Þinn réttur

Mikilvægur þáttur í baráttunni gegn pyndingum og annarri illri meðferð felst í fyrirbyggjandi aðgerðum. Til þeirra teljast meðal annars þekking fólks á réttindum sínum í samskiptum við valdstjórnina. Íslandsdeild Amnesty International tekur þátt í herferðinni, Stöðvum pyndingar og einn liður í þeirri herferð felst í upplýsingum í níu liðum um réttindi fólks við meðferð sakamála. Með herferðinni er lögð áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir til að sporna við því að pyndingar og ill meðferð þrífist í ríkjum heimsins.

Þekkir þú rétt þinn í samskiptum við lögreglu? 


Margir þekkja ekki rétt sinn við handtöku og rannsókn, skýrslutöku, líkamsleit og húsleit eða þegar hald er lagt á muni þeirra, svo dæmi séu tekin. Í rúmlega 50 ár hefur Amnesty International barist fyrir stjórnmálalegum og borgaralegum réttindum, þar á meðal réttinum til mannúðlegrar meðferðar handtekinna manna og til réttlátrar málsmeðferðar.

Þrátt fyrir að margt hafi áunnist er mikið verk enn að vinna. Sorglegar staðreyndir um pyndingar og aðra illa meðferð koma fram ár eftir ár í ársskýrslum samtakanna. Frá janúar 2009 til mars 2014 skráði Amnesty International pyndingar og aðra illa meðferð í 141 ríki. Pyndingar af hálfu ríkisvaldsins eru því hvergi nærri á undanhaldi þrátt fyrir að alþjóðleg lög gegn pyndingum hafi víða verið samþykkt.

Ríkisstjórnir allra landa verða að sýna í verki að þær líði ekki pyndingar eða illa meðferð undir nokkrum kringumstæðum.

Íslandsdeild Amnesty International þrýstir ennfremur á íslensk stjórnvöld að fullgilda valfrjálsa bókun við samning gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri og niðurlægjandi meðferð eða refsingu.


Réttur þinn við handtöku og rannsókn:

Hér er um útdrátt að ræða og því ekki um tæmandi talningu að ræða á réttindum og skyldum.

Lögreglu er heimilt að handtaka þig ef rökstuddur grunur leikur á að þú hafir framið brot sem sætt getur ákæru,

 1. enda sé handtaka nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, EÐA
 2. til að tryggja návist þína eða öryggi þitt eða annarra, EÐA
 3. að koma í veg fyrir að þú spillir sönnunargögnum. 

Lögreglu er einnig heimilt að handtaka þig ef þú:

 1. neitar að segja til nafns og deili á þér að öðru leyti, enda sé það nauðsynlegt í þágu rannsóknar,
 2. ef þú hefur verið kvaddur til að gefa skýrslu hjá lögreglu sem sakborningur eða fyrir dómi í sakamáli en ekki sinnt því,
 3. ef þú hefur leyfislaust horfið úr gæsluvarðhaldi eða rofið farbann. 

Lögreglu ber að:

 1. Forðast að valda þér tjóni eða baka þér meiri óþægindi en nauðsyn ber til, þ.e. henni ber að gæta meðalhófs. 
 2. Leiða þig fyrir dómara innan 24 klst. frá því þú ert handtekinn 
 3. Tilnefna þér verjanda ef þú óskar þess við fyrsta tækifæri. Ef þetta er ekki gert, áttu rétt á að leita til dómara og óska eftir verjanda. Auk þess er dómara skylt, ef þú óskar þess, að skipa þér verjanda ef:
  1. þess hefur verið krafist að þú sætir gæsluvarðhaldi eða öðrum ráðstöfunum,  EÐA
  2. mál hafi verið höfðað gegn þér. 
 4. Aðeins að taka upp að nýju rannsókn – sem hefur verið hætt því sakargögnin hafa þóttu ekki nægileg til ákæru – ef ný sakargögn eru komin fram eða líklegt er talið að þau komi fram. 
 5. Tilkynna þér ef rannsókn gegn þér hefur verið hætt. 

Þú átt rétt á að:

 1. Vita af hverju það er verið að handtaka þig. 
 2. Hafa samband við lögmann og nánustu vandamenn þegar eftir handtöku.Nánustu vandamenn þínir eru ekki skyldugir að veita lögreglu lið í þágu rannsóknar. 
 3. Tala einslega við verjanda um hvaðeina sem málið varðar. 
 4. Vera með verjanda þinn viðstaddan þegar skýrsla er tekin af þér. 

