Spurningar og Svör

Hversu alvarlegt vandamál eru pyndingar í heiminum?

Amnesty International hefur skráð pyndingar og aðra illa meðferð í 141 landi síðustu fimm ár. Í mörgum þessara landa eiga pyndingar sér stað með reglu- og kerfisbundnum hætti en annars staðar er um einangruð tilfelli að ræða.

Í tengslum við herferðina Stöðvum pyndingar lét Amnesty International gera alþjóðlega könnun um viðhorf til pyndinga sem sýndi að næstum helmingur aðspurðra - frá 21 landi í öllum heimsálfum - óttaðist að sæta pyndingum, ef þeir yrðu settir í varðhald.

Hvernig fékk Amnesty International þá tölu að 141 ríki hafi beitt pyndingum eða illri meðferð á síðustu fimm árum?

Þetta er heildartala þeirra landa þar sem Amnesty International hefur skráð tilfelli af pyndingum og annarri illri meðferð á síðustu fimm árum.

Einungis er um að ræða tilfelli sem hægt var að staðfesta og voru nógu trúverðug til að kalla á rannsókn og því gæti raunveruleg tala verið hærri. Þessi tala er ekki endanleg heldur gefur hún innsýn í stöðu pyndinga í heiminum í dag. Á hverju ári er skráningum safnað um það hvort tilkynnt hafi verið um pyndingar eða aðra illa meðferð í hverju landi fyrir sig og þær birtar í ársskýrslunni okkar. Allar einstakar skráningar síðustu fimm ára voru lagðar saman til að fá þessa tölu.

Hvaða 141 land er um að ræða?

Amnesty International gefur ekki út heildarlista, þar eð eingöngu er um að ræða lönd þaðan sem trúverðugar tilkynningar bárust um pyndingar og illa meðferð, og tilkynningar sem hafa komið inn á borð samtakanna. Ekki er hægt að taka með í reikninginn þau lönd þar sem ríkir algjör leynd yfir pyndingum. Ef við myndum birta listann þá væri hætta á að hvítþvo lönd sem hugsanlega beita enn pyndingum án þess að það hafi verið hægt að staðfesta.

Er Amnesty International að segja að pyndingar hafi aukist? Er ástand mála að versna eða batna?

Aðalmálið er ekki hvort pyndingar hafa aukist eða ekki – 30 árum eftir að samningur gegn pyndingum var samþykktur hjá Sameinuðu þjóðunum eru pyndingar enn útbreiddar í heiminum. Það er algjörlega óásættanlegt og Amnesty International telur að tími sé kominn til að taka áþreifanleg skref til að útrýma pyndingum og tryggja að alþjóðlegum skyldum sé fylgt eftir.

Eruð þið að segja að samningurinn gegn pyndingum hafi mistekist?

Nei, alls ekki. Samningurinn gegn pyndingum var sögulegur og gríðarlega mikilvægt skref fram á við í baráttunni gegn pyndingum. Hann tryggði að viðurkennt var á alþjóðavettvangi að pyndingar væru saknæmt athæfi og skuldbatt ríki til að stíga áþreifanleg skref í átt að útrýmingu þeirra. Raunin er sú að 155 ríki um heim allan hafa skrifað undir samninginn og mörg hafa vissulega innleitt ákvæði hans, sem hefur þýtt marktæka fækkun pyndinga og illrar meðferðar. En betur má ef duga skal til að tryggja að samningnum sé fylgt og blátt bann gegn pyndingum sé virt.

Er þetta ekki fyrst og fremst vandamál í þróunarríkjum auk örfárra vestrænna ríkja sem eru meðsek í ákveðnum málum tengdum hryðjuverkastríðinu?

Munurinn er tilkominn vegna viðhorfa en ekki af landlegu eða þróunarstöðu. Reynsla Amnesty International sýnir að pyndingar þrífast í ríkjum sem annaðhvort hafa ekki fyrir því að fullgilda sáttmála eins og samninginn gegn pyndingum eða skrifa undir þá og hafa ekki fyrir því að grípa til þeirra aðgerða sem sáttmálarnir fyrirskipa. Þýðingarmikil fækkun á pyndingum og annarri illri meðferð hefur orðið í þeim ríkjum sem taka bann við pyndingum og annarri illri meðferð alvarlega og grípa til aðgerða samkvæmt samningnum gegn pyndingum og valfrjálsri bókun hans og öðrum sáttmálum.

