Kenía: Flóttafólk þvingað til að snúa aftur til stríðshrjáðrar Sómalíu

Samkvæmt skýrslu Amnesty International sem kom út 15. nóvember 2016 neyða stjórnvöld í Kenía flóttafólk til að snúa aftur til Sómalíu, aðeins tveimur vikum áður en fresturinn til að loka Dadaab-flóttamannabúðunum rennur út. Í Sómalíu á flóttafólkið í hættu að særast eða láta lífið í viðvarandi vopnuðum átökum sem geisa í landinu.

Ríkisstjórn Kenía tilkynnti í maí ákvörðun sína um að loka stærstu flóttamannabúðum heims, sem hýsa 280.000 manns, að mestu flóttafólk frá Sómalíu. Máli sínu til stuðnings vísuðu stjórnvöld til vandamála tengdum umhverfis- og öryggismálum landsins og efnahagi þjóðarinnar. Auk þess bentu stjórnvöld í Kenía á skort á stuðningi frá alþjóðasamfélaginu. Í kjölfarið hafa fulltrúar þeirra lýst því yfir í fjölmiðlum að fólk verði að yfirgefa flóttamannabúðirnar áður en þeim verður endanlega lokað þann 30. nóvember 2016.

„Flóttafólkið er á milli steins og sleggju. Stjórnvöld í Kenía segja við flóttafólkið að það verði að yfirgefa flóttamannbúðirnar í lok mánaðarins ella verði það neytt í burtu án nokkurrar aðstoðar,“ segir Michelle Kagari, yfirmaður Amnesty International fyrir Austur-Afríku.

„Þessar aðgerðir stangast á við loforð kenískra stjórnvalda gagnvart alþjóðasamfélaginu um að tryggt sé að flóttafólkið sé aðeins sent til baka sjálfviljugt og að slíkri framkvæmd sé fylgt eftir af virðingu og með öryggi í huga.“

Rannsóknarteymi Amnesty International heimsótti Dadaab-flóttamannabúðirnar í ágúst 2016, tók viðtöl við 56 flóttamenn og hélt utan um umræður meðal rýnihóps sem taldi 35 einstaklinga til viðbótar. Meðal viðmælenda Amnesty International voru tveir bræður, 15 og 18 ára sem héldu til Sómalíu í janúar 2016 en snéru aftur til Dadaab-flóttamannabúðanna fjórum mánuðum síðar. Þeir greindu frá því að þegar þeir komu til Sómalíu var faðir þeirra myrtur fyrir framan þá og þeir neyddir til að starfa fyrir Al-Shabaab. Þeim tókst að endingu að flýja og snéru aftur til Dadaab.  

Flóttafólkið, sem er ætlað að snúa aftur til Sómalíu, hefur engar upplýsingar fengið um hætturnar sem tengjast vopnuðum átökum í Sómalíu, hvorki frá Sameinuðu þjóðunum né þeim óháðu félagasamtökum sem bera ábyrgð á endursendingum frá Dadaab-flóttamannabúðunum. Til að mynda þegar þúsundir flóttamanna voru sendir til baka til Sómalíu í ágúst 2016 hafði Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna ekki lagt fram neinar nýjar upplýsingar um stöðu öryggismála í Sómalíu frá því í desember 2015 þrátt fyrir aukið öryggisleysi á mörgum svæðum landsins. Sameinuðu þjóðirnar og óháð félagasamtök vinna nú að því að uppfæra upplýsingar um stöðu mála í Sómalíu en óljóst er hvenær þeirri vinnu lýkur og hversu nákvæmar upplýsingarnar verða.

Að auki hefur Sómalía ekki bolmagn til að taka á móti stórum hópi flóttafólks frá Dadaab, þar sem stjórnvöld glíma þegar við þann vanda að rúmlega ein milljón manna hefur neyðst til að flýja heimili sín í landinu. Þá er húsakjól, heilsugæsla og menntun af mjög skornum skammti í Sómalíu. Flest flóttafólk sem Amnesty International ræddi við lýsti því yfir að það hugleiddi að snúa til baka eingöngu vegna hótana yfirvalda í Kenía. Flóttafólkið vitnaði í hótanir af hálfu stjórnvalda um að ef það færi ekki tafarlaust úr landi yrði það þvingað burt og hlyti ekki fjárstyrk frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.