Við skýrslutöku við rannsókn:

Lögreglu ber að:

 1. Gæta þess að skýrslutaka vari ekki lengur en 12 klukkustundir á hverjum 24 klukkustundum. 
 2. Spyrja einungis spurninga sem eru skýrar og ótvíræðar. 
 3. Ekki rugla þig með ósannindum eða á annan hátt. 
 4. Hljóðrita eða skrásetja orðrétt eftir þér það sem þú segir í skýrslutöku. 
 5. Gefa þér tækifæri til að lesa það sem skráð hefur verið eftir þér. 
 Þú átt rétt á:
 1. Hléi í a.m.k. 1 klukkustund, ef skýrslutaka hefur varið 4 klukkustundir eða lengur. 
 2. Hvíld og næringu við skýrslutöku. 
 3. Ókeypis aðstoð túlks. 
 4. Ekki svara spurningum um refsiverða hegðun. 
 5. Að lögreglan geri þér grein fyrir sakarefni við upphaf skýrslutöku hafir þú ekki enn fengið upplýsingar um það. 

Hald á munum:

Að meginreglu skal leggja hald á muni, þ.á.m. skjöl, ef ætla má að þeir eða hlutir eða upplýsingar sem þeir hafa að geyma:

 1. hafi sönnunargildi í sakamáli, EÐA
 2. þeirra hafi verið aflað á refsiverðan hátt, EÐA
 3. þeir kunni að verða gerðir upptækir.

Lögreglu er óheimilt að leggja hald á muni ef þeir hafa að geyma upplýsingar um samskipti milli þín og verjanda þíns.   

Húsleit:

Skilyrði fyrir húsleit: 

 1. Rökstuddur grunur leiki á að framið hafi verið brot sem getur sætt ákæru. 
 2. Að sakborningur hafi verið þar að verki, enda séu augljósir rannsóknarhagsmunir í húfi.  
 3. Að rannsókn beinist að broti sem varðað getur fangelsisrefsingu að lögum.  
 4. Lögreglan verður að meginreglu að vera með úrskurð dómara, nema fyrir liggi ótvírætt samþykki þitt eða brýn hætta er á að bið valdi sakarspjöllum.  

Líkamsleit og líkamsrannsókn:

Skilyrði líkamsleitar:

 1. Nauðsynlegt þykir til að taka af þér muni sem hald skal leggja á.
 2. Rökstuddur grunur um að þú hafir framið brot sem varðar getur:
  1. fangelsisrefsingu skv. almennum hegningarlögum EÐA
  2. tveggja ára fangelsi skv. öðrum lögum. 
 3. Framkvæmd af lögregluþjóni sem er sama kyns og þú 
 4. Lögreglan verður að vera með úrskurð dómara, nema fyrir liggi ótvírætt samþykki þitt eða brýn hætta er á að bið valdi sakarspjöllum. 
 Skilyrði innvortis leitar:

 1. Ef talið er að þú felir þar muni eða efni sem hald skal leggja á.
 2. Rökstuddur grunur um að þú hafir framið brot sem varðað getur 6 ára fangelsi að lögum.
 3. Læknir verður að meta hvort að óhætt sé að grípa til slíkrar leitar með tilliti til heilsu þinnar. 
 4. Framkvæmd af lækni eða öðrum sem hefur til þess viðeigandi menntun.  
 5. Lögreglan verður að vera með úrskurð dómara, nema fyrir liggi ótvírætt samþykki þitt. 
 6. Þú mátt segja nei, ef að lögreglan hefur ekki aflað úrskurðar dómara.  

Skilyrði líkamsrannsóknar:

 1. Það leikur rökstuddur grunur á að þú hafir framið brot sem varðað getur fangelsi að lögum.
 2. Rannsóknin er þér að meinalausu.
 3. Framkvæmd af lækni eða öðrum sem hefur til þess viðeigandi menntun.
 4. Lögreglan verður að meginreglu að vera með úrskurð dómara, nema fyrir liggi ótvírætt samþykki þitt. 
 5. Þú mátt segja nei, ef að lögreglan hefur ekki aflað úrskurð dómara.  

Heimilt er að taka blóð- og þvagsýni og önnur lífsýni úr þér og rannsaka þau, svo og að framkvæma aðra líkamsrannsókn, ef að ofantalin skilyrði eru uppfyllt. 

Taka má af þér fingraför, ljósmyndir og öndunarsýni í þágu rannsóknar. 

