Ríki Evrópusambandsins hyggja á gerð fleiri vafasamra samninga til að halda flóttafólki frá álfunni

Evrópusambandið fetar nú hættulegar brautir í tilraun sinni til að vinna á flóttamannavandanum. Nýgerður samningur sambandsins við Tyrkland um endursendingar á flóttafólki til landsins, á þeim fölsku forsendum að Tyrkland sé öryggt land, er skýrt dæmi um að Evrópa stefnir óðum í að kollsigla alþjóðlega flóttamannakerfinu. Þá hafa tyrknesk stjórnvöld gerst sek um að senda flóttafólk aftur til upprunalanda þar sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu. Vitnisburðir sem Amnesty International hefur tekið saman varpa ljósi á hvernig tyrknesk yfirvöld hafa safnað fólki saman sem flúið hefur stríðsástandið í Sýrlandi, þar á meðal þunguðum konum og börnum, og sent það til baka til heimalandsins – aðgerðir sem standast hvorki tyrknesk lög né alþjóðalög. Flóttafólk annars staðar frá hefur mátt þola svipaða meðferð. Tyrkland vísaði 30 afgönskum hælisleitendum úr landi aðeins fáum klukkustundum eftir að Tyrkir skrifuðu undir umræddan samning, þrátt fyrir staðhæfingar hælisleitendanna um að þeir yrðu fyrir árásum Talibana ef þeir snéru aftur til heimalandsins.

Síðastliðna mánuði hafa tyrknesk yfirvöld lokað landamærum sínum fyrir öllum nema alvarlega særðu sýrlensku flóttafólki og dæmum hefur fjölgað um að skotið hafi verið á sýrlenskt flóttafólk og það drepið á leið sinni yfir landamærin. Þá hefur Amnesty International skráð tilvik þar sem flóttafólki er haldið í einangrun í Tyrklandi án lögfræðiaðstoðar, málsvara eða möguleika á að eiga samskipti við umheiminn. Ekki er hér allt upptalið þegar rýnt er í afleiðingar þessa fráleita samnings Evrópusambandsins og Tyrklands.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og félagasamtökum er meinaður aðgangur að flóttamannabúðum en þar á meðal eru flóttamenn sem hafa verið sendir til baka frá Grikklandi á grundvelli samningsins. Þegar óháðum aðilum er meinað að kanna aðstæður aukast líkur á að mannréttindabrot eigi sér stað á tyrkneskum svæðum þar sem flóttafólk er kyrrsett. Óháð eftirlit er nauðsynlegt til þess að tryggja að mannréttindi flóttafólks sem vísað er frá Grikklandi yfir til Tyrklands eða sem kemur frá Sýrlandi, séu virt að fullu.

Í fullkominni sjálfblekkingu um ágæti þessa samnings hyggst Evrópusambandið gera áþekka samninga við ríki eins og Alsír, Erítreu, Eþíópíu, Jórdaníu, Líbanon, Nígeríu, Malí, Marokkó og Senegal. Á fundi Evrópuráðsins dagana 28. og 29. júní munu þjóðarleiðtogar einblína á nýjan samstarfsramma við lönd utan álfunnar sem lýtur að því hvernig stjórna megi flæði flóttafólks til Evrópu. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði fram tillögu að umræddum samstarfsramma, þann 7. júní síðastliðinn. Kjarni tillögunar byggir á því að samstarfið á milli Evrópusambandsins og samstarfsríkja felist í getu hinna síðarnefndu til að koma í veg fyrir að óskráðir innflytjendur flykkist til Evrópu og til að senda hælisleitendur aftur til baka. Í þessum tilgangi er nýr samstarfsrammi kynntur mögulegum samstarfsríkjum en hann byggir á bæði jákvæðum og neikvæðum hvötum, þeirra á meðal á vettvangi viðskipta og þróunar. Enda þótt Amnesty International sé hlynnt þörfinni á auknu fjármagni og annarri aðstoð til ríkja þar sem margt flóttafólk er niðurkomið telja samtökin að alvarlegir brestir séu á þeirri nálgun sem sett er fram í tillögu Framkvæmdastjórnarinnar. Í fyrsta lagi, ætti þróunaraðstoð og önnur aðstoð til samstarfsríkja að byggja á þörf en ekki falla undir pólitískar skilyrðingar sbr. samstarfi um landamæravörslu, endursendingar flóttamanna og endurviðtöku. Að setja samstarf um fólksflutninga á oddinn og horfa framhjá öðrum málefnum, eins virðingu fyrir mannréttindum, eykur hættuna á að litið verði framhjá stöðu mannréttindamála í viðkomandi samstarfsríki, samanber brot sem fylgja  stríðsástandi og fátækt. Þar sem engin tillaga liggur fyrir um að samstarfið feli í sér eftirlit með stöðu mannréttinda í samstarfsríkjunum, en mörg fyrirhuguð samstarfsríki eru alræmd vegna alvarlegra og kerfisbundinna mannréttindabrota, hættir Evrópusambandið sjálft á að verða bendlað við mannréttindabrot. Í annan stað, felur tillagan ekki í sér neina raunverulega skuldbindingu gagnvart þörfinni fyrir að rýmka lagalegar heimildir fyrir inngöngu flóttafólks í Evrópusambandslöndin.