Hadi, sem hefur búið í Dadaab-flóttamannabúðunum síðastliðin 24 ár lét eftirfarandi orð falla: „Þau [stjórnvöld í Kenía] eru að ýta okkur burt til Sómalíu. Fulltrúar þeirra mæta í álmurnar okkar með hljóðnema og segja: „þið verðið að skrá för ykkur núna til Sómalíu...ef þið skráið ykkur ekki núna verðið þið að fara fótgangandi með börnin ykkar á bakinu.“

Frásögn Hadi á sér samhljóm í sögu Samira sem hefur búið í flóttamannabúðunum undanfarin átta ár. Hún sagði eftirfarandi: „fólk telur að það fái ekki fjárstyrk til að flytja þegar nóvember er allur og að það verði að koma sér sjálft til Sómalíu...fólk snýr til baka áður en það glatar fjárstyrknum og stuðningi til að komast á áfangastað.“

Hvorki stjórnvöld í Kenía né alþjóðasamfélagið hefur boðið þeim meirihluta flóttamanna sem ekki kýs að snúa aftur til Sómalíu annan valkost. Margir þeirra sem Amnesty International ræddi við vísuðu í öryggisleysi, skort á grunnþjónustu og ótta við mismunun, sem ástæður þess að vilja ekki snúa til baka. Meðal þeirra sem lýstu áhyggjum sínum af því að snúa til baka er fólk með fötlun og einstaklingar sem tilheyra minnihlutahópum. Það er ekki valkostur fyrir þessa einstaklinga að snúa til baka þar sem þeim verður ekki veitt nein vernd í Sómalíu.

Mouna, móðir fatlaðs barns, sagði: „það er engin aðstaða fyrir fatlað fólk í Sómalíu. Sem flóttamenn erum við þegar neðarlega á lista samfélagsins hvað viðkemur öllum þáttum. Ef við eigum börn með fötlun förum við aftast í röðina þegar kemur að því að fá aðstoð.“

Amina, móðir sex ára drengs með albinisma greindi frá því að meginástæða þess að hún vill ekki fara aftur til Sómalíu sé sú að landar hennar skilji ekki ástand sonarins. „Í flóttamannabúðunum líta sumir á hann sem óskilgetinn og telja hann útlending. Sum börnin stríða honum af því að hann er öðruvísi. Í Sómlaíu er ástandið mun verra. Hann fengi heldur ekki þau krem sem hann þarfnast fyrir húðina heima fyrir.“

Skortur á stuðningi alþjóðasamfélagsins gagnvart Kenía, sem felst m.a. í undirfjármögnun og sárafáum stöðum sem bjóða viðkvæmum hópi flóttamanna endurbúsetu, hefur gert hörmulegar aðstæður flóttafólksins í Dadaab enn verri. Eingöngu tíu lönd hýsa meira en helming þeirrar tuttugu og einu milljónar flóttamanna sem eru í heiminum í dag – Kenía er eitt þessara landa.

„Auknar hömlur kenískra stjórnvalda á flóttafólki frá Sómalíu eiga sér stað á tímum þegar ríkari þjóðir heims bregðast algerlega því hlutverki sínu að taka sanngjarna ábyrgð á flóttamannavandanum. Í stað þess að einblína á heimsendingar flóttamanna til Sómalíu, þar sem fólkið á í hættu að sæta enn frekari mannréttindabrotum, ætti alþjóðasamfélagið að vinna með stjórnvöldum í Kenía að varanlegri lausn,“ segir Michelle Kagari.

„Þetta felur m.a. í sér að fjölga þeim ríkjum sem bjóða viðkvæmasta hópi flóttamanna, endurbúsetu. Einnig þarf þetta að fela í sér ábyrgð kenískra stjórnvalda á því að tryggja flóttafólki réttindi sín og aðlögun í samfélaginu, fjarri flóttamannabúðunum, með fullum stuðningi alþjóðasamfélagsins.“