Skilyrði geðrannsóknar:

 1. Rökstuddur grunur leiki á að þú hafir framið brot sem varðað getur fangelsisrefsingu að lögum.
 2. Vafi leikur á hvort þú sé sakhæfur eða refsing geti borið árangur vegna andlegs ástands þíns. 
 3. Framkvæmd af lækni eða öðrum sem hefur til þess viðeigandi menntun.  
 4. Lögreglan verður að vera með úrskurð dómara, nema fyrir liggi ótvírætt samþykki þitt. 
 5. Þú mátt segja nei, ef að lögreglan hefur ekki aflað úrskurð dómara.

Símahlustun:

Skilyrði fyrir símahlustun og öðrum sambærilegum úrræðum:

 1. Að ástæða sé til að ætla að upplýsingar, sem skipt geta miklu máli fyrir rannsókn máls, fáist með símahlustun eða öðrum sambærilegum úrræðum. 
 2. Rannsókn beinist að broti sem varðar allt að átta ára fangelsi EÐA að ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess.  
 3. Til þessara aðgerða þarf úrskurð dómara eða ótvírætt samþykki umráðamanns og eiginlegs fjarskiptatækis.  
 4. Þú mátt segja nei við símahlustun eða öðrum sambærilegum úrræðum, ef viðkomandi er ekki með úrskurð dómara.
 5. Upplýsingum sem fengnar eru með þessum hætti skal eyða jafnskjótt og þeirra er ekki lengur þörf  

Réttur þinn sem gæsluvarðhaldsfangi:

Skilyrði fyrir gæsluvarðhaldsúrskurði:

 1. Rökstuddur grunur sé um að þú hafir gerst sek/ur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við.
 2. Þú hefur náð 15 ára aldri, eða 18 ára ef telja má víst að barnaverndarúrræði, farbann eða vistun á stofnun geti ekki komið í staðinn.
 3. Auk þess verður a.m.k. eitt eftirtalinna skilyrða að eiga við, nema það brot sem um ræðir geti varðað 10 ára fangelsi og almannahagsmunir krefji:
  1. Ætla megi að þú munir gera rannsókn málsins erfiðari, EÐA
  2. reyna að komast úr landi eða leynast, EÐA
  3. halda áfram brotum eða þú hafir rofið skilorð, EÐA
  4. gæsluvarðhald sé nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum þínum eða þig sjálfa/n fyrir árásum annarra.   
Þú átt rétt á að:
 1. Fá heimsóknir. 
 2. Tala við verjanda þinn í einrúmi. 
 3. Senda bréf til dómstóla, Umboðsmanns Alþingis og verjanda þíns, án þess að efni bréfsins sé athugað. 
 4. Vera ekki gegn þínum vilja hafður með öðrum föngum. 
 5. Útvega þér eða taka við fæði, fatnaði og öðrum persónulegum nauðsynjum.  
 6. Nota síma og fjarskiptatæki, lesa dagblöð og bækur og fylgjast með útvarpi og sjónvarpi, nema nauðsyn beri til í þágu rannsóknar. 

Réttur þinn og þinna við skýrslutöku fyrir dómi:

Þú þarft ekki að gefa skýrslu eða svara spurningum um refsiverða hegðun sem þér er gefin að sök.  

Fólk sem er nákomið þér getur skorast undan því að gefa vitnaskýrslu fyrir dómi. 

Hvert getur þú leitað með kvörtun eða kæru vegna meðferðar lögreglu eða fangavarða?

Kvörtunum eða athugasemdum vegna framgöngu og starfshátta lögreglu, þegar ekki er um refsiverða háttsemi að ræða, getur þú beint til viðkomandi lögreglustjóra eða ríkislögreglustjóra eftir atvikum.

Kæru á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans skalt þú beina til ríkissaksóknara og fer hann með rannsókn málsins.

Þú getur farið á næstu lögreglustöð og látið taka af þér skýrslu sem lögregla skráir niður og er hún þá send ríkissaksóknara í samræmi við ofangreint.

Ef þú telur þig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu starfsmanns/starfsmanna ríkis eða sveitarfélaga (þ.m.t. lögreglu og/eða fangavarða) geturðu kvartað yfir því til umboðsmanns Alþingis.

Þú getur einnig kvartað til umboðsmanns ef málið varðar starfsemi einkaaðila sem hefur verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu þína.

Hægt er að nálgast eyðublað fyrir kvörtun bæði á pdf og word á heimasíðu umboðsmanns á slóðinni umbodsmaduralthingis.is


Til baka