Marokkó: Faðir framseldur til Marokkó og látinn sæta margvíslegum pyndingum!

Ali Araas er með marokkóskan og belgískan ríkisborgararétt en var búsettur á Spáni árið 2010 þegar hann var handtekinn og framseldur til Marokkó.

Árið 2006 rannsökuðu spænsk stjórnvöld Ali vegna gruns um aðild að hryðjuverkastarfsemi. Engar sannanir fundust þó um aðild hans að slíku. Þrátt fyrir það fóru stjórnvöld í Marokkó fram á að Ali yrði framseldur til landsins frá Spáni. Ali var framseldur til Marokkó 14. desember 2010. Honum var haldið af leyniþjónustunni í einangrun, í leynilegu varðhaldi, í 12 daga. Þar sætti hann pyndingum og annarri illri meðferð. Hann var barinn á iljar, rafstraumur leiddur í gegnum kynfærin, hann var látinn hanga lengi uppi á úlnliðunum og brenndur með sígarettum. Ali var síðar handtekinn af marokkósku lögreglunni og færður í Salé-fangelsið. 

Samfangar Ali lýstu því síðar hversu brugðið þeim var við að sjá alvarleg ummerki pyndinga á líkama hans og sögðu þeir að Ali hefði greinilega þjáðst af áfallastreitu þegar hann kom í fangelsið. Yfirvöld hunsuðu þessar vísbendingar. Þann 19. nóvember árið 2011 var Ali sakfelldur fyrir ólöglega notkun vopna og aðild að hryðjuverkastarfsemi. Hann var dæmdur í 15 ára fangelsi en síðar var dómurinn mildaður í 12 ár. Sakfellingin byggðist eingöngu á játningu sem fengin var með pyndingum. Frá 10. júlí til 7. ágúst árið 2013 var Ali í hungurverkfalli til að vekja athygli á slæmri meðferð í fangelsinu. Þegar Mannréttindaráð Marokkó heimsótti fangelsið batt Ali enda á hungurverkfallið. Hann er enn í Salé- fangelsinu. Hann segir að meðferð fangelsisyfirvalda á föngum sé enn slæm. Fangar eru meðal annars neyddir til að vera naktir í klefum sínum og eru rændir nætursvefni. Stjórnvöld í Marokkó hafa enn ekki rannsakað pyndingarnar sem hann hefur sætt, þrátt fyrir kröfur fjölskyldu hans, lögfræðings og Amnesty um það.

Vinnuhópur á vegum Sameinuðu þjóðanna um handtökur af geðþóttaástæðum heldur því fram að sakfellingin yfir Ali hafi eingöngu byggst á játningu sem fengin var með pyndingum.