Dæmd í tíu ára fangelsi að loknum óréttlátum réttarhöldum

Dilorom Abdukadirova er 49 ára gömul kona í Úsbekistan sem afplánar nú 18 ára dóm í kvennafangelsinu í Tashkent í heimalandi sínu. Hún hlaut málsmeðferð sem brýtur í bága við alþjóðleg viðmið um sanngjörn réttarhöld. Dilorom sætti auk þess pyndingum og annarri illri meðferð á meðan hún sat í gæsluvarðhaldi áður en réttarhöldin fóru fram.

Diloram vann ásamt eiginmanni sínum og tengdamóður á litlum fjölskyldubúgarði í Andijan, fjórðu stærstu borg landsins, þar sem þau ræktuðu og seldu grænmeti. Þann 13. maí árið 2005 ákvað hún, ásamt þúsundum annarra, að taka þátt í mótmælum til að vekja athygli á bágum efnahag landsins. Umræddan dag tók stjórnarherinn að skjóta á mótmælendur á torgi í miðborginni og talið er að hundruð hafi legið í valnum. Atvikið hefur enn ekki verið rannsakað. Dilorom flúði skothríðina og náði að landamærum Kirgistan sem eru í 25 km fjarlægð. Henni var útvegaður ástralskur flóttamannapassi og kom hún til Ástralíu í febrúar 2006. Hún var áfjáð í að sameinast fjölskyldu sinni á nýjan leik og sneri því aftur til Andijan í janúar 2010. Stjórnvöld í Úsbekistan höfðu ítrekað fullvissað hana um að ekkert myndi henda hana ef hún sneri til baka. Hún var hins vegar handtekin strax við komuna til landsins og sat í gæsluvarðhaldi í 4 daga áður en hún fékk að hitta fjölskyldu sína. Í mars 2010 var hún handtekin á nýjan leik og ákærð fyrir að gera tilraun til að velta úr sessi lögbundinni stjórn landsins. 

Henni var haldið nauðugri í kjallara á lögreglustöð í tvær vikur án þess að fá að hitta fjölskyldu sína eða lögfræðing. Þegar réttarhöldin yfir henni fóru fram í apríl 2010 sagði fjölskylda Dilorom að hún hefði verið grindhoruð og marin í andliti. Að loknum afar ósanngjörnum réttarhöldum var hún fundin sek og dæmd í rúmlega tíu ára fangelsi. Árið 2012 var dómurinn síðan þyngdur og hún dæmd til átta ára fangelsisvistar til viðbótar. Diloram situr í kvennafangelsi í dag og óttast fjölskylda hennar mjög að hún sæti illri meðferð.

Diloram er samviskufangi sem á tafarlaust að leysa úr haldi og fella á niður allar ákærur á hendur henni. Þá þarf að eiga sér stað óháð rannsókn á pyndingum og illri meðferð sem hún sætti og sækja verður hina ábyrgu til saka.