Ætti ekki að vera hægt að nota pyndingar fyrir almannaheill við sérstakar aðstæður ef þær geta hindrað hryðjuverkaárás?

Pyndingar eru aldrei réttlætanlegar og allar tilraunir til að réttlæta pyndingar á einhvern hátt grafa undan algildu banni við pyndingum.

Þegar örfá ríki réttlættu pyndingaraðferðir í „stríðinu gegn hryðjuverkum“ gaf það öðrum ríkjum grænt ljós, ríkjum sem vildu nota pyndingar í nafni þjóðaröryggis – sem varð til þess að pyndingum var beitt gegn pólitískum andstæðingum, gagnrýnendum og aðgerðasinnum.

Hvaða pyndingaraðferðir eru algengastar? Hvernig vitum við hvaða aðferðir eru mest notaðar?

Allar pyndingaraðferðir eru óréttmætar. Mismunandi aðferðir geta valdið mismiklum sálrænum eða líkamlegum skaða eftir þolendum. Engin aðferð er meira eða minna ásættanleg en önnur.

Þar sem leynd ríkir yfir pyndingum er ómögulegt að vita með vissu hvaða aðferðir eru algengastar en á síðasta ári skráði Amnesty International gríðarlegan fjölda af aðferðum sem yfirvöld beittu þolendur. Barsmíðar, kæfingar, rafstuð og upphenging á höndum eða fótum eru meðal algengustu pyndingaraðferða sem eru tilkynntar til Amnesty International.

Pyndingaraðferðir sem stjórnvöld um heim allan beita eru barsmíðar, löðrungar, spörk, barsmíðar með sveðjum, hýðingar með reipi, barsmíðar með prikum og öðrum hlutum, upphenging á höndum eða fótum, handjárnun, svefnsvipting, rafstuð, vatnspyndingar, að setja þyngd á kynfæri, skilja fanga eftir í gífurlegum hita eða kulda, löng einangrunarvist, innilokun í hundabúri, brjóta útlimi, köfnun að hluta til með plastpoka og aðrar skerðingar á skilningarvitum, nauðganir, önnur kynferðisbrot, kynferðisleg niðurlæging, þar á meðal þvinguð nekt, neyða karlfanga til að klæðast kvenundirfötum, neyða þá til að snerta kynfæri annarra fanga og að afklæða þá fyrir framan kvenspyrjendur.

Hvers vegna er pyndingum beitt?

Pyndingum er beitt vegna þess að stjórnvöld leyfa starfsmönnum sínum að misnota vald sitt yfir varnarlausum föngum þar sem gjarnan er litið á fanga sem ómennska og vegna þess að pyndingar gagnast stjórnvöldum – eða svo telja þau.

Fangar eru í hættu ef þeim er neitað um tafarlausan aðgang að lögfræðingi eða réttarhöldum. Einnig eru þeir í hættu þegar óháðir sérfræðingar fá ekki að fara í eftirlitsferðir á varðhaldsstöðvar. Stjórnvöld sem bregðast því að sækja fólk til saka fyrir pyndingar eru að gefa þau skilaboð að pyndingar séu ásættanlegar.

Á hinn bóginn þegar haft er eftirlit með meðhöndlun á föngum og stjórnvöld rannsaka, ákæra og dæma þá seku fyrir pyndingar þá er verið að sýna að pyndingar verði ekki liðnar.

Ástæður fyrir pyndingum eru meðal annars að ná fram upplýsingum eða „játningum“ fyrir „auðvelda“ sakfellingu, kúga fé af fólki, refsa, niðurlægja, eða pyndingarnar eru hluti af reglubundinni málsmeðferð lögreglu.

Í hvaða landi eða á hvaða svæði er ástandið verst?

Amnesty International gerir ekki samanburð á milli landa eða svæða. Yfirleitt er farið leynt með pyndingar svo það er ómögulegt að mæla hvaða lönd standa verst. Í öllu falli myndi það missa marks – hvert einasta tilfelli af pyndingum er óréttmætt og öll ríki hafa skyldu að gegna til að koma í veg fyrir pyndingar og refsa fyrir þær.

Hvernig getur Amnesty International greint nákvæmlega frá umfangi vandamálsins þegar pyndingar eru yfirleitt leynilegar?

