Ítalía: Barsmíðar og ólögleg brottvísun á flóttafólki

Samkvæmt skýrslu Amnesty International, sem birt var í nóvember 2016, hefur þrýstingur Evrópusambandins á stjórnvöld á Ítalíu um að sýna hörku gagnvart flóttafólki og hælisleitendum leitt til ólöglegra brottvísana og illrar meðferðar sem í sumum tilfellum jafngildir pyndingum.

Barsmíðar, rafstuð og kynferðisleg niðurlæging eru meðal þeirra fjölda ásakana um illa meðferð sem fram koma í skýrslu Amnesty International, Hotspot Italy: How EU's flagship approach leads to violations of refugee and migrant rights.

Skýrslan sýnir fram á hvernig nálgun Evrópusambandsins á málsmeðferð flóttafólks og hælisleitenda, um leið og þeir stíga á land í Ítalíu, hefur ekki aðeins grafið undir rétti þeirra til að leita hælis, heldur ýtt undir skelfileg mannréttindabrot.

„Með ákvörðun sinni um að draga úr áframhaldandi flóttamannastraumi til annarra aðildarríkja Evrópusambandsins, ýttu þjóðarleiðtogar sambandsins ítölskum stjórnvöldum út í ólöglegar aðgerðir,“ segir Matteo de Bellis, rannsakandi Amnesty International á Ítalíu. „Afleiðingar eru þær að fólk, sem lagt hefur á sig átakanlegt ferðalag [til að flýja stríðsátök og ofsóknir í heimalandinu] og þjáist af áfallastreitu, er látið sæta meingölluðu skráningareftirliti og í sumum tilfellum skelfilegu ofbeldi af hálfu lögreglu, auk þess að sæta ólöglegum brottvísunum.“

Nálgun Evrópusambandsins á málsmeðferð flóttafólks og hælisleitenda er ætluð til að auðkenna og skrá fingraför allra þeirra sem eru nýkomnir til landsins í þeim ríkjum Evrópu sem eru í framlínu flóttamannavandans, eins og Ítalía. Tilgangurinn er að flýta fyrir mati á þörf hælisleitenda fyrir vernd og annaðhvort taka hælisumsókn fólks fyrir eða endursenda það til upprunalandsins. Skýrslan, sem byggir á viðtölum við 170 flóttamenn og farandfólk, sýnir að misbrestur er á hverju stigi ferlisins.

Hið yfirlýsta markmið Evrópusambandsins var að létta á álaginu á ríki Evrópu þar sem flóttamannastraumurinn er mestur, eins og á Ítalíu, og inn í þá nálgun fléttaðist sú áætlun að veita hælisleitendum endurbúsetu í öðrum Evrópuríkjum. Engu að síður hefur það sannast að sá samhugur sem nálgun Evrópusambandsins átti að byggja á er að mestu tálsýn. Af þeim 40.000 flóttamanna á Ítalíu sem var lofað endurbúseta hafa einungis 1200 fengið ósk sína uppfyllta en 150.000 flóttamenn hafa komið sjóleiðina að Ítalíu á þessu ári.

Fingraför tekin með valdi

Samkvæmt tilmælum frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sem kynnt voru árið 2015, er ítölskum stjórnvöldum skylt að taka fingraför allra flóttamanna sem koma til landsins. Þeir sem vilja hins vegar sækja um hæli í öðru Evrópuríki, ef til vill vegna þess að ættingjar þeirra eru þar fyrir, eiga hagsmuna að gæta að forðast slíka skráningu vegna hættunnar á að verða endursend til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Vegna þrýstings frá löndum og stofnunum Evrópusambandsins hafa ítölsk stjórvöld gripið til þvingunaraðgerða til ná fingraförum fólks. Amnesty International skráði fjölda frásagna um varðhald af geðþóttaástæðum og óhóflega valdbeitingu til þvinga karlmenn, konur og börn, sem eru nýkomin til landsins, að láta fingraför sín í té. Af þeim 24 frásögnum sem báru vitni um illa meðferð fólu 16 í sér vitnisburð um barsmíðar. Ung kona, 25 ára, frá Erítreu lýsti því hvernig lögreglumaður sló hana endurtekið í andlitið þar til hún samþykkti af gefa fingrafar sitt.

