• ©Amnesty

Verndun fólks á flótta

Hörmungar og stríð geysa víða um heiminn. Ein afleiðing þessa eru fólksflutningar og flótti, þar sem fólk neyðist til að yfirgefa heimili sín.

Ástæður þess að fólk flýr heimaland sitt geta verið  margvíslegar. Sumir flýja vegna hungurs, efnahagslegs ástands og vopnaðra átaka en aðrir sæta ofsóknum af hendi yfirvalda eða annarra aðila.

Eftirfarandi er skilgreining á hugtakinu flóttamaður skv. 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna: „Einstaklingur/einstaklingar sem „er/u utan heimalands síns […] af ástæðuríkum ótta við að verða ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum eða stjórnmálaskoðana, og getur ekki eða vill ekki, vegna slíks ótta, færa sér í nyt vernd þess lands; eða þann, sem er ríkisfangslaus, og er utan þess lands, þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur, vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki, vegna slíks ótta, hverfa þangað aftur.“ 

Það er grundvallarréttur hvers manns að geta flúið heimaland sitt og fá vernd í öðru landi verði hann fyrir ofsóknum af hendi ríkisvalds í eigin ríki eða ef ríkisvaldið getur ekki veitt viðkomandi vernd fyrir ofsóknum.

Sá sem óskar eftir hæli er skilgreindur sem hælisleitandi þar til umsókn hans hefur fengið endanlega afgreiðslu hjá viðkoman di stjórnvöldum. Með umsókn sinni um hæli er einstaklingurinn að biðja stjórnvöld um viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttamaður. Hælisleitandi er einstaklingur sem hefur yfirgefið land sitt en ekki fengið vernd sem flóttamaður. Á meðan hælisleitandi bíður úrskurðar um formlega stöðu sína hefur hann engu að síður rétt til verndar samkvæmt alþjóðlegum flóttamannalögum. Koma ætti fram við hælisleitendur eins og flóttamenn þar til úrskurðað er að þeir þurfi ekki á alþjóðlegri vernd að halda. 

Stjórnvöldum þess ríkis, þar sem hælisbeiðnin var lögð fram, er ekki heimilt að hafa samband við stjórnvald í upprunaríki hælisleitendans til þess að afla um hann upplýsinga. Slíkt er talið geta stefnt hælisleitendanum í mikla hættu, ef honum skyldi snúið til baka. Slíkt gæti einnig komið fjölskyldum hans og vinum í vandræði.

Alþjóðasamningur um stöðu flóttamanna frá árinu 1951.

Ísland er, ásamt 146 öðrum þjóðum, aðili að alþjóðasamningi um réttarstöðu flóttamanna. Samningurinn er frá 1951 og bókun sama efnis frá 1967. Ríki, sem eru aðilar að bókuninni, skuldbinda sig til að beita efnisákvæðum samningsins um flóttamenn, eins og þeir eru skilgreindir í samningnum. Í stuttu máli má segja, að með aðild að samningnum samþykki Ísland eins og önnur aðildarríki samningsins skilgreiningu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) á hugtakinu flóttamaður, og fylgi þeim reglum sem um þá eru settar í alþjóðasamningum. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (e. Office of the United Nations High Commissioner for Refugees – UNHCR) var sett á laggirnar 1. janúar 1951 á grundvelli ákvörðunar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.

Flóttamenn, sem eru skrásettir í flóttamannabúðum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, og hafa fengið viðurkennda stöðu sem slíkir, geta stundum ekki nýtt sér vernd í því landi sem þeir eru staddir hverju sinni, og það er því oft mat Flóttamannastofnunarinnar, að nauðsynlegt sé að flytja þá til annars lands. Þegar svo er, þá biðla Sameinuðu þjóðirnar til aðildarríkja samningsins að taka við þessum einstaklingum og veita þeim vernd samkvæmt ákvæðum samningsins. Þessir flóttamenn eru oft nefndir „kvótaflóttamenn“, þ.e. „resettlement refugees“. Greinarmunur er gerður á þeim og ,,samnings“-flóttamönnum (e. Convention refugees) sem fá viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttamenn eftir hælisleit í móttökulandinu.

