• Claudia Medina ©Amnesty International

Mexíkósk kona pynduð og þvinguð til að skrifa undir játningu sem hún fékk ekki að lesa yfir!

Claudia Medina er 33 ára gömul mexíkósk kona sem ákærð er fyrir glæp og bíður þess að réttað verði yfir henni. Hún berst fyrir því að rannsókn verði hafin á pyndingum sem hún sætti í yfirheyrslu á herstöð í Mexíkó og að hún fái óháða læknisskoðun.

Þann 7. ágúst 2012 braust hermaður inn á heimili Claudiu klukkan þrjú að nóttu, batt hendur hennar fyrir aftan bak og batt fyrir augu hennar áður en hann dró hana út í sendibíl sem flutti hana á nálæga herstöð. Claudia var sökuð um að tilheyra glæpagengi en því neitaði hún staðfastlega. Samkvæmt framburði Claudiu var henni gefið rafstuð, nauðgað þrisvar, sparkað í hana og hún barin illa af hermönnum á stöðinni. Næsta dag var hún færð, ásamt öðrum, á skrifstofu saksóknara. Þá kom í ljós að eiginmaður hennar og mágur höfðu einnig verið handteknir. Hún var þvinguð til að skrifa undir falska yfirlýsingu sem henni var ekki leyft að lesa yfir. Hún sagði Amnesty International að hún hefði aldrei skrifað undir yfirlýsinguna ef hún hefði ekki sætt pyndingum.

Seinna sama dag héldu yfirvöld blaðamannafund, þar sem Claudia og aðrir sem teknir höfðu verið til fanga, voru kynnt sem hættulegir afbrotamenn sem tekist hefði að handtaka á vettvangi alvarlegs glæps. Claudia var síðar leyst úr haldi gegn tryggingu en bíður nú úrskurðar dómstóla.

Claudia fer fram á að pyndingarnar sem hún sætti verði rannsakaðar hratt og örugglega og að hún fái læknisskoðun af hendi  óháðs læknis, ásamt sálfræðimati. Engin slík rannsókn eða sálfræðimat hefur enn átt sér stað.