Mikill meirihluti fólks er tilbúið að taka á móti flóttafólki með opnum örmum

Meirihluti fólks (80%) víða um heim myndi taka á móti flóttafólki með opnum örmum og margir eru tilbúnir til að hýsa það á eigin heimilum, samkvæmt nýrri skoðanakönnun, The Refugees Welcome Index, sem Amnesty International lét gera.  

Skoðanakönnunin sem náði til 27.000 einstaklinga í 27 löndum, þvert á allar heimsálfur, var innt af hendi Globescan sem er nafntogað ráðgjafafyrirtæki. Skoðanakönnunin tók til fúsleika fólks í 27 löndum til að bjóða flóttafólk velkomna í eigið land, eigin borg, nágrenni og heimili.

Niðurstöðurnar sýna að fólk er tilbúið til að leggja gífurlega mikið á sig til að bjóða flóttafólk velkomið. Skoðanakönnunin sýnir jafnframt hvernig orðræða stjórnmálamanna er á skjön við almenningsálitið.

„Þessar tölur tala sínu máli. Almenningur er tilbúinn til að bjóða flóttamenn velkomna og ómannúðleg viðbrögð ríkisstjórna víða um heim eru algerlega úr takti við afstöðu almennings.  Skoðanakönnunin fléttir ofan af þeirri svívirðilegu skammtímapólitík sem stjórnvöld víðs vegar hafa leikið þegar kemur að lífi fólks sem flýr stríðsástand, kúgun og ofsóknir. Ríkisstjórnir um allan heim verða að gefa þessum niðurstöðum gaum sem sýna skýrt að mikill meirihluti almennings er reiðubúinn að bjóða flóttafólk velkomið. Ríkisstjórnir geta ekki látið viðbrögð sín við flóttamannavandanum stjórnast af fréttafyrirsögnum. Alltof of oft nota stjórnvöld orðræðu útlendingarhaturs til að fá stuðning fárra en háværra radda sem taka undir slík viðhorf. Skoðanakönnunin gefur skýrt til kynna að stjórnvöld eru ekki að hlusta á þöglan meirihluta borgara sem tæki á móti flóttafólki opnum örmum og tekur flóttamannavandann persónulega“, segir Salil Shetty framkvæmdastjóri Amnesty International.

Almenningur í Kína, Þýskalandi og Bretlandi jákvæðastur gagnvart móttöku flóttafólks 

Kína trónir efst í skoðanakönnuninni yfir þau lönd þar sem almenningur er einna jákvæðastur gagnvart móttöku flóttafólks. Þýskaland og Bretland koma næst á eftir. Almenningur í Rússlandi, Indónesíu og á Taílandi er einna neikvæðastur gagnvart móttöku flóttafólks.

Rétt tæplega helmingur aðspurðra í Kína, 46% sagðist vera tilbúinn til að taka á móti flóttafólki á eigin heimili.

Rúmlega helmingur aðspurðra í Þýskalandi, 57% sagðist taka á móti flóttafólki í nágrenni sínu og einn af hverjum tíu kvaðst reiðubúinn að bjóða flóttafólk velkomið á eigið heimili. Nærri allur almenningur í Þýskalandi, 96% sagðist reiðubúinn að taka á móti flóttafólki í eigin landi. Aðeins 3% sagðist neita flóttafólki inngöngu í Þýskalandi.

Almenningur í Bretlandi sýndi næstmestan vilja til að bjóða flóttafólk velkomið á eigið heimili, 29%. Önnur 47% aðspurðra á Bretlandi sagðist bjóða flóttafólk velkomið í hverfið sitt. Mikill meirihluti almennings á Bretlandi, 87% sagðist tilbúinn til að bjóða fóttafólk velkomið til Brelands.

Almenningur í nokkrum löndum sem þegar hafa tekið á móti miklum fjölda flóttafólks sýnir engin merki um þverrandi vilja til að taka á móti flóttafólki. Grikkland og Jórdanía eru í tíu efstu sætunum yfir lönd þar sem almenningur er einna jákvæðastur gagnvart móttöku flóttafólks.

Skoðanakönnunin mældi mismunandi viðhorf til móttöku flóttafólks.