Amnesty International heldur því ekki fram að það geti birt endanlega tölu um pyndingar eða aðra illa meðferð í heiminum, en með víðtækum og ítarlegum rannsóknum höfum við í gegnum árin getað komið fram í dagsljósið með þúsundir trúverðugra pyndingarmála sem kalla eftir rannsóknum yfirvalda.

Það gefur okkur innsýn inn í umfang vandamálsins. Leyndin, óttinn og niðurlægingin sem fylgir pyndingum þýðir óhjákvæmilega að þúsundir mála til viðbótar eru ekki tilkynntar til okkar – og að sjálfsögðu höfum við líka takmarkað bolmagn. Umfang vandans er því líklega mun meira en við getum fært sönnur á.

Hvers vegna telur Amnesty International þörf á annarri alþjóðlegri herferð gegn pyndingum?

Við höfum alþjóðlegan lagaramma til að styðjast við í baráttunni gegn pyndingum. Núna erum við að berjast fyrir því að hann verði innleiddur í landslög, stefnumál og verklag ríkja á skilvirkan hátt, þannig að það verði erfiðara að brjóta gegn lögum um pyndingar og tryggt verði að þeir sem gerast sekir verði dregnir til ábyrgðar.

Við viljum tryggja óháð eftirlit á varðhaldsstöðum, tafarlausan aðgang að óháðum lögfræðingum og réttarhöldum, eftirlit með yfirheyrslum, ítarlegar og skilvirkar rannsóknir á ásökunum um pyndingar sem leiða til ákæra og bóta til þolenda. Það er ekki nóg að framfarir eigi sér stað – við munum halda áfram að berjast gegn pyndingum þar til þær heyra sögunni til.

Þýðir þetta að samtökunum hafi mistekist að ná markmiðum sínum síðustu fimmtíu ár?

Það þýðir vissulega að við höfum ekki náð öllu því sem við höfum vonast til og það er enn mikið verk fyrir höndum. Amnesty International hefur náð umtalsverðum árangri í rúmlega 50 ára baráttu gegn pyndingum í heiminum. Í lok 8. og 9. áratugarins leiddu samtökin herferð fyrir alþjóðlegum skuldbindingum til að binda enda á pyndingar. Framtak okkar varð til þess að Sameinuðu þjóðirnar samþykktu samning gegn pyndingum árið 1984. Samningurinn krefur ríki um að taka áþreifanleg skref til að fyrirbyggja pyndingar, m.a. með því að sjá til þess að hinir seku verði dregnir til ábyrgðar.

Það hafa orðið framfarir. Í dag eru yfir 155 lönd aðilar að samningnum og þeim fjölgar stöðugt. Fleiri lönd banna pyndingar í innlendri löggjöf í dag en nokkurn tímann áður. Mörg þessara landa hafa einnig með greinilegum árangri gripið til fyrirbyggjandi aðgerða sem herferðin kallar eftir.

Hvers konar árangri getur Amnesty International eiginlega vonast eftir í tveggja ára herferð?

Herferðin hefur fyrst og fremst tvö markmið:  

●      Að beina alþjóðlegri athygli að því að pyndingar og önnur ill meðferð er enn útbreidd í heiminum og að það þurfi að binda enda á það.

●      Að ná ákveðnum árangri í fimm löndum sem hafa verið valin vegna þess að við teljum okkur geta haft áhrif á þau með því að beina mætti samtakanna af fullum þunga að þeim. Við stefnum á að ná áþreifanlegum árangri í baráttunni gegn pyndingum í þessum löndum á tveggja ára tímabili herferðarinnar – í    lagasetningu, stefnumálum og verklagi.

Almennt séð erum við að berjast fyrir því að komið verði á fót nýjum eða endurbættum varnöglum gegn pyndingum og refsingu fyrir þær.

Það felur í sér óháð eftirlit með varðhaldsstöðvum, eftirlit með yfirheyrslum, tafarlausan aðgang að lögfræðingum, réttarhöldum og aðstandendum, ítarlegar og skilvirkar rannsóknir á ásökunum um pyndingar sem leiða til ákæru og bóta til þolenda.

Ef herferðin er alþjóðleg, hvers vegna leggur Amnesty International aðeins áherslu á fimm lönd? Hvaða viðmið var notast við til að velja þessi forgangslönd? Hvaða lönd eru það sem herferðin leggur áherslu á?