Merkingarbær, alþjóðleg samábyrgð á flóttafólki krefst endurhugsunar, ekki eingöngu á því hvernig eigi að deila fjármögnun á hýsingu og langtíma aðlögun flóttafólks, heldur einnig hvernig eigi að deila ábyrgð á fjölda þess flóttafólks sem tekið er á móti á alþjóðavísu. Lönd Evrópusambandsins hafa eingöngu veitt 6.321 flóttafólki endurbúsetu frá því í maí 2016 en Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna telur að ein milljón flóttafólks sé í brýnni þörf á endurbúsetu. Það er aðeins1% af því fólki sem er í sárri þörf á endurbúsetu og eingöngu þriðjungur þess fjölda flóttafólks sem Evrópusambandsríkin samþykktu í júlí 2015 að veita endurbúsetu eða samtals 22.504. Eins og fram kemur í tillögu framkvæmdastjórnarinnar er stefnt að því marki að „gera flóttafólki kleift að vera nærri heimalandi sínu“, en markmið af þessu tagi ýtir aðeins undir óbreytt ástand þar sem 86% flóttafólks í heiminum dvelur í þróunarríkjunum, löndum sem annað hvort eru óviljug eða hafa ekki burði til að veita flóttafólki aðstoð.

Flóttamannavandinn af þeirri stærðargráðu sem heimurinn stendur nú frammi fyrir krefst sterkrar forystu og alþjóðlegs samstarfs í þeim tilgangi að finna alþjóðlega lausn sem tryggir ósvikna samábyrgð og raunverulega vernd fyrir flóttafólk. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fer fram í september 2016 en það mun m.a. fjalla um fólk á flótta og farandfólk. Allsherjarþingið er einstakur vettvangur og fágætt tækifæri til að tryggja varanlegar lausnir í þessum málaflokki. Ein slík varanleg lausn felst í alþjóðlegum sáttmála um samábyrgð ríkja á flóttafólki (Global Compact) sem kallað er eftir í skýrslu aðalritara Sameinuðu þjóðanna, In Safety and Dignity: Addressing Large Movements of Refugees and Migrants. Evrópa verður að standa við meintar skuldbindingar sínar um að deila ábyrgðinni á flóttamannavandanum og sýna samstöðu með því að auka stórum við fjölda þeirra landa í álfunni sem veita flóttafólki endurbúsetu og með því að tryggja flóttafólki í Evrópu aðgang að löglegum og öruggum leiðum m.a. með fjölskyldusameiningu og veitingu vegabréfsáritunar af mannúðarástæðum.

Íslandsdeild Amnesty International skorar á íslensk stjórnvöld að styðja að fullu við bakið á því verkefni að styrkja getu og skilvirkni hins alþjóðlega flóttamannakerfis til langs tíma í þeim tilgangi að takast á við straum flóttafólks og hælisleitanda í anda samábyrgðar og samstöðu. Að auki skorar Íslandsdeild samtakanna á íslensk stjórnvöld að tryggja fólki á flótta aðgang að löglegum og öruggum leiðum og sjá til þess að öll ferli í kringum umsóknir og flutninga gangi snurðulaust, fljótt og skilvirkt fyrir sig. Við getum og eigum að gera betur með því að sýna fordæmi þegar kemur að því að veita fólki von og úrræði svo því finnist það ekki tilneytt að taka örvæntingafullar og örlagaríkar ákvarðanir.