Í nokkrum tilvikum fullyrtu flóttamenn og hælisleitendur að þeim hafi verið gefið rafstuð. 16 ára drengur frá Darfúr lýsti þeirri illu meðferð sem hann sætti: „Þeir gáfu mér rafstuð með prikum, oft og mörgum sinnum á vinstri fótlegg, síðan á þeim hægri, á brjóstkassann og kvið. Ég var of máttvana, ég gat ekki veitt viðnám og á þeim tímapunkti gripu þeir um hendur mér og settu á tækið.“

Annar 16 ára drengur og 27 ára gamall maður fullyrtu að lögregla hafi niðurlægt þá kynferðislega og valdið þeim sársauka á kynfærum. Karlmaðurinn lýsti því hvernig lögreglumenn í Catania börðu hann og gáfu honum raflaust áður en þeir þvinguðu hann til að afklæðast og beittu kvíslóttri, oddhvassri töng á hann. „Mér var komið fyrir á stól sem var gerður úr áli, án sætis og því opinn fyrir miðju. Þeir héldu um axlir mér og fætur, gripu um eistu mér með tönginni og toguðu tvisvar. Ég get ekki lýst hversu sársaukafullt það var.“

Enda þótt aðgerðir flestra lögreglumanna séu faglegar og meirihluti skráninga á fingraförum eigi sér stað áfallalaust, vekja niðurstöður skýrslunnar ugg og benda til þess að rík ástæða sé til að ýta óháðri rannsókn úr vör.

Skimun

Samkvæmt nálgun Evrópusambandsins skulu allir þeir sem stíga fyrst á land á Ítalíu gangast undir skimun í þeim tilgangi aðgreina hælisleitendur frá óskráðu farandfólki. Fólk sem er örmagna eftir erfitt ferðalag og þjáist oftar en ekki af áfallastreituröskun, hefur ekki nægilegt aðgengi að upplýsingum eða ráðgjöf um hæliumsóknarferlið, er neytt til að svara spurningum sem gætu haft djúpstæð áhrif á framtíð þeirra. Kona, 29 ára, frá Nígeríu sagði við Amnesty International: „Ég veit ekki einu sinni hvernig við komumst hingað, ég var grátandi ... ég sá svo marga lögreglumenn, ég var hrædd ... hugur minn var víðs fjarri, ég mundi ekki einu sinni nöfn foreldra minna.“

Lögregla á Ítalíu krefur alla þá sem eru nýkomnir til Ítalíu svara um hvers vegna þeir eru þangað komnir, frekar en að spyrja hvort þeir hafi í hyggju að sækja um hæli. Þar sem staða flóttamanna er ekki ákvörðuð út frá þeim ástæðum sem þeir koma til tiltekins lands heldur út frá því ástandi og aðstæðum sem mæta þeim sé þeim snúið aftur til heimalandsins, er ljóst að þessi aðferð er meingölluð. Á grundvelli viðtals sem er mjög stutt eru lögreglumenn, sem skortir viðeigandi þjálfun, í raun að taka ákvörðun um þörf einstaklinga á vernd. Þeir sem ekki teljast eiga tilkall til hælis er fyrirskipuð brottvísun m.a. þvinguð endursending til upprunalandsins, þar sem fólk kann að eiga í hættu á að sæta grófum mannréttindabrotum.

Brottvísun

Vegna þrýstings frá Evrópusambandinu hefur Ítalía leitast eftir því að endursenda fleira farandfólk til heimalandsins. Gerðir hafa verið samningar um endurmóttöku við lönd sem eru sek um hræðileg grimmdarverk. Einn slíkur samningur, Memorandum of Understanding sem var undirritaður á milli ítalskra og súdanskra stjórnvalda í ágúst felur í sér m.a. í sér að ekkert rými er gefið til ákvörðunar á einstaklingsgrundvelli um hættuna á mannréttindabrotum í heimalandinu. Nú þegar er vitað um ólöglegar endursendingar frá Ítalíu til Súdan.

Hinn 24. ágúst 2016 voru 40 einstaklingar, allir frá Súdan, sendir frá Ítalíu með flugvél til Kartúm. Amnesty International ræddi við 23 ára karlmann frá Darfúr sem var um borð í flugvélinni og greindi frá því að öryggisverðir hafi beðið hans á flugvellinum í Kartúm. „Þeir fóru með okkur á sérstakt svæði á flugvellinum og tóku til við að berja okkur ... við vorum yfirheyrðir, hver á fætur öðrum ... nú óttast ég að öryggissveitir elti mig uppi og ef þeir finna mig þá veit ég ekki hvað verður um mig.“

„Þessi nálgun og aðferðafræði sem var mótuð í Brussel og hrint í framkvæmd á Ítalíu hefur ekki dregið úr álaginu á þau lönd Evrópu sem eru í framlínu flóttamannavandans heldur þvert á móti aukið á það. Þetta hefur ennfremur leitt til hræðilegra mannréttindabrota gegn örvæntingafullum og viðkvæmum hópi fólks sem Ítalía ber beina ábyrgð á og leiðtogar Evrópu pólitíska ábyrgð,“ segir Matteo de Bellis. „Evrópuþjóðir kunna að geta komið fólki af landi brott en þær geta ekki afnumið skyldur sínar gagnvart alþjóðalögum. Ítölsk stjórnvöld verða að binda enda á mannréttindabrot og tryggja að fólk sé ekki sent aftur til landa þar sem það á í hættu að sæta ofsóknum eða pyndingum.“