Herferðin heldur áfram rannsóknum okkar, fjölmiðlavinnu og stuðningsaðgerðum gegn pyndingum í öllum löndum heims en til viðbótar verjum við kröftum okkar til þess að beina aðgerðum að fimm löndum sem eru brennidepli – Filippseyjum, Mexíkó, Marokkó, Nígeríu og Úsbekistan.

Við lögðum mat á nokkur lönd þar sem pyndingar eru algengar en völdum þessi fimm þar sem við töldum okkur geta náð fram áþreifanlegum úrbótum í baráttunni gegn pyndingum innan tímaramma herferðarinnar – í lagasetningu, stefnumálum og verklagi. Fyrir hvert land skipulögðum við hvernig við gætum náð markmiðum okkar á næstu tveimur árum og mátum hvernig jákvæð áhrif í þessum löndum gætu haft áhrif á nágrannaríki. Við vonumst til þess að þessi lönd innleiði nýjar og betri varnir gegn pyndingum og refsi fyrir beitingu þeirra – innleiði þar á meðal óháð eftirlit á varðstöðvum, eftirlit með yfirheyrslum, tafarlausan aðgang að lögfræðingum og réttarhöldum, skilvirka rannsókn á ásökunum um pyndingar sem leiða til ákæra og bóta til þolenda - og að nágrannaríki fylgi fordæmi þeirra.

Hvers vegna veitist Amnesty International að þessum fimm tilteknu löndum? Hvað með önnur lönd sem eiga sér mun verri pyndingasögu?

Þessi lönd voru ekki valin af því að staða mála væri verst þar heldur vegna þess að við vildum finna og velja lönd þar sem breytingar í þágu mannréttinda gætu haft áhrif á nágrannaríki og á alþjóðavettvangi.

Amnesty International gerði ítarlega greinargerð um pyndingar í löndum um allan heim. Gert var mat þar sem haft var til hliðsjónar margs konar viðmið:

Tíðni pyndinga, ytri sóknarfæri til áhrifa (sem myndi þýða að tekið væri mark á slíkri herferð), líkurnar á að hafa áhrif á tveggja ára tímabilinu og önnur sóknarfæri sem gætu leitt til framfara til langs tíma í landinu eða haft áhrif nágrannasvæði vegna stöðu landsins.

Af hverju eru Guantanamo-búðirnar ekki inni í herferð Amnesty International gegn pyndingum?

Þrátt fyrir að Guantanamo-búðirnar séu ekki hluti af herferðinni þá heldur vinna okkar varðandi þær áfram, ásamt aðgerðum gegn öðrum fangabúðum víðsvegar um heiminn.

Amnesty International hefur barist gegn Guantanamo í rúm 11 ár. Alveg frá því að Bandaríkin og önnur ríki brugðust við ógnvænlegum árásum þann 11. september höfum við stöðugt kallað eftir því að Bandaríkjastjórn og aðrar samsekar ríkisstjórnir sem hafa brotið mannréttindi í nafni öryggis – með leynihandtökum, framsölum, þvinguðum mannshvörfum, pyndingum og annarri illri meðferð og synjun um grundvallar-lagavernd – virði til fulls mannréttindi og bindi enda á slíkar aðgerðir. Þessi vinna hefur verið breytileg, hefur náð ákveðnum árangri, og mun halda áfram þar sem þetta er bersýnilega langvarandi barátta sem þarfnast stöðugs átaks. Óháð nýju herferðinni gegn pyndingum, þá mun vinnan við að loka Guantanamo-búðunum og senda fangana aftur til síns heima halda áfram.

Við teljum að það sé kominn tími til að einblína ekki aðeins á fólk sem er pyndað í tengslum við baráttuna gegn hryðjuverkum heldur einnig þá fjölmörgu sem oft er litið framhjá. Þar á meðal eru smáþjófar, fólk af „röngum“ uppruna eða trúarhópi, fólk með „ranga“ kynvitund/-hneigð og kynhegðun, nemendur, fólk á röngum stað á röngum tíma, mótmælendur, aðgerðasinnar eða allir þeir sem gætu verið í varðhaldi og verða fyrir pyndingum og annarri illri meðferð, eins og algengt er í mörgum löndum. Okkur finnst mikilvægt að beina athyglinni að einstaklingum sem verða fyrir þessum grófu brotum og þeim ríkisstjórnum sem halda áfram beitingu pyndinga án eftirlits eða ábyrgðar.