Skoðanakönnuninn var gerð með því að spyrja 27.000 einstaklinga í 27 löndum hversu nálægt heimahögum þeir væru tilbúnir að bjóða flóttamenn velkomna: á heimili sitt, í hverfið sitt, í bæinn sinn, í borgina sína, í landið sitt eða hvort þeir myndu með öllu neita flóttamönnum inngöngu í landið sitt. 

Niðurstöðurnar sýna að almenningur er tilbúinn að ganga mjög langt til að bjóða flóttafólk velkomið: 

  • Á alþjóðavísu myndi einn af hverjum tíu bjóða flóttamenn velkomna á heimili sitt. Í Kína sögðust 46% aðspurðra vera tilbúnir til að bjóða flóttafólk velkomið á heimili sitt, 29% í Bretlandi og 20% á Grikklandi. Aðeins 1% aðspurðra í Rússlandi sagðist tilbúið til að taka á móti flóttafólki á eigið heimili og 3% í Póllandi.
  • Á alþjóðavísu sögðust 32% aðspurðra vera tilbúinn til að bjóða flóttafólk velkomið í hverfið sitt, 47% í bæinn sinn eða borgina sína og 80% aðspurðra í eigið land.
  • Í 20 löndum af 27 sögðust rúmlega 75% aðspurðra vera tilbúið til að hleypa flóttafólki inn í eigið land.

 

  • Á alþjóðavísu sögðust aðeins 17% aðpurðra neita flóttamönnum inngöngu í landið sitt. Aðeins í Rússlandi sagðist rúmlega þriðjungur (61%) aðspurðra ekki hleypa flóttamönnum inn í landið.

Almenningur víða um heim styður alþjóðlega vernd hælisleitenda – almenningur krefst aðgerða af hálfu stjórnvalda.  
Tvær aðrar spurningar komu einnig fram í skoðanakönnuninni.

Aðgengi að hæli í öðru landi:

  • 73% aðspurðra taldi að fólk sem flýr stríðsátök eða ofsóknir ætti rétt á að fá hæli í öðru landi.
  • Stuðningur við hælisleit var sérstaklega mikill á Spáni (78%), í Þýskalandi (69%) og Grikklandi (64%). 

Stjórnvöld ættu að gera meira til að aðstoða flóttmenn

  • 66% aðspurðra sögðu að ríkisstjórn þeirra ætti að gera meira til aðstoða flóttafólk.
  • Í nokkrum þeirra landa þar sem mest hefur reynt á flóttamannavandann sögðu þrír fjórðu að ríkisstjórn þeirra ætti að gera enn meira til að aðstoða flóttfólk. Þetta átti m.a. við um Þýskaland (76%), Grikkland (74%) og Jórdaníu (84%).
  • Minnsti stuðningurinn við frekari aðgerðir af hálfu stjórnvalda í þágu flóttafólks var í Rússlandi (26%), Taílandi (29%) og á Indlandi (41%).

„Við áttum ekki von á að sjá svona gríðarlega mikinn samhug með flóttafólki en niðurstöður skoðanakönnunarinnar endurspegla þá miklu samúð sem fólk finnur með þeim sem flýja stríðsátök. Fólk vill gera hvað það getur til að aðstoða og ekki snúa baki í flóttafólkið. Stjórnmálamenn verða að láta sama hugarfar í ljós. Almenningur sýnir meiri stuðning við þær meginreglur sem koma fyrir í alþjóðalögum en ríkisstjórnir þeirra sem hunsa eða rífa niður skuldbindingar sem staðið hafa í 65 ár,“ segir Salil Shetty.

Alþjóðlegur leiðtogafundur um mannúðarmál: ábyrgð deilt á meðal ríkja um verndun flóttafólks.

Til að bregðast við flóttamannavandanum skorar Amnesty International á ríkisstjórnir heims að veita 1,2 milljónum flóttamanna endurbúsetu í lok árs 2017. Það er mun meira en þeir 100.000 kvótaflóttamenn sem fá endurbúsetu á hverju ári en aðeins tíundi hluti þeirra 19,5 milljóna flóttafólks sem nú eru í heiminum. 

Amnesty International skorar á ríkisstjórnir heims á Alþjóðlegum leiðtogafundi um mannúðarmál í Istanbúl dagana 23. til 24. maí næstkomandi að skuldbinda sig nýju varanlegu flóttamannakerfi þar sem ábyrgðinni á hælisveitingu og aðstoð við flóttafólk er deilt. 

