var síðan handjárnuð og flutt til fíkniefnadeildar lögreglunnar. Þegar þangað var komið sætti hún kynferðislegri áreitni af hálfu lögreglumanns og var síðan færð í fangaklefa með fimm öðrum föngum. Tveimur klukkustundum síðar kom annar lögreglumaður og fór með Alfredu á afskekktan stað. Þar barði hann hana margítrekað í magann og andlitið, sló  hana með kylfu, potaði fingrum í augu hennar, neyddi hana til að borða hárflóka og barði höfði hennar við steinvegg. Annar lögreglumaður kom síðar á vettvang og tók við af hinum. Sá síðarnefndi kýldi Alfredu með hnefum og hnúum og beitti einnig kylfu. Í kjölfar þessarar illu meðferðar var Alfreda svo kvalin að hún átti erfitt með andardrátt og kastaði upp í sífellu. Alfreda var síðar flutt í kvennafangelsi þar sem hún dvelur enn og bíður nú eftir að dómur falli í máli hennar. Hún heldur því fram að lögreglan hafi borið hana upplognum sökum um vörslu og sölu fíkniefna. Enda þótt Alfreda hafi gengist undir læknisskoðun í kjölfar pyndinganna sem hún sætti hefur engin rannsókn á máli hennar enn farið fram. Rannsaka verður pyndingarnar sem hún sætti, hinir ábyrgu verða að svara til saka og greiða verður Alfredu bætur.