Moses sætti pyndingum 16 ára gamall

Moses var að bíða eftir niðurstöðum úr prófum í grunnskóla þegar líf hans tók hamskiptum. Hann var aðeins 16 ára þegar nígeríski herinn handtók hann í nóvember árið 2005. Hann var sakaður um að stela þremur símum og öðrum samskiptabúnaði. Moses lýsti því hvernig hermaður skaut hann með byssu í höndina við handtöku og annar barði hann í höfuðið og bakið. Honum var upphaflega haldið í hermannaskála þar sem honum var sýnt lík sem hann var beðinn um að auðkenna. Þegar hann gat það ekki var hann barinn. Eftir að hann var fluttur á Epkan-lögreglustöðina sætti hann frekari pyndingum og illri meðferð. 

Moses greindi frá því að lögreglan hefði barið hann mjög illa með bareflum. Hann var bundinn og hengdur upp á höndum í yfirheyrsluherbergi og töng var notuð til að draga neglur af höndum hans og fótum í þeim tilgangi að þvinga hann til játningar. Réttarhöldin yfir honum fóru fram í hæstarétti í Effurum í Delta-ríki. Rannsóknarfulltrúinn mætti ekki við réttarhöldin og sakfellingin gegn Moses byggðist á mótsagnakenndum vitnisburði og játningum hans sem þvingaðar höfðu verið fram með pyndingum. Eftir átta ár í fangelsi var Moses dæmdur til dauðarefsingar með hengingu. Hann fékk aldrei tækifæri til að bera vitni fyrir réttinum um þá illu meðferð og pyndingar sem hann þurfti að þola. Moses fær aðeins að hitta fjölskyldu sína tvisvar í mánuði á meðan hann bíður á dauðadeildinni.

Enginn á að þurfa að sæta jafn grimmilegri og ómannlegri meðferð af þessu tagi og engan skal þvinga til játninga með pyndingum. Ekki skal heldur dæma til dauða neinn sem var undir 18 ára aldri þegar brot átti sér stað.

Í febrúar 2014 lét Moses eftirfarandi orð falla: „Sársaukinn sem ég þurfti að þola við pyndingarnar var óbærilegur. Ég hélt aldrei að ég myndi lifa til dagsins í dag.“