Nýr alþjóðlegur sáttmáli um sameiginlega ábyrgðarskyldu ríkja á flóttamannavandanum sem lagður var fram á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þann 9. maí síðastliðinn verður vonandi samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 19. september 2016.

Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon kallar ríki saman á báða fundina til að ræða stærsta mannúðar- og flóttamannavanda mannkyns í sjötíu ár.

Fulltrúar ríkja á Alþjóðafundi SÞ um mannúðarmál verða einnig að fjalla um þann fimmtán milljarða skort á fjárframlögum til mannúðarmála sem Sameinuðu þjóðirnar beindu sjónum sínum að í upphafi árs 2016. Leggja verður meira fé bæði til stuðnings flóttafólki og þeim löndum sem hýsa mikinn fjölda þess. „Tilraunir stjórnvalda til að halda fólki sem flýr stríðsátök og ofsóknir utan landamæra sinna eru í andstöðu við þá samkennd og mannúð sem almenningur sýnir flóttafólki heima fyrir. Vernda á flóttafólk, aðstoða það og bjóða velkomið í samfélagið en ekki halda því í flóttamannabúðum og á varðhaldsstöðum. Stjórnmálamenn ættu að hætta að höfða til umburðaleysis og sundrungar og hlýða á landsmenn sem vilja aðstoða sambræður sína og systur. Þeir verða að ávarpa það skammarlega ójafnvægi sem er á móttöku flóttafólks í heiminum þar sem þróunarlöndin taka á móti 86% alls flóttafólks á meðan þróðuðu ríkin svíkja lit þegar kemur að ábyrgðarskyldu í þessum efnum,“ segir Salil Shetty.

Bakgrunnur: Hvernig skoðanakönnunin var byggð upp (Kvarði sem mælir fúsleika til að taka á móti flóttafólki „Refugees Welcome Index“)

Kvarðinn á fúsleika til að taka á móti flóttafólki raðar löndum á kvarðanum 0 til 100, þar sem 0 þýðir að allir aðspurðir neita að hleypa flóttafólki inn í landið og 100 þýðir að allir aðspurðir samþykkja að taka á móti flóttafólki í nágrenni sínu eða á heimili sitt. Kvarðinn er fenginn með því að gefa löndum stig sem byggir á meðaltali á viðbrögðum við spurningunni: „Hversu nálægt þér myndir þú persónulega taka á móti fólki sem flýr stríðsátök eða ofsóknir?“. Svörunum var raðað á kvarðann 100 með eftirfarandi hætti: 0=“Ég myndi neita flóttamönnum inngöngu í landið mitt”; 33=„Ég myndi taka á móti flóttamönnum í eigin landi“; 67=„Ég myndi taka á móti flóttamönnum í eigin borg/bæ/þorpi”; og 100=„Ég myndi taka á móti flóttamönnum í nágrenni mínu eða á eigin heimili“.

„Við þróuðum skoðanakönnunina og kvarðann til endurspegla hversu flókin málefni flóttamanna eru. Fólk er að kljást við margþættar pólitískar og tilfinningatengdar röksemdafærslur í tengslum við flóttamenn og við vildum kanna skoðanir þeirra sem manneskjur sem bregðast við mannúðarkrísu,“ segir Caroline Holme, framkvæmdastjóri GlobeScan. 

Kvarðinn á fúsleika til að taka á móti flóttamönnum

 

Röð Land  Stig
1 Kína 85
2 Þýskaland 84
3 Bretland 83
4 Kanada 76
5 Ástralía 73
6 Spánn 71
7 Grikkland 65
8 Jórdanía 61
9 Bandaríkin 60
10 Síle 59
11 Suður-Kórea 59
12 Indland 59
13 Frakkland 56
14 Gana 52
15 Pakistan 51
16 Mexíkó 50
17 Líbanon 50
18 Brasilía 49
19 Argentína 48
20 Suður-Afríka 44
21 Nígería 41
22 Tyrkland 39
23 Kenía 38
24 Póland 36
25 Taíland 33
26 Indónesía 32
27 Rússland 18

Um GlobeScan

GlobeScan er ráðgjafafyrirtæki um stefnumótun sem sérhæfir sig fyrir hagsmunaðila á sviðum eins og; sjálfbærni, áformum og orðspori. Hér er hægt að lesa sér frekar til um fyrirtækið: www.GlobeScan.com