Alþjóðlega könnunin

Hvernig var skoðanakönnunin framkvæmd?

Heildarfjöldi þátttakenda var 21.221 í 21 landi þar sem tekin voru viðtöl augliti til auglitis eða í gegnum síma frá desember 2013 til byrjun apríl 2014 í eftirfarandi löndum: Argentínu, Ástralíu, Bandaríkjunum, Brasilíu, Bretlandi, Chile, Grikklandi, Indlandi, Indónesíu, Kanada, Kína, Kenýa, Mexíkó, Nígeríu, Pakistan, Perú, Rússlandi, Suður-Kóreu, Spáni, Tyrklandi og Þýskalandi. Skoðanakönnunin var framkvæmd fyrir Amnesty International af alþjóðlega rannsóknar- og ráðgjafafyrirtækinu GlobeScan og samstarfsaðilum þess í hverju landi fyrir sig.

Í fjórum löndum var þýðið bundið við þéttbýl svæði (Brasilía, Indónesía, Kenýa og Kína). Frávik í hverju landi fyrir sig eru frá +/- 2,1 til 3,7 %, 19 af hverjum 20.

Hver eru frávikin?

Frávik í hverju landi fyrir sig eru frá +/- 2,1 til 3,7 %, 19 af hverjum 20.

Hvað getur könnun í einungis 21 landi sýnt okkur fram á?

Skoðanakönnun í 21 einu landi endurspeglar ólík sjónarhorn frá mismunandi svæðum í heiminum.

Hvaða rök eru fyrir því að velja þessi lönd?

Löndin voru valin til að endurspegla fjölbreytt landfræðileg, efnahagsleg, félagsleg og menningarleg svæði. Globescan framkvæmdi könnunina í löndum þar sem það hafði prufað og sannreynt samstarfsaðilana á hverjum stað fyrir sig.

Af hverju var einblínt á lönd í Ameríku og Asíu og á Kyrrahafssvæðinu en aðeins tvö afrísk lönd og ekki neitt í Miðausturlöndum eða Norður-Afríku?

Globescan framkvæmdi könnunina þar sem þeir höfðu virta samstarfsaðila sem gátu staðið undir því að gera áreiðanlega og trausta rannsókn. Þar á meðal voru tvö stór og fjölmenningarleg lönd í Afríku með samstarfsaðila (Nígería er eitt fjölmennasta land Afríku). Globescan gat ekki framkvæmt könnunina í Miðausturlöndum vegna þess að málefnið er of viðkvæmt og erfitt fyrir jafnt svarendur og spyrjendur. Auk þess var Globescan ekki með áreiðanlega samstarfsaðila á svæðinu sem gátu gert þetta á tilætluðum tíma.

Hvernig getið þið verið viss um að fólk hafi sagt satt og að útkoma könnunarinnar sé rétt?

Globescan notast við leiðir til að takmarka hlutfall ónákvæmra svara: Gætt er þess að spurningar séu ekki leiðandi; viðtöl eru fyrsta flokks og framkvæmd af þjálfuðum spyrjendum sem eru vel inni í málunum; Globescan vinnur með fyrsta flokks samstarfsaðilum sem flestir hafa framkvæmt kannanir fyrir þá í mörg ár.

Finnst ykkur það virkilega trúverðugt að aðeins 2% af fólki í Kína óttist pyndingar? (Þetta er algjörlega á skjön við skýrslu ykkar sem bendir á að pyndingar séu útbreiddar í Kína.)

Í heildina svöruðu 25% kínverskra þátttakenda að þeir óttuðust pyndingar – 2% voru mjög sammála um að þeim myndi ekki finnast þeir óhultir fyrir pyndingum í varðhaldi og 23% voru sammála. Meirihlutinn (74%) taldi að hægt væri að réttlæta pyndingar til að ná fram upplýsingum til verndar almenningi. Þessi svör kunna að endurspegla þá virðingu sem kínverskur almenningur hefur gagnvart yfirvaldinu og þá trú að löghlýðinn almenningur sé ekki í hættu. Það gæti einnig endurspeglað tregðu til að segja nokkuð sem hægt væri að skilja sem gagnrýni á yfirvöld.