Kvótaflóttamenn þurfa sum sé ekki að ganga í gegnum sama ferli og hælisleitendur heldur er þeim veitt viðurkenning á stöðu þeirra sem flóttamenn við komuna til landsins og njóta þeir mun ríkari réttinda heldur en hælisleitendur og þeir sem fá hæli af mannúðarástæðum.

Með lögum um útlendinga nr. 96/2002  var nýju ákvæði bætt inn í lögin. Er það heimildin til þess að veita dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Í 2. mgr. 45. gr nýju útlendingalaganna er kveðið á um að Útlendingastofnun sé skylt að kanna hvort hælisleitenda, sem ekki telst flóttamaður í skilningi flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, skuli veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum í samræmi við 2. mgr. 11. gr. laga nr 96/2002.

Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. flóttamannasamningsins er óheimilt að endursenda hælisleitenda eða flóttamann til síns heima, eða til annars ríkis, ef ljóst er að þeir eigi á hættu að verða fyrir pyndingum, lífláti eða annarri ómannúðlegri meðferð. Þetta ákvæði er lögfest í 45. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002. 

Alþjóðasamfélagið hefur brugðist ábyrgðarskyldu sinni.

Í fyrsta skipti í sögunni hefur fjöldi flóttamanna farið yfir 60 milljónir. Sam­kvæmt mati Sam­ein­uðu þjóð­anna voru 65.3 millj­ónir manna á flótta, hæl­is­leit­endur eða á ver­gangi við lok árs 2015. Þetta jafn­gildir einum af hverjum 113 manns í heim­inum en flestir koma frá Sýr­landi, Afganistan og Sómal­íu. Í skýrsl­unni kemur einnig fram að 24 mann­eskjur þurfi að flýja heim­kynni sín á hverri mín­útu og að helm­ingur þeirra sé börn undir 18 ára. Yfir helm­ing­ur flótta­manna og hæl­is­leit­enda kem­ur frá aðeins þrem­ur lönd­um, Sýr­landi, Af­gan­ist­an og Sómal­íu.


Þrátt fyrir mikinn flóttamannastraum hafa ríkari þjóðir heims brugðist þeirri skyldu sinni að taka sameiginlega ábyrgð á flóttamannavanda heimsins. Langflestir flóttamenn heimsins eða 86% þeirra eru í ríkjum þar sem efnahagur er bágur, eins og til dæmis í Tyrklandi, Pakistan og Líbanon. 

Samkvæmt mati Sameinuðu þjóðanna eru milljón flóttamanna  í dag í brýnni þörf á endurbúsetu. Engu að síður er skuldbinding ríkja um að veita flóttafólki endurbúsetu (búseta í þriðja ríki) aðeins 100.000 á ári og aðeins 30 ríki hafa skuldbundið sig til að taka við kvótaflóttamönnum. Þá deila ríkari þjóðir ekki þeim fjárhagslegu skuldbindingum sem flóttamannavandanum fylgir.

António Guterres, Flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna lýsti miklum vonbrigðum með Evrópuríkin í þessu samhengi. Þau hafa aðeins tekið á móti 6% flóttafólks en Bandaríkin, Nýja-Sjáland, Kanada og Ástralía 90% þeirra sem fá endurbúsetu. Eitt af forgangsverkefnum Flóttamannastofnunarinnar er að hvetja aðildarríki til að taka á móti fleiri flóttamönnum.

Þörf er á nýrri alþjóðlegri nálgun í málefnum flóttamanna, sem byggir á stöðugu og traustu alþjóðlegu samstarfi þar sem ábyrgðarskyldan er jöfn og sanngjörn.

Á allsherjarfundi Sameinuðu þjóðanna í september 2016, þar sem rætt verður um flóttafólk og hælisleitendur, ættu ríki heims að samþykkja nýjan alþjóðlegan sáttmála um samábyrgð á flóttafólki, sáttmála sem byggir á alþjóðlegum mannréttindalögum og alþjóðlegri flóttamannalöggjöf.